Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skattheimta í Bandaríkjunum og á Íslandi

Frjálshyggjufólk lítur oft til Bandaríkjanna sem fyrirheitna landsins t.d. hvað varðar skattheimtu og ríkisútgjöld.  Eftir eins og hálfs árs dvöl hér í Bandaríkjunum hefur það komið mér á óvart hversu langt Bandaríkin eru frá því að standa undir þessum væntingum frjálshyggjufólks.  Mig langar t.d. að benda á hátekjuskattinn hér sem er þrepaskiptur.  Vissulega eru Bandaríkin með mjög lágt hlutfall skattheimtu af landsframleiðslu miðað við aðrar þjóðir eins og sést á þessari töflu frá OECD:

taxoecd

 Mynd: Total tax revenue as a percentage of GDP, 2003
Sjá nánar á heimasíðu OECD

Skattheimta sem hlutall af landsframleiðslu er s.s. mjög lágt í Bandaríkjunum miðað við aðrar þjóðir OECD og það er því óumdeilanlegt að þegar horft er á þessa tölfræði eru Bandaríkin vissulega hálfgert draumaríki frjálshyggjufólks.  Athygli hefur vakið að Ísland hefur rokið upp þennan lista undanfarin ár.  Fyrir nokkrum árum vorum við undir meðaltali OECD vorum árið 2003 komin í ellefta sæti hvað hlutfall skattheimtu af landsframleiðslu varðar og erum yfir meðaltalinu.  Skattheimta hefur því óumdeilanlega aukist undanfarin ár á Íslandi sé þessi mælikvarði OECD notaður.  Hér má sjá þróunn þessa hlutfalls á Íslandi frá 1990-2003:

throunskatthlutfalls1990_20

Til að sjá heimildina og skoða þessa þróun í samanburði við önnur ríki OECD, smellið þá hér.

Þegar þessi tafla er skoðuð sést að þetta hlutfall, sem OECD kýs að nota til að mæla hversu skattfrek stjórnvöld eru í aðildarríkjunum hefur hækkað stöðugt á Íslandi frá árinu 1990 en þá var það 31,8% en árið 2003 var það hins vegar komið upp í 39,8%.  Ísland var þar með komið yfir meðaltal OECD hvað þetta varðar.  Þetta gerist þrátt fyrir að hér hafi átt að ríkja hægristjórn á þessu tímabili .  Athygli vekur að þetta hlutfall stóð í stað í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks en rauk svo upp úr öllu valdi eftir að stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við 1995.

Hátekjuskattur er ekki vel liðinn af frjálshyggjumönnum.  Hann á helst að leggja af eftir því sem ég best heyri úr þeirra ranni.   Það er því forvitnilegt að vita að í Bandaríkjunum, draumalandi sumra frjálshyggjumanna, sjá menn sér ekki annað fært en að hafa slíkan skatt.  Tekjuskattur er tekinn bæði af alríkis (federal) stjórnvöldum og hverju ríki fyrir sig.  Skattheimtan er mjög mismunandi eftir ríkjum og í sumum ríkjum er enginn tekjuskattur (bara federal) en í staðinn er þar oft hærri söluskattur.  Slíkt fyrirkomulag er t.d. í Florida.

Allir verða þó að borga tekjuskatt til alríkisstjórnvalda (federal) og þá er um þrepaskiptan skatt að ræða þar sem þeir tekjuhæstu borga hæst hlutfall en þeir tekjulægstu borga lægst hlutfall.   Þessa þrepaskiptingu má sjá hér:

Schedule X — Single

If taxable income is  over--But not over--The tax is:
$0$7,55010% of the amount over $0
$7,550$30,650$755 plus 15% of the amount over 7,550
$30,650$74,200$4,220.00 plus 25% of the amount over 30,650
$74,200$154,800$15,107.50 plus 28% of the amount over 74,200
$154,800$336,550$37,675.50 plus 33% of the amount over 154,800
$336,550no limit$97,653.00 plus 35% of the amount over 336,550

Hér má svo sjá töflur fyrir alla hópa, ekki bara einstæða.

Þeir tekjulægstu (undir 7.550 dollurum) borga því um 10% í alríkisskatt (federal tax) en þeir tekjuhæstu (með tekjur yfir 336.550 dollurum) borga 35%.  Einhvern veginn finnst manni þetta fyrirkomulag litast meira af jafnaðarmennsku en hreinni frjálshyggju.  Það er því staðreynd að í sjálfu fyrirmyndarríki frjálshyggjunnar virðast menn telja nauðsynlegt að beita skattkerfinu til aukins jafnaðar eins og sést á töflunni góðu. 

Það er mín skoðun að hæfilegur hátekjuskattur sé af hinu góða.  Vandamálið er að finna hvar mörkin eigi að liggja.  Ríkisstjórnin frysti viðmiðunina varðandi hátekjuskatt (viðmiðunarmörkin fylgdu ekki verðlagi) um árabil þannig að meðaltekjufólk var farið að borga hátekjuskatt.  Þetta hefur fyrst og fremst bitnað á ungu millistéttarfólki nýkomnu úr námi sem er að fjárfesta í sinni fyrstu eign og koma sér upp fjölskyldu.  Viðmiðin eiga að vera tiltölulega há að mínu mati og hátekjuskattur má ekki vera það íþyngjandi að hann virki letjandi á vinnandi fólk.   


Fjöldi fanga í Bandaríkjunum

fjoldifangaioecd

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
Mynd: Convicted adults admitted to prisons - Number per 100 000 population, 2000
Heimild: http://miranda.sourceoecd.org/vl=8484155/cl=23/nw=1/rpsv/factbook/10-04-01-g01.htm

Á heimasíðu OECD er hægt að nálgast ýmsar áhugaverðar tölfræðiupplýsingar um aðildarríki samtakanna.  Undirritaður hefur grúskað aðeins í þessum upplýsingum vegna verkefnavinnu í námi.  Ég tók eitt ár af tveimur í masternsáminu mínu við HÍ í Bandaríkjunum og skrifaði þá stutta ritgerð þar sem ég bar saman Bandaríkin og Norðurlöndin hvað varðar þætti eins og kostnað heilbrigðiskerfisins, barnadauða, hagvöxt, landsframleiðslu o.sfrv.  Skemmtilegt verkefni viðureignar sem prófessorinn minn var mjög ánægður með.

Eitt af því sem vakti sérstaklega athygli mína þegar ég var að grúska í þessum tölum var samanburðurinn á fjölda fanga per 100.000 íbúa í aðildarríkjunum OECD.  Eins og sést á myndinni hér að ofan er þessi tala lægst á Íslandi (um 22 af hverjum 100.000) en hæst í Bandaríkjunum (um 468 af hverjum 100.000).  Súlan fyrir Bandaríkin brýtur skalann þannig að hún næst ekki einu sinni inn á myndina.  Í Bandaríkjunum er hlutfall fanga um fimmfalt hærra en að meðaltali í OECD ríkjunum og meira en tuttugufalt hærra en á Íslandi .  Hvernig stendur á þessu? 

Ég hef nokkrar kenningar um ástæðuna en er þó alls ekki viss í minni sök. Munurinn á Bandaríkjunum og öðrum ríkjum er svo gríðarlega mikill að áhugavert væri að fá fram kenningar eða skýringar (í athugasemdum við þetta blog) frá fólki sem þekkir t.d. til afbrotafræða eða hefur heyrt eða lesið um af hverju þetta stafar.


Almenningssamgöngur - Hefur gjaldtaka áhrif?

alliristraetoÍ frétt á ruv.is er eftirfarandi haft eftir Gísla Marteini formanni samgöngunefndar borgarinnar:

"Gísli Marteinn segir rannsóknir sýna að upphæð fargjalda dragi ekki úr fjölda farþega, frekar þjónustan. Fólk eigi að geta borgað með korti og fengið tilbaka, rauntími verði gefinn upp á biðstöðvum og að hægt verði að sjá hvaða stoppistöð sé næst. Gera verði fólki kleift að geta fengið tilbaka í vagninum eða greiða með korti. Farþegar eigi að geta séð rauntímann þangað til næsti vagn kemur og hvaða stoppistöð sé næst. Ekki verði þó gert upp á milli samgöngumáta og ekki barist gegn einkabílum því sumir þurfi að vera á bíl. Allir eigi að geta komist hratt og örugglega á milli staða."

Sjá hér:  http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item141197/

Ég tek undir flest af því sem Gísli Marteinn segir þarna t.d. að nauðsynlegt er að farþegar geti borgað með korti, gefið sé til baka ef viðkomandi hefur ekki rétta upphæð og að gefinn sé upp rauntími á biðstöðvum. Það sem ég get hins vegar ekki tekið undir er sú fullyrðing hans að rannsóknir sýni að upphæð fargjalda dragi ekki úr fjölda farþega.

Í fyrsta lagi vil ég benda á að með þessari fullyrðingu er Gísli í raun að segja að hagfræðikenningar um áhrif verðs á eftirspurn standist ekki.  Að fólk sé ekki næmt fyrir verðlagi þegar kemur að vali á samgöngumáta.  Hagfræðin talar reyndar líka um svokallaða markaðságalla þar sem lögmál hennar ná ekki til t.d. hvað varðar mengun, áfengi og fíkniefni.   En varla eru íbúar landsins orðnir það háðir einkabílnum að um hreina fíkn sé að ræða.

Í öðru lagi sýna rannsóknir í bænum Hasselt í Belgíu að sú aðgerð að hafa almenningssamgöngur gjaldfríar skilaði áttföldun í farþegafjölda frá árinu 1997 til ársins 2001.  Hasselt er að mörgu leyti áhugaverð til samanburðar við höfuðborgarsvæðið að því leyti að þar búa um 70.000 manns en um 230.000 manns á svæðinu í kring sækja þangað vinnu eða þjónustu.  Meiri bílaeign var á svæðinu en almennt gerðist í Belgíu og samgöngukerfið var við það að springa í kringum 1996.   Undirritaður var að undirbúa gerð nýsköpunarsjóðsverkefni um nýjungar í samgöngumálum fyrir nokkrum árum og aflaði þá ýmissa gagna frá borgaryfirvöldum í Hasselt m.a. mjög ítarlegrar skýrslu um stöðuna 2001.  Því miður varð aldrei af gerð nýsköpunarverkefnis þar sem ég fékk aðra vinnu það sumarið en ef einhverjir hafa áhuga get ég sent þeim skýrsluna í tölvupósti (sendið mér fyrirspurn á sigfus.sigmundsson@gmail.com).

Ég held að við Íslendingar ættum að líta til Hasselt hvað varðar heildræna samgöngustefnu.  Borgaryfirvöld þar létu nefnilega ekki duga að gefa almenningssamgöngur fríar heldur var um gríðarlega yfirgripsmikið átak að ræða sem m.a. náði til átaks í hjólreiðastígum, markaðssetningu almenningssamgangna og margs fleira sem lesa má um í skýrslunni góðu.

Nú veit ég ekki hvaða rannsóknir Gísli Marteinn var að vitna til varðandi það að gjaldtaka í almenningssamgöngum skipti ekki máli en ég óska hér með eftir að hann vitni til þeirra þar sem þær virðast þá algjörlega stangast á við reynslu þeirra í Hasselt í Belgíu.  Þvert á móti sýnir reynsla þeirra í Hasselt að vilji stjórnvalda til að taka á umferðarvanda með því að bjóða upp á góða valkosti við einkabílinn geti skilað gríðarlega góðum árangri.

Það er trú undirritaðs að gjaldfríar almennigssamgöngur ásamt markaðssetningu þeirra gætu komið í stað kostnaðarsamra umferðarmannvirkja sem skera í sundur borgina.  Slík aðgerð ætti að vera öllum til góða, líka þeim sem kjósa að nota einkabílinn áfram.  Ef fleiri nota strætó mun umferðarþunginn á götum borgarinnar minnka sem skilar sér í auknum þægindum þeirra sem áfram kjósa að keyra um á sínum einkabíl.


Allt sem ekki er sérstaklega leyft skal vera bannað!

soberVið hjónin höfum nú búið í Bandaríkjunum í að verða eitt og hálft ár.  Við höfum verið dugleg að ferðast og erum nú að ferðast um San Francisco og nágrenni.  Í fyrradag fórum við á góðan ítalskan veitingastað sem var í göngufjarlægð frá hótelinu okkar.  Eftir að hafa rennt niður ljúffengum mat og víni langaði okkur til að panta líkjör og kaffi.  En nei!  Það var ekki hægt vegna þess að staðurinn hafði einungis léttvínsleyfi en ekki leyfi fyrir sterk vín.  Við spurðum þjóninn nánar út í þessar reglur og sagði hann okkur þá frá því að einungis væru gefin út ákveðið mörg leyfi fyrir sterk vín á hverju svæði í borginni og það væri mikill skortur á slíkum leyfum.  Ef viðkomandi veitingahúsaeigandi vill selja sterkt áfengi þarf hann að kaupa leyfi af einhverjum sem er á sama svæði og er með leyfi.  Verðið á slíku leyfi er nú um 80.000 dollarar (um fimm og hálf milljón ísl. kr) og svo þarf að greiða borginni 5000 dollara (um 350 þúsund ísl. kr.) á ári til að halda leyfinu.  Þetta kom mér virkilega á óvart og verður að viðurkennast að undirrituðum fannst þetta ansi skondið sérstaklega verandi staddur í Bandaríkjunum.  Hefði ekki komið mér á óvart að stjórnmálamönnum dytti slíkt í hug í Noregi, Svíþjóð eða Íslandi en einhvern veginn býst maður ekki við þessu hér.

Áfengisstefna er í höndum staðbundinna stjórnvalda í Bandaríkjunum.   Reglurnar eru mjög mismunandi milli staða. Sums staðar eru þær tiltölulega frjálsar en annars staðar mjög strangar.  Ég hef þó ekki enn komið í borg eða ríki þar sem sala áfengra drykkja er algjörlega frjáls. Við Íslendingar ímyndum okkur oft Bandaríkin sem land þar sem fáar reglur gilda og borgurunum sé frjálst að gera nær hvað sem er svo lengi sem það skaði ekki aðra.  Raunin er hins vegar allt önnur.  Hér ríkja oft á tíðum strangar reglur um ólíklegustu hluti.  Þeim er líka framfylgt með hörku og viðurlögin við brotum eru oftast mun harðari en t.d. í Evrópu.

Þessi aðferð sem lýst er hér að ofan varðandi útgáfu framseljanlegra leyfa fyrir sölu sterkra drykkja er áhugaverð að mörgu leyti.  Er mér þá hugsað til fyrirhugaðs reykingabanns á veitinga- og skemmtistöðum sem taka á gildi á Íslandi 1. júní á þessu ári.   Hvernig væri að nota eitthvert afbrigði af aðferð þeirra í San Francisco til að fjölga reyklausum stöðum í stað þess að banna reykingarnar alfarið?  Gefa út ákveðinn fjölda leyfa í hverju hverfi og hafa þau framseljanleg.  Með því ætti valkostum þeirra sem kjósa reyklaust umhverfi að fjölga og þeir sem vilja reykja eða stunda óbeinar reykingar geta áfram haft staði til að sækja.   Ég tek fram að ég reyki ekki og hef aldrei gert.  Það er mér því ekkert sérstakt kappsmál að stuðla að áframhaldandi reykingum á veitinga- og skemmtistöðum.  Ég er hins vegar á móti öllum öfgum og tel að ríkisvaldið eigi að kunna sér hófs í að setja íþyngjandi reglur fyrir borgarana.

 

 


Samfélags- og stjórnmálaumræða á Íslandi í dag

quarrelingSamfélags- og stjórnmálaumræða á Íslandi er orðin harkalegri í dag en hún var fyrir nokkrum árum.  Minnir þessi aukna harka á þá tíma er kalda stríðið stóð sem hæst og þjóðin skiptist í tvær fylkingar, með og á móti hernum eða með eða á móti aðild Íslands að NATO. Orsök þessa liggur í nokkrum málum sem hafa verið mjög umdeild á Íslandi undanfarin ár og má í því sambandi nefna stuðning ríkisstjórnarinnar við Íraksstríðið, fjölmiðlamálið, eftirlaunafrumvarpið og Kárahnjúkavirkjun.   Þessi mál höfðu/hafa öll þau einkenni að þjóðin skiptist í tvo álíka stóra hópa, með og á móti, og ágreiningurinn var/er það alvarlegur að úr hefur orðið meiri heift, illindi og átök en áður hefur verið þ.e. frá því að kaldastríðsátökin áttu sér stað.

Það er ekki heillavænlegt þegar svo mikil illindi og átök eiga sér stað í litlu samfélagi.  Þessu fylgja oft harðar árásir á einstaklinga og þeim geta oft fylgt mikil særindi.  Slíkar persónulegar árásir eru almennt mjög niðurdrepandi og engum málstað til hagsbóta.   Það er von undirritaðs að þessu tímabili fari nú senn að ljúka svo hægt verði að byggja upp á ný í stað þess að rífa niður.  Við þurfum að snúa bökum saman og vinna að betra samfélagi og nýtingu þeirra fjölda tækifæra sem Íslandi bjóðast í framtíðinni.  

Það er með þessu hugarfari sem ég hef þetta blog mitt.  Ég er þó ekki fullkominn frekar en aðrir og get engan veginn útilokað að einhvern tíma eigi ég eftir að detta í þann farveg sem ég lýsi hér að ofan en ég mun a.m.k. reyna mitt besta til þess að svo verði ekki.  Með þessum orðum er ég ekki að segja að ekki megi gagnrýna eitt né neitt heldur er ég einungis að kalla eftir uppbyggilegri umræðu, málefnalegri gagnrýni og minna skítkasti.


« Fyrri síða

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband