Almenningssamgöngur - Hefur gjaldtaka áhrif?

alliristraetoÍ frétt á ruv.is er eftirfarandi haft eftir Gísla Marteini formanni samgöngunefndar borgarinnar:

"Gísli Marteinn segir rannsóknir sýna að upphæð fargjalda dragi ekki úr fjölda farþega, frekar þjónustan. Fólk eigi að geta borgað með korti og fengið tilbaka, rauntími verði gefinn upp á biðstöðvum og að hægt verði að sjá hvaða stoppistöð sé næst. Gera verði fólki kleift að geta fengið tilbaka í vagninum eða greiða með korti. Farþegar eigi að geta séð rauntímann þangað til næsti vagn kemur og hvaða stoppistöð sé næst. Ekki verði þó gert upp á milli samgöngumáta og ekki barist gegn einkabílum því sumir þurfi að vera á bíl. Allir eigi að geta komist hratt og örugglega á milli staða."

Sjá hér:  http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item141197/

Ég tek undir flest af því sem Gísli Marteinn segir þarna t.d. að nauðsynlegt er að farþegar geti borgað með korti, gefið sé til baka ef viðkomandi hefur ekki rétta upphæð og að gefinn sé upp rauntími á biðstöðvum. Það sem ég get hins vegar ekki tekið undir er sú fullyrðing hans að rannsóknir sýni að upphæð fargjalda dragi ekki úr fjölda farþega.

Í fyrsta lagi vil ég benda á að með þessari fullyrðingu er Gísli í raun að segja að hagfræðikenningar um áhrif verðs á eftirspurn standist ekki.  Að fólk sé ekki næmt fyrir verðlagi þegar kemur að vali á samgöngumáta.  Hagfræðin talar reyndar líka um svokallaða markaðságalla þar sem lögmál hennar ná ekki til t.d. hvað varðar mengun, áfengi og fíkniefni.   En varla eru íbúar landsins orðnir það háðir einkabílnum að um hreina fíkn sé að ræða.

Í öðru lagi sýna rannsóknir í bænum Hasselt í Belgíu að sú aðgerð að hafa almenningssamgöngur gjaldfríar skilaði áttföldun í farþegafjölda frá árinu 1997 til ársins 2001.  Hasselt er að mörgu leyti áhugaverð til samanburðar við höfuðborgarsvæðið að því leyti að þar búa um 70.000 manns en um 230.000 manns á svæðinu í kring sækja þangað vinnu eða þjónustu.  Meiri bílaeign var á svæðinu en almennt gerðist í Belgíu og samgöngukerfið var við það að springa í kringum 1996.   Undirritaður var að undirbúa gerð nýsköpunarsjóðsverkefni um nýjungar í samgöngumálum fyrir nokkrum árum og aflaði þá ýmissa gagna frá borgaryfirvöldum í Hasselt m.a. mjög ítarlegrar skýrslu um stöðuna 2001.  Því miður varð aldrei af gerð nýsköpunarverkefnis þar sem ég fékk aðra vinnu það sumarið en ef einhverjir hafa áhuga get ég sent þeim skýrsluna í tölvupósti (sendið mér fyrirspurn á sigfus.sigmundsson@gmail.com).

Ég held að við Íslendingar ættum að líta til Hasselt hvað varðar heildræna samgöngustefnu.  Borgaryfirvöld þar létu nefnilega ekki duga að gefa almenningssamgöngur fríar heldur var um gríðarlega yfirgripsmikið átak að ræða sem m.a. náði til átaks í hjólreiðastígum, markaðssetningu almenningssamgangna og margs fleira sem lesa má um í skýrslunni góðu.

Nú veit ég ekki hvaða rannsóknir Gísli Marteinn var að vitna til varðandi það að gjaldtaka í almenningssamgöngum skipti ekki máli en ég óska hér með eftir að hann vitni til þeirra þar sem þær virðast þá algjörlega stangast á við reynslu þeirra í Hasselt í Belgíu.  Þvert á móti sýnir reynsla þeirra í Hasselt að vilji stjórnvalda til að taka á umferðarvanda með því að bjóða upp á góða valkosti við einkabílinn geti skilað gríðarlega góðum árangri.

Það er trú undirritaðs að gjaldfríar almennigssamgöngur ásamt markaðssetningu þeirra gætu komið í stað kostnaðarsamra umferðarmannvirkja sem skera í sundur borgina.  Slík aðgerð ætti að vera öllum til góða, líka þeim sem kjósa að nota einkabílinn áfram.  Ef fleiri nota strætó mun umferðarþunginn á götum borgarinnar minnka sem skilar sér í auknum þægindum þeirra sem áfram kjósa að keyra um á sínum einkabíl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En eins og þú bendir sjálfur á, þá var einmitt gripið til mjög yfirgripsmikilla aðgerða til viðbótar því að gefa almenningssamgöngurnar fríar. Þú nefnir sjálfur markaðssetningu almenningssamgangna en einnig má benda á að allt gatnakerfið var endurskipulagt. Stofnæðar (kostnaðarsöm umferðarmannvirki sem skera í sundur borgina) voru bættar til muna til að auðvelda umferð strætisvagna jafnt sem annarrar umferðar. Þetta var liður í því að gera almenningssamgöngurnar skilvirkari. Einnig man ég ekki betur en að leiðakerfið hafi verið tekið verulega í gegn og þjónustan bætt mikið. Þegar litið er til alls þessa, þá er hæpið að halda því fram að áttföldun farþegafjölda sé fyrst og fremst afleiðing þess að almenningssamgöngurnar hafi verið gefnar fríar. Það var bara einn liður í margþættu átaki. Ég held að það sé alveg ljóst að það sé þjónustan og skilvirknin sem er meginvandamálið við almenningssamgöngurnar hér í Reykjavík en ekki verðið. Fyrir flest fólk er það einfaldlega ekki raunhæfur valkostur að nota strætó þegar það getur tekið einn til tvo tíma að ferðast á milli staða sem tekur kannski tíu mínútur-korter að fara á milli í einkabíl. Það eru líka afskaplega fáir sem ganga alltaf um með fulla vasa af klinki í dag eins og virðist vera gert ráð fyrir í strætisvagnaþjónustunni á Reykjavíkursvæðinu.

Friðrik Þórðarson (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 15:57

2 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Já, akkúrat þetta með klinkið.  Þú þyrftir væntanlega ekki að vera með mikið af klinki í vasanum ef frítt væri í strætó Friðrik, eða er það?

Sigfús Þ. Sigmundsson, 21.1.2007 kl. 22:16

3 identicon

Nei, en ég myndi ekki heldur þurfa þess ef ég gæti borgað með korti eða seðlum og fengið til baka.

En þetta var nú ekki meginatriðið í athugasemdinni heldur nefndi ég þetta nú bara sem dæmi um afskaplega slæma þjónustu sem fælir fólk frá. Ég var fyrst og fremst að benda á að það var beitt margþættum aðgerðum í Hasselt og því  sé vafasamt að líta á það dæmi sem sönnun fyrir því að það auki notkun almenningssamgangna sérstaklega mikið að gera þær gjaldfrjálsar. Nema til séu einhverjar rannsóknir, eins og þú segir, sem sýna fram á það svo ekki verður um villst að það hafi verið nákvæmlega sú aðgerð að hafa almenningssamgöngur gjaldfríar sem skilaði áttföldun í farþegafjölda frá árinu 1997 til ársins 2001 en ekki einhverjar aðrar aðgerðir sem farið var í samhliða. Það væri þá ekki síður áhugavert að sjá þær rannsóknir en rannsóknirnar sem Gísli Marteinn vitnaði til.

Friðrik Þórðarson (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 06:22

4 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Já, ég er sammála því að það þarf að fara í marghliða aðgerðir eins og gert var í Hasselt. Það að þær voru gerðar gjaldfríar held ég þó að hafi skipt mjög miklu máli en er vissulega ekki eina ástæðan fyrir þessari miklu fjölgun farþega.  Mér finnst hins vegar mjög ódýrt að fullyrða að gjaldið hafi engin áhrif eins og Gísli Marteinn gerir án þess að vitna í hvaða rannsóknir hann er að tala um.

Sigfús Þ. Sigmundsson, 22.1.2007 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 33214

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband