Jóhannes í Bónus beitir sér gegn Birni Bjarnasyni

joiBonusJóhannes í Bónus er með heilsíðuauglýsingu á bls. 49 í Fréttablaðinu í dag.  Þar hvetur hann alla Sjálfstæðismenn í Reykjavíkurkjördæmi Suður að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra.  Hann undirstrikar það að hann sé Sjálfstæðismaður en sé á móti mönnum eins og Davíði Oddssyni og Birni Bjarnasyni (hvað þarf eiginlega mikið að ganga á svo menn hætti að kjósa Flokkinn?).

Það verður að segjast að svona heilsíðuauglýsing frá einstaklingi er harla óvenjulegt innlegg í kosningabaráttuna en nú er að sjá hvaða árangur hún ber. 

Hér er texti auglýsingarinnar í heild:


"Strikið yfir siðleysið

- áskorun til sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður

Í rúm fjögur ár mátti ég að ósekju sitja á sakamannabekk í Baugsmálinu svokallaða vegna óvæginna og ranglátra aðgerða Haraldar Jóhannessens, ríkislögreglustjóra, Jóns H. B. Snorrasonar, saksóknara, og síðast Sigurðar T. Magnússonar, sem var settur í starf Jóns H. B. Snorrasonar eftir að hann var gerður afturreka með málatilbúnað sinn haustið 2005. Nafn mitt var hreinsað með sýknudómi Hæstaréttar Íslands í janúar á þessu ári.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur í ræðu og riti varið embættisafglöp þessara manna og hvatt þá til dáða leynt og ljóst. Fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga að Björn hyggist skipa Jón H. B. Snorrason í embætti ríkissaksóknara strax að loknum kosningum. Embættisveitingar Björns hafa verið harðlega gagnrýndar á undanförnum árum. Nú keyrir um þverbak og maður hlýtur að spyrja: Hvað skyldi Jón H. B. Snorrason eiginlega hafa á Björn Bjarnason úr því hann hyggst skipa manninn í þetta háa embætti þrátt fyrir allt hans klúður?

Sjálfur hef ég ávallt litið á mig sem sjálfstæðismann þó að ég hafi átt bágt með að styðja flokkinn síðustu árin í stjórnartíð Davíðs Oddssonar. Ég veit að margir sjálfstæðismenn eru sama sinnis og ég í því efni og eiga erfitt með að ákveða sig og þá ekki síst sjálfstæðismenn í Reykjavíkurkjördæmi suður þar sem Björn Bjarnason situr í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Aðeins eitt ráð er til. Merkið x við D en strikið yfir siðleysið með því að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar á listanum.

Jóhannes Jónsson,

kaupmaður í Bónus og sjálfstæðismaður.

JÓHANNES JÓNSSON KOSTAR ÞESSA AUGLÝSINGU SJÁLFUR"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 33177

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband