Minning

kross-004-RGB-72dpiÁ eftir er ég að fara að kveðja góðan vin og fyrrum samstarfsfélaga, Hlyn Konráðsson.  Þetta hafa verið þungir dagar og óraunverulegir.  Ég hef í raun verið í afneitun síðan ég fékk þessar fréttir en er hræddur um að þetta verði allt mjög raunverulegt fyrir manni þegar í kirkjuna er komið .  Set hér inn minningargrein sem ég samdi um hann Hlyn minn.  Þessi útgáfa er upprunaleg en ég neyddist til að stytta greinina fyrir Morgunblaðið en hún birtist þar í dag.  Blessuð sé minning hans Hlyns:

Það er á stundum sem þessum sem stóru spurningar lífsins koma upp í hugann.  Hver er tilgangurinn lífsins?  Hvað erum við að gera hér?  Hversvegna þarf fólk að deyja í blóma lífsins?  Af hverju fara sumir fyrr en aðrir fá að vera lengur?  Ég hef verið að glíma við þessar spurningar á undanförnum dögum eða allt frá því að góður vinur minn, og sameiginlegur vinur okkar Hlyns, hringdi í mig og bar mér þessu hrikalegu tíðindi.   Ekki hef ég fundið svör við spurningunum nú frekar en áður enda fást svörinn sennilega aldrei, a.m.k. ekki í þessu jarðlífi.

Við Hlynur þekktumst frá unglingsárunum en þá bjuggum við báðir á Akureyri.  Ekki er hægt að segja að við höfum þekkst vel á þeim tíma en eins og í öðrum minni bæjum þekktust allir sem voru á sama aldri og við vorum jú í sama árgangi í Gagnfræðaskóla Akureyrar.   Þar þekktu allir Hlyn því hann var nokkuð áberandi í skólanum, átti marga vini og hafði sig mikið í frammi.  Síðar á ævinni hittumst við Hlynur svo í höfuðborginni ,þar sem við bjuggum báðir, og áttum oft gott spjall á förnum vegi. Við áttum líka sameiginlega vini og fréttum af hvor öðrum í gegnum þá.  

Það var þó ekki fyrr en ég leysti af í Ráðhúsi Reykjavíkur síðastliðið sumar að kynni okkar urðu nánari.   Þar unnum við á sömu skrifstofu allt sumarið og áttum mikil og góð samskipti.  Við fórum saman í mat, gengum oft saman í kringum tjörnina og spjölluðum um heima og geima og hittumumst oft eftir vinnu og brölluðum ýmislegt saman.   Þetta sumar uppgötvaði ég hversu skarpgreindur Hlynur var, hveru mikill húmoristi hann var og hversu góður vinur hann var.  Við vorum þarna nokkur á skrifstofunni sem vorum sammála um að þetta hafi verið besti vinnustaðamórall sem við hefðum upplifað og þáttur Hlyns í þeim móral var ekki lítill.  Með sínum ótrúlega beitta og skemmtilega húmor og hæfileikum í mannlegum samskiptum skapaði hann alltaf létta stemmningu í kringum sig og fólki leið vel í kringum hann.

Við héldum svo öll í sitthvora áttina eftir sumarið.  Ég fór til Miami í Bandaríkjunum, Ólafía fór til Belgíu og Hlynur, Hreinn og Álfheiður héldu áfram störfum sínum í Ráðhúsinu.  Við vorum öll harðákveðin í því að hittast aftur næst þegar við værum öll á landinu, rifja upp góða tíma og eiga góða stund saman.  Sú stund átti að vera núna í vikunni en í stað þess að fá að njóta skemmtilegrar stundar bíður okkar hinna það erfiða verkefni að kveðja góðan mann.  Það ríkir mikil sorg í okkar hópi og hjá öllum þeim sem þekktu Hlyn.   Góður félagi hefur nú kvatt þennan heim en við vitum að hann mun dvelja á góðum stað í æðri vistaverum.   Þar ætla ég að hitta hann síðar og eiga þessa góðu stund með honum sem ég var farinn að hlakka svo mikið til undanfarna daga.  Megi þær stundir verða sem flestar.

Ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur til foreldra Hlyns, Högna, Perlu og allrar fjölskyldunnar. Sérstaklega vil ég sendi hinum unga syni Hlyns hlýja strauma og styrk í þessum erfiðleikum sem hann nú gengur í gegnum. Hugur minn er allur hjá ykkur.

Sigfús Þ. Sigmundsson



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Samhryggist þér og ættingjum hans.  Megi allir góðir vættir vaka yfir þeim.  Þegar einhver manni náinn fer yfir móðuna miklu þá byrjar maður að spá í lífið og tilveruna.  Það er bra eðlilegt.  En við getum huggað okkur við það að einhversstaðar einhverntíman hittumst við aftur.  Eðli málsins samkvæmt.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.2.2007 kl. 15:30

2 identicon

Elsku Sigfús, yndisleg minningargrein hjá þér, bæði stutta og langa útgáfan....Samhryggist og knúsast.  Séra Bolli var góður.  Falleg athöfn. Góð kveðjustund.  Sjáumst fljótt! Alfa

Alfa (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 22:03

3 identicon

Það er alltaf sárt að missa ástvini, hvernig sem þeir fara.  Þegar að ég kíkti á minningagreinina þá mundi ég strax hvernig í pottin var búið, alveg hræðilegt.  En þá kemur þetta upp í huga mans að þeir deyja ungir sem guðirnir elska.  En manni finnst það svo ósanngjarnt þar sem hann átti svo mörg ár eftir hér. Svo fallegur drengur og í blóma lífsins.  Já og maður spyr hver er tilgangurinn,

Greinin þin var mjög falleg og það er ekki auðvelt að kveðja vini sína á þennan hátt, mjög erfitt.

Maður óskar þess að allt það góða í heiminum gefi þeim allan þann styrk sem þau þurfa á þessum tíma og eins þér og þínum.

Það tekur tíma að jafna sig eftir svona áfall en maður verður að gefa þessu tíma og leyfa því að gróa.  Halda uppi góðum minnigum um góðan mann.

Kveðja

Boston Inga

BostonInga (IP-tala skráð) 24.2.2007 kl. 12:45

4 Smámynd: Vaff

Ég samhryggist þér, falleg minningargrein hjá þér. 

Vaff, 24.2.2007 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband