Löglegt verðsamráð!

cow_funny1Mikið hefur verið fjallað um meint ólöglegt verðsamráð olíufyrirtækjanna undanfarin ár. Í landinu eru í gildi samkeppnislög þar sem aðilum á markaði er bannað að hafa slíkt verðsamráð.  Ekki eru þó allir settir undir sama hatt hvað þetta varðar.  Þannig er t.d. í gildi búvörusamningur þar sem kveðið um á hvernig verð á búvörum sé ákveðið.  Þannig er það t.d. í verkahring verðlagsnefndar búvara að ákveða hvað neytendur borga fyrir mjólkurlítran út í búð.  Í 7. gr. búvörulaga segir: "Verðlagsnefnd búvara, skipuð sex mönnum, ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. "

Þegar kemur að búvörum er því ekki bannað að hafa verðsamráð heldur skulu framleiðendur hreinlega hafa slíkt samráð, annað stríðir gegn lögum.  Já, svona er þetta og það er komið árið 2007.  Einhver hefði haldið að vinsældir slíks áætlunarbúskaps hefði farið þverrandi eftir fall sovétríkjanna en sú ríkisstjórn sem hefur ríkt hér síðastliðin 12 ár vill sem sagt hafa þetta svona.

Þann 14. október á síðasta ári flutti RÚV eftirfarandi frétt:

"Kúabændur vilja óbreytt búvörulög



Þórólfur Sveinsson, formaður Landsambands kúabænda, segir að verði búvörulögum breytt eins og Samkeppniseftirlitið hefur farið fram á sé hagkvæmni í mjólkuriðnaði fórnað.

Mjólkuriðnaður er undanþeginn samkeppnislögum. Fyrirtæki í greininni geta haft samráð um verkaskiptingu sem ekki samrýmist lögunum. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að breyta verði lögunum. Aðeins með því náist fram eðlilegt viðskiptaumhverfi.

Þórólfur Sveinsson, formaður Landsambands kúabænda, segir þetta ekki koma til greina. Hann segir tóma vitleysu hjá Samkeppniseftirlitinu að halda því fram að búvörulög fari í bága að við samkeppnislög. Þórólfur segir ákvæðin sem Samkeppniseftirlitið segi að fari í bága við samkeppnislög hafi verið sett í búvörulögin 2004 til að auka hagkvæmni fyrir bændur og neytendur og að tryggja minni aðilum á smásölumarkaði hliðstæð kjör og þeim stærri, það er að þeir minni fái vörur sínar á hliðstæðu verði óháð umfangi og þeir stærri."  Sjá hér

Já, mjólkurvörur eru undanþegnar samkeppislögum, þar er heimilt að hafa verðsamráð og samkeppni hreinlega bönnuð. Og þannig vilja bændur og ríkisstjórnin hafa það. Og á hvaða öld erum við aftur stödd?

Í landinu eru í gildi svokölluð búvörulög, lög nr. 99 frá 8. september 1993.  Hér á eftir eru nokkrar áhugaverðar greinar sem ég hvet lesendur þessa bloggs til að lesa yfir og klípa sig svo í handlegginn til að vera viss um að vera ekki að dreyma einhvern súrrealískan draum:

"1. gr. Tilgangur þessara laga er:
   a. að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur,
   b. að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu,
   c. að nýttir verði sölumöguleikar fyrir búvörur erlendis eftir því sem hagkvæmt er talið,
   d. að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta,
   e. að innlend aðföng nýtist sem mest við framleiðslu búvara, bæði með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnu,
   f. að stuðla að jöfnuði á milli framleiðenda í hverri búgrein hvað varðar afurðaverð og markað."

"IV. kafli. Um verðskráningu á búvörum.
7. gr. [Verðlagsnefnd búvara, skipuð sex mönnum, ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. "


"8. gr. [Verðlagsnefnd ákveður við upphaf hvers verðlagsárs, í fyrsta sinn 1. september 1998, lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda sem miðast við 1. flokks mjólk með skilgreindu efnainnihaldi [nema annað sé tekið fram í samningi milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands].1) Hverri afurðastöð er heimilt að greiða framleiðendum hærra verð en lágmarksverð. Verðlagsnefnd ákveður leyfileg afföll af verði mjólkur sem ekki stenst kröfur sem 1. flokks mjólk. Ákvörðun um lágmarksverð mjólkur skal byggjast á gerð verðlagsgrundvallar fyrir bú af hagkvæmri stærð, með framleiðsluaðstöðu þar sem tekið er mið af opinberum heilbrigðis- og aðbúnaðarkröfum og hagkvæmum framleiðsluháttum. Áætlað vinnuframlag skili endurgjaldi hliðstæðu og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni. Ákvörðun verðlagsnefndar um lágmarksverð skal tekin til endurskoðunar innan verðlagsársins komi fram um það ósk í nefndinni. Framleiðslukostnaður á nautgripakjöti til framleiðenda skal metinn og skráður af verðlagsnefnd samhliða ákvörðun á lágmarksverði mjólkur. Heimilt er verðlagsnefnd að ákveða að skráning á verði nautgripakjöts falli niður. Landssambandi kúabænda er þá heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka nautgripakjöts.
Verðlagsnefnd metur við upphaf hvers verðlagsárs framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú, í fyrsta sinn 1. september 1998. Miða skal við kostnaðarútreikninga er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstrargjöld, launakostnað og afurðir meðalbús sem er rekið við eðlilegar framleiðsluaðstæður. Tilgreina skal ársvinnu á sauðfjárbúi af stærð sem miðað er við og virða endurgjald fyrir vinnuframlag til samræmis við kjör þeirra sem vinna sambærileg störf og hafa svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð í starfi á almennum vinnumarkaði. Mat verðlagsnefndar skal taka til endurskoðunar innan verðlagsársins komi fram um það ósk í nefndinni. Landssamtökum sauðfjárbænda er heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka sauðfjárafurða.
Til ákvörðunar á framleiðendaverði annarra búvara en afurða sauðfjár og nautgripa skal verðlagsnefnd semja um verðlagsgrundvöll er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstrargjöld, launakostnað og afurðir bús sem næst meðalbúi að stærð, sem er rekið við eðlilegar framleiðsluaðstæður, komi fram um það óskir frá Bændasamtökum Íslands og viðurkenndum samtökum búvöruframleiðenda í viðkomandi grein skv. 2. mgr. 4. gr. Tilgreina skal ársvinnu á búinu og virða endurgjald fyrir vinnuframlag til samræmis við kjör þeirra sem vinna sambærileg störf og hafa svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð í starfi á almennum vinnumarkaði. Verðlagsgrundvöllurinn gildir fyrir tvö ár í senn frá byrjun verðlagsárs og skal hann vera tilbúinn fyrir þann tíma ár hvert nema annað sé ákveðið með samkomulagi í verðlagsnefnd. Nefndinni er hvenær sem er heimilt að taka mið af verðlagsbreytingum vegna fjármagns- og rekstrarkostnaðar, svo og launabreytingum á tímabilinu, komi fram um það óskir í nefndinni. Verðlagsgrundvöllur hvers tímabils framlengist sjálfkrafa um tvö ár í senn ef honum er ekki sagt upp af fulltrúum samningsaðila með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Nefndin getur þó komið sér saman um annan frest.
Við kostnaðarútreikninga skulu beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda teljast til tekna og koma til lækkunar á verði þeirra afurða sem beinar greiðslur taka til.]2)"

"13. gr. [Verðlagsnefnd ákveður heildsöluverð búvara sem verðlagðar eru skv. 8. gr., að teknu tilliti til afurðaverðs til framleiðenda og rökstuddra upplýsinga um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara, nema annað sé tekið fram í samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 30. gr. laganna. [Verði samið um að falla frá ákvörðun um lágmarksverð á mjólk til framleiðenda samkvæmt heimild í 1. mgr. 8. gr. hefur slík ákvörðun ekki áhrif á heimild verðlagsnefndar til heildsöluverðlagningar á mjólkurafurðum.]1) Nefndin getur ákveðið að efna til sérstakra rannsókna í því skyni að fá betri upplýsingar um þau atriði er máli skipta fyrir ákvörðun heildsöluverðs á búvörum með hliðstæðum hætti og segir í 11. gr."

 "30. gr. Til þess að hafa stjórn á framleiðslu búvara þannig að hún verði í samræmi við tilgang laga þessara er landbúnaðarráðherra:
   a. rétt að leita eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við [Bændasamtök Íslands]1) um magn mjólkur- og sauðfjárafurða sem framleiðendum verður ábyrgst fullt verð fyrir á samningstímanum skv. 8. gr. Samningarnir skulu gerðir fyrir 1. ágúst ár hvert og gilda næsta verðlagsár. Heimilt er að semja til lengri tíma í einu og að binda samninga við einstakar búvörur. Á sama hátt er landbúnaðarráðherra heimilt í stað ofannefndra samninga að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda mjólkur- og sauðfjárafurða á lögbýlum.
   b. heimilt að ákveða skiptingu framleiðslu einstakra búvara, þar með taldra þeirra sem um er samið skv. a-lið, eftir héruðum. Skal sú skipting miðuð við félagssvæði búnaðarsambandanna en ráðherra er þó heimilt að ákveða aðra svæðaskiptingu að fengnu samþykki [Bændasamtaka Íslands]2) og viðkomandi búnaðarsambanda.
   Heimilt er að skipta framleiðslu innan hvers svæðis eða fela stjórn viðkomandi búnaðarsambands eða samtaka framleiðenda, sem viðurkennd eru skv. 2. mgr. 4. gr., að skipta framleiðslunni milli einstakra framleiðenda samkvæmt reglugerð er ráðherra setur."

Sjá hér

Lögin eru mun víðtækari en þessar greinar segja til um.  Það er fátt sem ríkið vill ekki binda í lög er kemur að búvörum.   Mér er spurn: Erum við stödd í vestrænu ríki á árinu 2007 eða erum við stödd í sovétríkjunum á áttunda áratugnum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mjög merkileg lesning og þarfleg ,eg hefi alltið haldið að þetta mundi minn flokkur XD ekki styðja en hann gerir það/ þvi er nú ver og miður/Hvar er einstaklingsframtakið þar á ferð/spir bara????Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 13.2.2007 kl. 16:54

2 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Já, þegar nánar er að gáð þá virðist nú Sjálfstæðisflokkurinn ekki vera mikill einstaklingshyggjuflokkur.  Bestu dæmin um það eru kannski sovéskt landbúnaðarkerfi, stærsta iðnaðarsósíalisaverkefni Íslandssögunnar (Kárahnjúkavirkjun) og það að eftir 16 ára setu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn er ríkið en með einokun á sölu áfengis.

Sigfús Þ. Sigmundsson, 13.2.2007 kl. 18:20

3 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Danmörk og Svíþjóð er saman með eitt mjólkursamlag Það er eitt svínasláturhús Danmörku það er eitt mjólkursamlag í Nýjasjálandi og algjört innflutningsbann. Ég held að þessi Sovésku landbúnaðrkerfi séu nú bara allstaðar Það er rétt að þessi kerfi lenda alltaf í algjöri steypu. Ég þekki nokkuð til landbúnaðar Danmörku og veit kollegar mínir þar fá vænar fúlgur bæði frá Evrópubandalaginu og Danska ríkinu Fyrir utan starsfólkið sem er frá Austur Evrópu og fær 40,000Kr Ísl. á mánuði. Ef allir styrkir yrðu teknir af Dönskum bændum opnað fyrir innflutning af heimsmarkaði myndi allur lanbúnaður þar leggjast af. Þetta dytti ekki nokkrum Dana í hug að gera

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.2.2007 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband