Færsluflokkur: Bloggar

Föstudagsléttmetið - Ísland best í heimi

ostrichEkki hefur verið mikið af léttmeti í pistlum mínum hér á moggablogginu frá því ég byrjaði.   Pistlarnir eru flestir hlaðnir fróðleik um stjórnmál og svo sem ekki líklegir til vinsælda enda er tilgangurinn ekki að slá í gegn heldur frekar sá að veita áhugasömum aðgang að fræðandi og upplýsandi efni um stjórnmál og samfélag.

En ég ætla að gera það að venju hjá mér að koma með einn léttan pistil á hverjum föstudegi.  Að þessu sinni ætla ég að bjóða upp á video sem vinkona mín sendi mér og hvatti mig til að horfa á.  Ég veit ekki hverjir unnu þetta myndband en hér eru á ferðinni íslensk hjón sem virðast vera að gera kynningarmyndband um land og þjóð.  Þau gera það af barnslegri einlægni þannig að auðvelt er að hrífast með.  Tónlistin er snilld og hámarki nær myndbandið sennilega þegar plötukenningin er útskýrð.  Þetta gæti verið gott atriði í Fóstbræðrum. Njótið:

Smellið hér til að sjá myndbandið


Hlutfall opinberra starfsmanna 1870-2000

Undirritaður er byrjaður að sanka að sér heimildum fyrir mastersritgerðina sem verður skrifuð á þessu vori.   Rakst á ansi góða heimild sem nefnist "Starfsumhverfi ríkisstarfsmanna við aldarhvörf - Rannsóknarniðurstöður" sem var undir ritstjórn Ómars H. Kristmundssonar.  Þar er mikið af upplýsingum um þróun starfsumhverfis ríkisstarfsmanna og m.a. þessi tafla hér:

opinberirstarfsmennA

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Heimild: Hér má nálgast alla skýrsluna þar sem þessa töflu er að finna.

Þetta línurit sýnir hlutfall opinberra starfsmanna (bæði ríkisstarfsmanna og starfsmanna sveitarfélaga) af virku vinnuafli árin 1870-2000.   Eins og sést þá hefur þetta hlutfall verið sífellt hækkandi frá fyrstu tíð.   Það ber þó að hafa í huga þegar svona línurit eru skoðuð að gífurlegar samfélagslegar breytingar hafa orðið á þessum tíma og því t.d. varla samanburðarhæft að bera saman árin 1870 og 2000 í þessu samhengi.  En svona upplýsingar eru þó alltaf fróðlegar og lýsandi.

Það sem er hins vegar forvitnilegra er að þessi þróun virðist halda áfram út í hið óendanlega.  Enn er þetta hlutfall að hækka.  Í því tilliti ber þó að hafa í huga það sem kemur fram í þessari skýrslu og það er að ríkisstarfsmönnum hefur fækkað að undanförnu en á sama tíma hefur starfmönnum sveitarfélaga fjölgað.  Rekja má þessa þróun til tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga, svo sem tilfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna.

En spurningin er sem sagt hvort þessi þróun, þ.e. síhækkandi hlutfall opinberra starfsmanna, sé  eitthvert lögmál sem ekki verður við ráðið eða hvort  ástæða sé til að spyrna við fótum.


Hannes Smárason: "Krónan er vandamál"

fimmtiukronur_030303Eins og sönnum "fjölmiðlafíkli" sæmir skundaði ég í næstu bókabúð í dag og fjárfesti í nýjasta blaðinu á markaðnum, Króníkunni.   Líst afar vel á þetta blað og er alvarlega að hugsa um að gerast áskrifandi til að styrkja stoðum undir þetta frábæra framtak þeirra sem að blaðinu standa. 

Í fyrsta tölublaðinu er m.a. viðtal við Hannes Smárason, forstjóra FL Group, og vöktu ummæli hans um krónuna og stöðu hennar athygli mína.  Um krónuna er haft eftir Hannesi í Króníkunni:

"Íslenska krónan er orðin verulegt vandamál, segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group í samtali við krónikuna. "Það er ástæðan fyrir því að mörg íslensk fyrirtæki eru að skoða að nota evru, færa bókhald og skrá hlutafé í evrum.  Það er reyndar ekki spurning um hvort þau geri þetta heldur hvenær að mínu viti.  Ef við viljum reyna að laða að erlenda fjárfesta til landsins, hvort sem er til að fjárfesta í hlutabréfum eða til að byggja upp einhverja starfsemi á Íslandi, þá held ég að menn horfi alltaf til  sveiflunnar á gengi krónunnar.  Það gerir menn óöruggari og það er ástæðan fyrir því að mörg fyrirtæki eru að skoða að taka upp evruna, þ.e. skoða að skrá hlutabréf sín í evrum; stíga einhver skref til að ná að laða að erlent fjármagn."

Hannes heldur áfram:  " Ef við förum ellefu eða tólf ár aftur í tímann, til ársins 1995, og skoðum verðmæti allra skráðra félaga í Kauphöllinni,og berum saman við verðmætin í dag, þá sjáum við að það hefur orðið gríðarlega mikil verðmætaaukning."........."Eitt af markmiðum okkar hlýtur að vera að halda áfram að auka verðmætin í fyrirtækjum í landinu," ítrekar hann.  " Til að það takist þurfum við erlent fjármang.  VIð gátum þetta sjálf fram til þessa," segir hann og bendir á ártalið 2007, "en til þess að við komumst í næstu deild þurfum við að fá erlenda fjárfesta inn í hlutabréfin.  Annað hvort tekst okkur þetta eða fyrirtækin fara bara utan; þess vegna þurfum við að leysa gjaldeyrismálin.  Ég held að það sé mjög stórt mál."

Já, svo mörg voru þau orð Hannesar Smárasonar.  Æ fleiri leggjast á sveif með því sjónarmiði að krónan sé að verða meiri og meiri hindrun fyrir íslenskt efnahagslíf.  Nú er bara spurning hvenær ríkisstjórnin átti sig á þessu.  Venjan er að viðskiptalífið bregðist fyrr við en stjórnmálamennirnir og sú mun raunin verða í þessum málum sem og öðrum.


Vextir á Íslandi vs. vextir í OECD

OECD tekur saman ýmsar áhugaverða tölfræði um aðildarlöndin og setur svo fram í samanburðarformi.  Eitt af því sem samtökin bera saman á milli ríkjanna eru langtímavextir.  Mikil umræða hefur verið um vexti hér á landi að undanförnu og því áhugavert að bera sig saman við önnur ríki OECD hvað þetta varðar:
longtermInterestmillimyn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimild:  OECD factbook 2006 (smellið hér ef þið sjáið ekki tölurnar á grafinu - skrollið niður skjalið)

Því miður eru þetta tölur frá árinu 2004 en áhugavert hefði verið að hafa tölur frá því á síðasta ári enda hafa vextir hér hækkað gríðarlega frá því á árinu 2004.  En engu að síður kemur Ísland afar illa útúr þessum samanburði, hér voru þriðju hæstu vextirnir innan OECD árið 2004.   Það var aðeins í Mexico, Rússlandi og Suður-Afríku sem vextirnir voru hærri á árinu 2004.   Allir vita hver þróunin hefur orðið á síðustu 2-3 árum og kæmi ekki á óvart að sjá okkur í efsta sætinu núna.

Þessi tafla er úr flokki innan "OECD factbook" sem nefnist prices.  Það er sem sagt verið að bera saman verðlag í aðildarríkjunum.  Vextir eru náttúrulega ekkert annað en verð á því að fá lánaða peninga.  Það er því ljóst að hér á landi er hvað dýrast að fá peninga lánaða en auðvitað eru þeir sem lána peninga í góðum málum því þeir hirða jú mismuninn.

Að lokum skulum við svo líta á töflu sem sýnir vaxtaþróunina í löndum OECD fram að árinu 2004:

longTermInterestmilli

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                 Heimild: Sjá hér (smellið hér ef þið sjáið ekki tölurnar á grafinu - skrollið niður skjalið).

Eins og sést á þessari mynd þá hefur þróunin í flestum ríkjum OECD verið sú að vextir hafa lækkað mjög mikið frá árinu 1991 til ársins 2004.  Þeir voru í  kringum 10% í flestum aðildarríkjunum árið 1991 en eru orðnir c.a. 4% árið 2004.  Ísland, Rússland, Mexíco og S-Afríka skera sig þó hressilega úr hvað þetta varðar, með um 7-10% vexti.

Forvitnilegt væri að fá uppfærðan samanburð á þessari stöðu í ljósi gífurlegra vaxtahækkana hér á landi undanfarin misseri.

 


Löglegt verðsamráð!

cow_funny1Mikið hefur verið fjallað um meint ólöglegt verðsamráð olíufyrirtækjanna undanfarin ár. Í landinu eru í gildi samkeppnislög þar sem aðilum á markaði er bannað að hafa slíkt verðsamráð.  Ekki eru þó allir settir undir sama hatt hvað þetta varðar.  Þannig er t.d. í gildi búvörusamningur þar sem kveðið um á hvernig verð á búvörum sé ákveðið.  Þannig er það t.d. í verkahring verðlagsnefndar búvara að ákveða hvað neytendur borga fyrir mjólkurlítran út í búð.  Í 7. gr. búvörulaga segir: "Verðlagsnefnd búvara, skipuð sex mönnum, ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. "

Þegar kemur að búvörum er því ekki bannað að hafa verðsamráð heldur skulu framleiðendur hreinlega hafa slíkt samráð, annað stríðir gegn lögum.  Já, svona er þetta og það er komið árið 2007.  Einhver hefði haldið að vinsældir slíks áætlunarbúskaps hefði farið þverrandi eftir fall sovétríkjanna en sú ríkisstjórn sem hefur ríkt hér síðastliðin 12 ár vill sem sagt hafa þetta svona.

Þann 14. október á síðasta ári flutti RÚV eftirfarandi frétt:

"Kúabændur vilja óbreytt búvörulög



Þórólfur Sveinsson, formaður Landsambands kúabænda, segir að verði búvörulögum breytt eins og Samkeppniseftirlitið hefur farið fram á sé hagkvæmni í mjólkuriðnaði fórnað.

Mjólkuriðnaður er undanþeginn samkeppnislögum. Fyrirtæki í greininni geta haft samráð um verkaskiptingu sem ekki samrýmist lögunum. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að breyta verði lögunum. Aðeins með því náist fram eðlilegt viðskiptaumhverfi.

Þórólfur Sveinsson, formaður Landsambands kúabænda, segir þetta ekki koma til greina. Hann segir tóma vitleysu hjá Samkeppniseftirlitinu að halda því fram að búvörulög fari í bága að við samkeppnislög. Þórólfur segir ákvæðin sem Samkeppniseftirlitið segi að fari í bága við samkeppnislög hafi verið sett í búvörulögin 2004 til að auka hagkvæmni fyrir bændur og neytendur og að tryggja minni aðilum á smásölumarkaði hliðstæð kjör og þeim stærri, það er að þeir minni fái vörur sínar á hliðstæðu verði óháð umfangi og þeir stærri."  Sjá hér

Já, mjólkurvörur eru undanþegnar samkeppislögum, þar er heimilt að hafa verðsamráð og samkeppni hreinlega bönnuð. Og þannig vilja bændur og ríkisstjórnin hafa það. Og á hvaða öld erum við aftur stödd?

Í landinu eru í gildi svokölluð búvörulög, lög nr. 99 frá 8. september 1993.  Hér á eftir eru nokkrar áhugaverðar greinar sem ég hvet lesendur þessa bloggs til að lesa yfir og klípa sig svo í handlegginn til að vera viss um að vera ekki að dreyma einhvern súrrealískan draum:

"1. gr. Tilgangur þessara laga er:
   a. að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur,
   b. að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu,
   c. að nýttir verði sölumöguleikar fyrir búvörur erlendis eftir því sem hagkvæmt er talið,
   d. að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta,
   e. að innlend aðföng nýtist sem mest við framleiðslu búvara, bæði með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnu,
   f. að stuðla að jöfnuði á milli framleiðenda í hverri búgrein hvað varðar afurðaverð og markað."

"IV. kafli. Um verðskráningu á búvörum.
7. gr. [Verðlagsnefnd búvara, skipuð sex mönnum, ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. "


"8. gr. [Verðlagsnefnd ákveður við upphaf hvers verðlagsárs, í fyrsta sinn 1. september 1998, lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda sem miðast við 1. flokks mjólk með skilgreindu efnainnihaldi [nema annað sé tekið fram í samningi milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands].1) Hverri afurðastöð er heimilt að greiða framleiðendum hærra verð en lágmarksverð. Verðlagsnefnd ákveður leyfileg afföll af verði mjólkur sem ekki stenst kröfur sem 1. flokks mjólk. Ákvörðun um lágmarksverð mjólkur skal byggjast á gerð verðlagsgrundvallar fyrir bú af hagkvæmri stærð, með framleiðsluaðstöðu þar sem tekið er mið af opinberum heilbrigðis- og aðbúnaðarkröfum og hagkvæmum framleiðsluháttum. Áætlað vinnuframlag skili endurgjaldi hliðstæðu og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni. Ákvörðun verðlagsnefndar um lágmarksverð skal tekin til endurskoðunar innan verðlagsársins komi fram um það ósk í nefndinni. Framleiðslukostnaður á nautgripakjöti til framleiðenda skal metinn og skráður af verðlagsnefnd samhliða ákvörðun á lágmarksverði mjólkur. Heimilt er verðlagsnefnd að ákveða að skráning á verði nautgripakjöts falli niður. Landssambandi kúabænda er þá heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka nautgripakjöts.
Verðlagsnefnd metur við upphaf hvers verðlagsárs framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú, í fyrsta sinn 1. september 1998. Miða skal við kostnaðarútreikninga er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstrargjöld, launakostnað og afurðir meðalbús sem er rekið við eðlilegar framleiðsluaðstæður. Tilgreina skal ársvinnu á sauðfjárbúi af stærð sem miðað er við og virða endurgjald fyrir vinnuframlag til samræmis við kjör þeirra sem vinna sambærileg störf og hafa svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð í starfi á almennum vinnumarkaði. Mat verðlagsnefndar skal taka til endurskoðunar innan verðlagsársins komi fram um það ósk í nefndinni. Landssamtökum sauðfjárbænda er heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka sauðfjárafurða.
Til ákvörðunar á framleiðendaverði annarra búvara en afurða sauðfjár og nautgripa skal verðlagsnefnd semja um verðlagsgrundvöll er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstrargjöld, launakostnað og afurðir bús sem næst meðalbúi að stærð, sem er rekið við eðlilegar framleiðsluaðstæður, komi fram um það óskir frá Bændasamtökum Íslands og viðurkenndum samtökum búvöruframleiðenda í viðkomandi grein skv. 2. mgr. 4. gr. Tilgreina skal ársvinnu á búinu og virða endurgjald fyrir vinnuframlag til samræmis við kjör þeirra sem vinna sambærileg störf og hafa svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð í starfi á almennum vinnumarkaði. Verðlagsgrundvöllurinn gildir fyrir tvö ár í senn frá byrjun verðlagsárs og skal hann vera tilbúinn fyrir þann tíma ár hvert nema annað sé ákveðið með samkomulagi í verðlagsnefnd. Nefndinni er hvenær sem er heimilt að taka mið af verðlagsbreytingum vegna fjármagns- og rekstrarkostnaðar, svo og launabreytingum á tímabilinu, komi fram um það óskir í nefndinni. Verðlagsgrundvöllur hvers tímabils framlengist sjálfkrafa um tvö ár í senn ef honum er ekki sagt upp af fulltrúum samningsaðila með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Nefndin getur þó komið sér saman um annan frest.
Við kostnaðarútreikninga skulu beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda teljast til tekna og koma til lækkunar á verði þeirra afurða sem beinar greiðslur taka til.]2)"

"13. gr. [Verðlagsnefnd ákveður heildsöluverð búvara sem verðlagðar eru skv. 8. gr., að teknu tilliti til afurðaverðs til framleiðenda og rökstuddra upplýsinga um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara, nema annað sé tekið fram í samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 30. gr. laganna. [Verði samið um að falla frá ákvörðun um lágmarksverð á mjólk til framleiðenda samkvæmt heimild í 1. mgr. 8. gr. hefur slík ákvörðun ekki áhrif á heimild verðlagsnefndar til heildsöluverðlagningar á mjólkurafurðum.]1) Nefndin getur ákveðið að efna til sérstakra rannsókna í því skyni að fá betri upplýsingar um þau atriði er máli skipta fyrir ákvörðun heildsöluverðs á búvörum með hliðstæðum hætti og segir í 11. gr."

 "30. gr. Til þess að hafa stjórn á framleiðslu búvara þannig að hún verði í samræmi við tilgang laga þessara er landbúnaðarráðherra:
   a. rétt að leita eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við [Bændasamtök Íslands]1) um magn mjólkur- og sauðfjárafurða sem framleiðendum verður ábyrgst fullt verð fyrir á samningstímanum skv. 8. gr. Samningarnir skulu gerðir fyrir 1. ágúst ár hvert og gilda næsta verðlagsár. Heimilt er að semja til lengri tíma í einu og að binda samninga við einstakar búvörur. Á sama hátt er landbúnaðarráðherra heimilt í stað ofannefndra samninga að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda mjólkur- og sauðfjárafurða á lögbýlum.
   b. heimilt að ákveða skiptingu framleiðslu einstakra búvara, þar með taldra þeirra sem um er samið skv. a-lið, eftir héruðum. Skal sú skipting miðuð við félagssvæði búnaðarsambandanna en ráðherra er þó heimilt að ákveða aðra svæðaskiptingu að fengnu samþykki [Bændasamtaka Íslands]2) og viðkomandi búnaðarsambanda.
   Heimilt er að skipta framleiðslu innan hvers svæðis eða fela stjórn viðkomandi búnaðarsambands eða samtaka framleiðenda, sem viðurkennd eru skv. 2. mgr. 4. gr., að skipta framleiðslunni milli einstakra framleiðenda samkvæmt reglugerð er ráðherra setur."

Sjá hér

Lögin eru mun víðtækari en þessar greinar segja til um.  Það er fátt sem ríkið vill ekki binda í lög er kemur að búvörum.   Mér er spurn: Erum við stödd í vestrænu ríki á árinu 2007 eða erum við stödd í sovétríkjunum á áttunda áratugnum?


Talning á blog.is

countingEinn af þeim "fídusum" sem eru hvað skemmtilegastir hér á blog.is er talning gesta á síðum þeirra sem hér blogga.  Hægt er að bera sig saman við aðra hvað þetta varðar o.sfrv.   Þetta er ekkert aðalatriði en gott er að hafa einhverja hugmynd um hversu margir koma í heimsókn.

Í síðustu viku var ég kominn með yfir 600 heimsóknir þá vikuna þegar ég leit inn einn daginn en þann næsta hafði þeim fækkað um c.a. 50.  Ég varð dálítið hugsi yfir þessu en mér fannst allt í lagi þó þetta hefði gerst í eitt skipti, ekki mikið mál.  Í gær var ég svo kominn með um 650 heimsóknir fyrir vikuna en þegar ég lít á teljarann í dag er þessi tala komin niður í 512.  Hvernig stendur á þessu?  Hvernig stendur á því að heimsóknir á síðuna mína hafa dregist saman um tæpar 150 heimsóknir á einum sólarhring?  Þ.e. uppsafnaðar heimsóknir fyrir vikuna.  Samkvæmt minni stærðfræðikunnáttu ætti það ekki að vera hægt.

Hafa einhverjir aðrir lent í þessu? Ég sé ekki alveg tilganginn með að fylgjast með þessu ef þetta er öll nákvæmnin.....

 


Þriðji flokkur Kristins

kristinnKristinn H. Gunnarsson er svo sannarlega kameljón íslenskra stjórnmála.  Hann hóf feril sinn sem þingmaður Alþýðubandalagsins árið 1991, var síðan utan flokka um tíma þar til hann svo gekk til liðs við Framsóknarflokkinn.  Nú stefnir hann á að ganga í Frjálslynda flokkinn og ef þeir taka honum fagnandi (sem ég efast ekki um að þeir geri) hefur hann verið þingmaður þriggja ólíkra flokka.

Er þetta Íslandsmet?   Gaman væri ef einhver minnugur gæti staðfest það eða hrakið að þetta sé einsdæmi í sögu Alþingis.  Ég myndi giska á að þetta sé met en endilega kommentið við þessa færslu ef þið vitið betur. 


mbl.is Kristinn segir sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ókeypis í strætó!

alliristraetoÍ færslum hér á blogginu hef ég fjallað nokkrum sinnum um gjaldfríar almenningssamgöngur og þann árangur sem þær hafa skilað á Akureyri og í Hasselt í Belgíu.  Ég hef einnig vitnað í Gísla Martein Baldursson, formann samgöngunefndar Reykjavíkurborgar, sem sagði í viðtali við fréttastofu útvarps þann 18. janúar síðastliðinn að "..rannsóknir sýna að upphæð fargjalda dragi ekki úr fjölda farþega, frekar þjónustan....".  Sjá hér.  Enn á ný kalla ég eftir þessum rannsóknarniðurstöðum sem Gísli Marteinn vitnar til.  Ég hef aldrei heyrt um slíkar niðurstöður og gaman væri ef Gísli myndi vitna í þær svo hægt verði að sannreyna að þær séu raunverulega til. 

Akureyri og Hasselt eru ekki einu sveitarfélögin sem farið hafa þessa leið (gjaldfríar almenningssamgöngur) með góðum árangri.  Fyrir nokkrum árum ákvað Reykjanesbær að taka ekki lengur gjald í strætisvagna bæjarins.   Árangurinn lét ekki á sér standa og hefur orðið tvöföldun á farþegafjölda strætó þar í bæ síðan þetta var ákveðið.  Lesa má um framkvæmdina á heimasíðu Reykjanesbæjar hér og hér.  Í frétt á vef bæjarins stendur m.a. efirfarandi:

"....Áfram verður frítt í sund fyrir börn á grunnskólaaldri og er það sérstaklega ánægjulegt að fleiri sveitarfélög fylgja fordæmi Reykjanesbæjar að bjóða upp á fríar strætósamgöngur. Í báðum tilvikum hefur nýting tvöfaldast eftir þessar breytingar."
 
Og:

"Fullorðið fólk er einnig að vakna til vitundar um kosti strætókerfisins og það er að aukast að fólk noti vagnana til og frá vinnu og dæmi vitum við um að fólk hafi losað sig við bíl nr. 2 sem nánast eingöngu var notaður til að komast til og frá vinnu..."

Einnig:

"....Það gefur auga leið að umferð einkabíla hefur dregið saman, því hér eins og annars staðar er algengt að börnum sé ekið til skóla, íþróttir eða í afþreyingu.  Aukinn notkun strætisvagna skapar minni streitu fyrir foreldra og streituminni umferð í bænum, með líkum á færri umferðaróhöppum.  Fyrir margar fjölskyldur var kostnaður vegna strætóferða umtalsverður þegar á heilt ár var litið og því mikið hagræði af því að njóta ókeypis þjónustu...."

Spennandi verður að fylgjast áfram með þróun mála á Akureyri og í Reykjanesbæ.  Þar eru menn framsýnir í þessum málum.   Stjórnendur Reykjavíkurborgar hafa hins vegar enga trú á því að markaðslögmálin gildi í þessum málaflokki eins og tilvitnunin í Gísla Martein hér að ofan er til merkis um.  Hér keyra vagnarnir vannýttir (hálf tómir) um borgina á meðan stórhugur ríkir í gerð umferðarslaufa og mislægra gatnamóta.  Þvert á móti er stefnan í Reykjavík sú að hækka gjaldið í strætó (sbr hækkun nýverið sem var langt umfram verðlag) og fækka leiðum.

Ég er alls ekki einn af þeim sem boða það að allir eigi að fara í strætó og gera eigi einkabílnum eins erfitt fyrir og hægt er.  Ég tel að hagsmunir ökumanna einkabíla fari saman við hagsmuni þeirra sem kjósa aðra samgöngumöguleika.  Ef 50% aukning yrði í noktun strætó myndu ökumenn einkabíla geta komist betur leiðar sinnar.   Það á að reyna þennan möguleika, þ.e. að nýta strætisvagnana betur, áður en borgin verður öll sundurgrafin í sex akreina hraðbrautum og risavöxnum umferðarslaufum.  Það þarf þó að gera meira en að hafa strætó gjaldfrían.  Það þarf að markaðssetja almenningssamgöngur með öflugum hætti sem vistvænan valmöguleika, byggja betri og hlýrri strætóskýli, auka tíðni ferða á álagstímum, byggja upp net góðra stíga fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk og margt fleira til að hægt sé að koma í veg fyrir að Reykjavík þróist í átt að borgum eins og Houston í Texas (í smærri mynd þó).

Hér að neðan má nálgast mjög góða skýrslu borgaryfrvalda í Hasselt, en sú borg fór í heilmikið átak í þessum málum árið 1997.  Skýrsla þessi ætti að vera biblía sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu í samgöngumálum:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eru Hrútarnir á uppleið?

derbycountyÉg bjó á Akureyri frá 12 ára aldri til tvítugs.  Þar var sérstaklega gott að búa og kem ég þangað reglulega til að rifja upp gamla og góða tíma.  Á Akureyri eins og öðrum stöðum á landinu höfðu drengir áhuga á enska boltanum en ég hafði takmarkaðan áhuga á knattreki þeirra ensku þarna um 12 ára aldurinn.  Fylkingarnar skiptust að mestu leyti í tvennt: Þeir sem héldu með Liverpool og þeir sem héldu með Manchester United.  Oft var gengið á mig og ég spurður að því með hvoru liðinu ég héldi og þar sem ég hef alltaf verið mjög "dipló" nefndi ég yfirleitt það lið sem ég taldi að viðkomandi héldi með og voru þá allir sáttir (nema kannski ef ég giskaði vitlaust).

Mér hlotnaðist svo Sinclair Spectrum tölva (48 bita að mig minnir) og varð leikurinn Football manager fljótlega í uppáhaldi mér og félaga mínum.  Við gátum eitt mörgum klukkustundum í að velja í lið og sigra stóra sigra á vellinum.   Eitt sinn völdum við Derby county sem hefur viðurnefnið Hrútarnir eða "The Rams".  Það var ekki að spyrja að því, sigrarnir urðu stórir með þessu liði og enduðum við sem enskir meistarar eftir nokkur tímabil (og nokkuð marga klukkutíma skal ég segja ykkur).

Upp frá þessum glæstu sigrum okkar með Derby County í sýndarveruleika Sinclair Spectrum fór ég svo að fylgjast með enska boltanum af meiri áhuga.  Smám saman var ég farinn að fylgjast með liðinu, hvernig því gekk, hvaða leikmenn voru í liðinu o.sfrv..   Enduðu þessi ósköp þannig að frá 13 ára aldri hef ég haldið með Hrútunum í enska boltanum.

Það hafa svo sannarlega skipst á skyn og skúrir hjá Derby frá því að ég  byrjaði að halda með þeim. Liðið var lengi í efstu deild en gekk þó ekkert sérstaklega.  Ekki laust við að maður hafi horft öfundaraugum til þeirra sem héldu með stærri liðum en aldrei gafst ég þó upp.  Kom svo að því að Hrútarnir féllu niður um deild fyrir all mörgum árum og verður að viðurkennast að ég hef ekki fylgst mjög náið með þeim þann tíma sem liðinn er frá því mikla áfalli en hef þó alltaf vitað hvar liðið er statt í deildinni hverju sinni (kosturinn er sá að áskrift að Sýn hefur sparast í mörg ár vegna þessa).

En nú eru betri tímar framundan.  Hrútarnir eru nú í efsta sæti 1. deildarinnar með 62 stig, sjö stigum á undan liðinu í þriðja sæti.  Möguleikarnir eru því að verða nokkuð góðir um að liðið komist upp um deild í vor.  Áhuginn hefur því heldur betur vaknað á ný og er ég meira að segja farinn að læra nöfn leikmanna og þjálfarans aftur.   Nú er bara að vona að liðið haldist áfram á flugi og tryggi sér sæti í efstu deild í vor.   Slíkt myndi kosta aukin heimilisútgjöld því þá þyrfti undirritaður að sjálfsögðu að festa sér áskrift að Sýn.

Sem sagt, bjartir tímar framundan hjá Hrútum eins og mér (þeir eru reyndar ekkert svo ýkja margir á landinu en nokkrir sérvitringar eru þó á sama máli og ég um ágæti liðsins).........


« Fyrri síða

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 33211

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband