Glæpatíðni í Bandaríkjunum

Samkvæmt skýrslu sem rannsóknarnefnd á vegum bandarískrar lögreglu (PERF) hefur gefið út hefur ofbeldisglæpum fjölgað í stærstu borgum Bandaríkjanna síðan 2004 og í sumum borgum hafa þeir tvöfaldast.   Þetta er að gerast þrátt fyrir að viðurlög í Bandaríkjunum sé með því strangasta sem gerist í vestrænum ríkjum.  Refsiharkan í Bandaríkjunum er mjög mikil og þar trúa menn á það að slíkt sé fyrirbyggjandi.  Undirliggjandi ástæða fyrir refsiþyngdinni er einnig hefnd samfélagsins gegn þeim sem af sér brýtur.   Ef skoðaður er samanburður milli ríkja OECD á fjölda fanga í aðildarríkjunum sést að Bandaríkin skera sig úr hópnum svo um munar:

prison

 

 

 

 

 

 

 

 

Convicted adults admitted to prisons - Number per 100 000 population, 2000

Sjá hér

Súlan fyrir Bandaríkin hreinlega kemst ekki fyrir á myndinni út af því að talan fyrir þau er svo miklu miklu hærri en hinna ríkjanna.  Í Bandaríkjunum eru um 468 fangar á hverja 100.000 íbúa miðað við t.d. um 50 á Ítalíu.  Þessi tala er lægst á Íslandi eins og sést á myndinni en þar eru rúmlega 20 fangar á hverja 100.000. 

Tvær skýringar eru líklegastar á þessum gífurlega fjölda fanga í Bandaríkjunum.  Annars vegar getur það verið að tíðni glæpa sé hærri þar en hins vegar að þyngd refsinga sé mun meiri þar en í hinum ríkjunum.  Það er tilfinning mín að seinni skýringin sé mun líklegri þó svo að tíðni glæpa sé örugglega ekki lægri þar en annarsstaðar.   Bandaríkjamenn trúa á mjög þungar refsingar í öllum málaflokkum en árangur þessarar stefnu virðist standa á sér.  


mbl.is Ofbeldisglæpum fjölgar í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Það er þannig í USA að ef menn brjóta alvarlega af sér, þá verða þeir fangar lengi, lengi. En aftur í öðrum löndum, þar á meðal Íslandi, þá fá allir tækifæri aftur.

Fróðlegt væri ef kæmu fram fjöldi afbrotamanna á hverja 100.000 íbúa, því þessi tala frá USA er uppsöfnuð brotatíðni áratugi aftur í tímann, en Íslenskar tölur sýna brotamenn kannski 1 - 3 ár aftur í tímann, vegna mismunandi lengdar dóma.

Eins væri fróðlegt að sjá fjölda afbrota á hverja 100.000 íbúa. Því á bakvið hvern langtíma fanga í USA eru kannski 3 brot, en þá kemur síbrotadómur sem er tugir ára. Hér á Íslandi eru inni fangar með kannski 20 afbrota pakkadíl úr Íslenska dómskerfinu.

Fangar á 100.000 íbúa er mjög skökk tala, þegar horft er á glæpatíðni.

Júlíus Sigurþórsson, 9.3.2007 kl. 18:50

2 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Kemur eitthvað fram hversu stór hluti af þessum tölum eru síbrotamenn?

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 9.3.2007 kl. 18:51

3 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Hér má nálgast upplýsingar um þessa statistík:

http://caliban.sourceoecd.org/vl=2030023/cl=15/nw=1/rpsv/factbook/10-04-01.htm

Það sem ég er að varpa hér fram sem umræðupunkti er það hvort mjög þungir dómar séu endilega fyrirbyggjandi.  Tilgangur mjög þungra dóma hlýtur að vera sá að vera fyrirbyggjandi.  Fljótt á litið virðist það ekki vera að virka í Bandaríkjunum.  Þar er glæpatíðnin ekkert lægri en annarsstaðar að ég best veit. 

Þetta eru margslungin mál og ekkert eitt rétt.   Ég er hins vegar sannfærður um það að Bandaríkin séu komin út í algjörar öfgar í þessum málum.   Þar tíðkast dauðarefsingar og 13 ára börn eru send í 10 ára fangelsi fyrir "kynferðislega áreitni" gagnvart jaföldrum sbr Aron Pálmi.   Mitt álit er það að Norðurlöndin séu á mun betra róli í þessum málum en Bandaríkin.  Ef ég mætti velja þá myndi ég velja þá leið sem Norðurlöndin hafa farið en ekki leið USA.  Tel það vera hagstæðast fyrir allt samfélagið þegar allt er tekið inn í myndina....

Sigfús Þ. Sigmundsson, 9.3.2007 kl. 18:58

4 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Það er einmitt punkturinn, "hvort mjög þungir dómar séu endilega fyrirbyggjandi", hvað væru margir í fangelsi í Bandaríkjunum ef refsilöggjöfin þeirra væri eins og á Íslandi?

En ég er sammála þér að svona langir dómar á afbrotamenn eru í raun verri en að taka þá af lífi. Áratuga vist í búri, í svona umhverfi er það versta sem hægt er að hugsa sér.

Betrun er það sem virkar best, vissulega lang dýrast á hvern einstakling, per dag, en ég held að það sér arðbærasta fjárfesting þegar á heildarmyndinar er litið.

Júlíus Sigurþórsson, 9.3.2007 kl. 20:27

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Góð grein Sigfús og áhugaverð.

Fyrir nokkrum árum var talsverð umræða um þá vanhugsuðu grein í bandarísku stjórnarskránni að menn mættu bera vopn. Í framhaldi af því leitaði ég upp statistík um það hversu margir féllu fyrir skotvopnum á hverju ári þar í landi. Tölurnar reyndust vera á milli 35-39000 á hverju ári. Heimfært til Íslands væri þessi tala 35 til 39 á hverju ári. Það fór um mann við þessa tilhugsun. því við sambærilegar aðstæður hér á landi væru þetta fleiri dauðsföll en umferðarslysin.

Þú getur kannski skýrt fjölda fanga í USA að einhverju leyti með refsiþyngdinni, ekki satt? 

Haukur Nikulásson, 10.3.2007 kl. 12:02

6 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Ég myndi giska á að þessi ótrúlegi fjöldi sé tilkominn vegna refsiþyngdarinnar. Hef einhversstaðar séð tölur um fjölda afbrota og mig minnir að Bandaríkin skeri sig ekkert svo úr hvað það varðar.  Það eru því ansi margir í sömu sporum í USA og hann Þórir sem var í Kastljósinu í vikunni....

Sigfús Þ. Sigmundsson, 10.3.2007 kl. 15:21

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Er það ekki rétt hjá mér að við þriðja brot fái menn lífstíðardóm, burt séð frá alvarleika brotsins.  Ég er viss um að það er miklu affarasælla að reyna að betrumbæta fanga en að loka þá burtu frá samfélaginu alveg.  Það býr gott í öllum, það er bara að reyna að kalla það fram.  Sumir eru náttúrulega hætturlegir samfélaginu eins og raðmorðingjar og síbrotamenn.  En það hlýtur að vera hægt að gera einhvern greinarmun á því hvort menn eru hættulegir samfélaginu eða ekki. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.3.2007 kl. 16:25

8 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Tek undir með Ásthildi hér á undan.

Hef ekki trú á löngum refsivistum. Hins vegar eru dæmi um menn sem eru og verða alltaf hættulegir umhverfi sínu og þeim á einfaldlega ekki að sleppa út aftur.

Ef maður tekur t.d. þá sem gerast sekir um barnanýð eru taldir ólæknandi að stærstum hluta. Miklar líkur eru á að þegar þeim er sleppt út í þjóðfélagið brjóti þeir af sér aftur.

Í slíkum málum og ýmsum öðrum afbrotamálum teldi ég rétt að lengja refsivistina margfalt, ekki í hefndarskini heldur til að verja þau saklausu.

Ágúst Dalkvist, 10.3.2007 kl. 23:24

9 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Ég held að þriggja brota reglan sé bara við lýði í Kaliforníu.   Refsingar eru mjög mismunandi eftir fylkjum....

Sigfús Þ. Sigmundsson, 11.3.2007 kl. 00:17

10 identicon

Hæ, áhugaverð síða. Ég vildi bara benda á að tölurnar í grafinu standa fyrir fjölda fanga sem voru fangelsaðir á hverja 100.000 íbúa og ekki fjölda fanga (undir grafinu stóð 'Convicted adults admitted to prisons - Number per 100 000 population, 2000'). Mismunurinn á USA og öðrum löndum verður því ekki skýrður með lengri refsingum heldur eru einfaldlega fleiri fangelsaðir miðað við fjölda íbúa (sem að sjálfsögðu tengist líka refsiþunga). 

Dóra 

Dóra (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 17:07

11 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Munurinn er nú svo gígantískur að það hljóta að vera margar orsakir á bakvið hann.  Berið t.d. saman Ísland og USA.  Slíkur munur getur ekki bara orsakast af einum þætti heldur mörgum flóknum þáttum sem allir miða þó að einu, þ.e. að halda fólki sem mest á bak við lás og slá.....

Sigfús Þ. Sigmundsson, 12.3.2007 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband