Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ókeypis í strætó!

alliristraetoÍ færslum hér á blogginu hef ég fjallað nokkrum sinnum um gjaldfríar almenningssamgöngur og þann árangur sem þær hafa skilað á Akureyri og í Hasselt í Belgíu.  Ég hef einnig vitnað í Gísla Martein Baldursson, formann samgöngunefndar Reykjavíkurborgar, sem sagði í viðtali við fréttastofu útvarps þann 18. janúar síðastliðinn að "..rannsóknir sýna að upphæð fargjalda dragi ekki úr fjölda farþega, frekar þjónustan....".  Sjá hér.  Enn á ný kalla ég eftir þessum rannsóknarniðurstöðum sem Gísli Marteinn vitnar til.  Ég hef aldrei heyrt um slíkar niðurstöður og gaman væri ef Gísli myndi vitna í þær svo hægt verði að sannreyna að þær séu raunverulega til. 

Akureyri og Hasselt eru ekki einu sveitarfélögin sem farið hafa þessa leið (gjaldfríar almenningssamgöngur) með góðum árangri.  Fyrir nokkrum árum ákvað Reykjanesbær að taka ekki lengur gjald í strætisvagna bæjarins.   Árangurinn lét ekki á sér standa og hefur orðið tvöföldun á farþegafjölda strætó þar í bæ síðan þetta var ákveðið.  Lesa má um framkvæmdina á heimasíðu Reykjanesbæjar hér og hér.  Í frétt á vef bæjarins stendur m.a. efirfarandi:

"....Áfram verður frítt í sund fyrir börn á grunnskólaaldri og er það sérstaklega ánægjulegt að fleiri sveitarfélög fylgja fordæmi Reykjanesbæjar að bjóða upp á fríar strætósamgöngur. Í báðum tilvikum hefur nýting tvöfaldast eftir þessar breytingar."
 
Og:

"Fullorðið fólk er einnig að vakna til vitundar um kosti strætókerfisins og það er að aukast að fólk noti vagnana til og frá vinnu og dæmi vitum við um að fólk hafi losað sig við bíl nr. 2 sem nánast eingöngu var notaður til að komast til og frá vinnu..."

Einnig:

"....Það gefur auga leið að umferð einkabíla hefur dregið saman, því hér eins og annars staðar er algengt að börnum sé ekið til skóla, íþróttir eða í afþreyingu.  Aukinn notkun strætisvagna skapar minni streitu fyrir foreldra og streituminni umferð í bænum, með líkum á færri umferðaróhöppum.  Fyrir margar fjölskyldur var kostnaður vegna strætóferða umtalsverður þegar á heilt ár var litið og því mikið hagræði af því að njóta ókeypis þjónustu...."

Spennandi verður að fylgjast áfram með þróun mála á Akureyri og í Reykjanesbæ.  Þar eru menn framsýnir í þessum málum.   Stjórnendur Reykjavíkurborgar hafa hins vegar enga trú á því að markaðslögmálin gildi í þessum málaflokki eins og tilvitnunin í Gísla Martein hér að ofan er til merkis um.  Hér keyra vagnarnir vannýttir (hálf tómir) um borgina á meðan stórhugur ríkir í gerð umferðarslaufa og mislægra gatnamóta.  Þvert á móti er stefnan í Reykjavík sú að hækka gjaldið í strætó (sbr hækkun nýverið sem var langt umfram verðlag) og fækka leiðum.

Ég er alls ekki einn af þeim sem boða það að allir eigi að fara í strætó og gera eigi einkabílnum eins erfitt fyrir og hægt er.  Ég tel að hagsmunir ökumanna einkabíla fari saman við hagsmuni þeirra sem kjósa aðra samgöngumöguleika.  Ef 50% aukning yrði í noktun strætó myndu ökumenn einkabíla geta komist betur leiðar sinnar.   Það á að reyna þennan möguleika, þ.e. að nýta strætisvagnana betur, áður en borgin verður öll sundurgrafin í sex akreina hraðbrautum og risavöxnum umferðarslaufum.  Það þarf þó að gera meira en að hafa strætó gjaldfrían.  Það þarf að markaðssetja almenningssamgöngur með öflugum hætti sem vistvænan valmöguleika, byggja betri og hlýrri strætóskýli, auka tíðni ferða á álagstímum, byggja upp net góðra stíga fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk og margt fleira til að hægt sé að koma í veg fyrir að Reykjavík þróist í átt að borgum eins og Houston í Texas (í smærri mynd þó).

Hér að neðan má nálgast mjög góða skýrslu borgaryfrvalda í Hasselt, en sú borg fór í heilmikið átak í þessum málum árið 1997.  Skýrsla þessi ætti að vera biblía sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu í samgöngumálum:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hæsta matvælaverðið og hæstu styrkirnir til landbúnaðar

Við Íslendingar erum mögnuð þjóð er kemur að neytendamálum.  Við sættum okkur við það að greiða hæstu styrki til landbúnaðar í heiminum um leið og við látum bjóða okkur það að greiða hæsta verð fyrir matvæli í heiminum.  Landbúnaðurinn tekur s.s. bæði úr hægri og vinstri vasa okkar skattgreiðenda/neytenda.  Einhver hefði haldið að allar þessar niðurgreiðslur til landbúnaðar ættu að skila sér í lægra verði til neytenda.  En, nei.  Því fer nú aldeilis fjarri.  Hér er súlurit frá OECD sem sýnir landbúnaðarstyrki í löndum samtakana:

landb
Producer support estimate by country.  As a percentage of value of gross farm receipts

Sjá hér 

Eins og sést á myndinni nýtur Íslands þess vafasama heiðurs að vera á topp 3 listanum yfir þau ríki sem greiða hæstu styrki til landbúnaðar.  Noregur, Sviss og Ísland eru í sérflokki hvað þetta varðar.  Það jákvæða er þó að þessir styrkir lækkuðu á þessum c.a. átta árum sem um ræðir og Ísland fer úr öðru sæti niður í það þriðja. 

Nú hefur verið starfandi hægristjórn hér á landi undanfarin 12 ár en staðan er samt sú að enn í dag rekum við hér sovéskt landbúnaðarkerfi þar sem ríkið er í raun að handstýra framleiðslunni.  Hvenær má vænta þess að landbúnaðurinn verði markaðsvæddur hér á landi, þó ekki væri nema bara að hluta til?


Marktækni skoðanakannana

GallupSkoðanakannanir eru framkvæmdar með mjög misjöfnum hætti.  Að undanförnu hafa komið fram niðurstöður úr nokkrum slíkum og rokkar fylgi flokkanna upp og niður eftir því hvaða könnun er skoðuð hverju sinni.  Það má þó greina ákveðna línu í þeim öllum, þ.e. Samfylking að tapa fylgi til VG, Sjálfstæðisflokkur sterkur, Framsókn í vandræðum o.sfrv.

Ég tek mest mark á könnunum Gallup (nú Capacent) og tek t.d. ákaflega lítið mark á könnunum Plússins og annara slíkra miðla sem virðast ekki ná tökum á þessum vísindum.  Ástæðan er einföld, Gallup/Capacent var næst því að geta rétt til um niðurstöður síðustu Alþingiskosninga og fyrirtækið hefur yfirleitt komið hvað best út þegar marktækni er annars vegar.  Ég veit einnig að kannanir Gallups/Capacent eru framkvæmdar undir styrkri leiðsögn Þorláks Karlssonar sem er einn af okkar færustu fræðimönnum á þessu sviði (kenndi mér í HÍ á sínum tíma). Því bíð ég alltaf eftir næstu könnun frá Gallup/Capacent til þess að sjá marktæka mælingu á stöðunni hverju sinni. 

Vissulega hafa aðrir aðilar náð að geta nærri lagi oft á tíðum en Gallup/Capacent hefur reynst stöðugasta mælistikan í þessum efnum í gegnum tíðina.

Læt hér fylgja grein úr Mogganum frá 12. maí 2003 þar sem farið er yfir þessi mál:

Mánudaginn 12. maí, 2003 - Innlendar fréttir

Heildarfrávik í skoðanakönnunum var á bilinu 5,2 til 8,7%

Gallup fór næst úrslitum kosninga

NIÐURSTÖÐUR síðustu skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Ríkisútvarpið um fylgi stjórnmálaflokkanna fór næst raunverulegu fylgi þeirra í kosningunum.

 myndskod

NIÐURSTÖÐUR síðustu skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Ríkisútvarpið um fylgi stjórnmálaflokkanna fór næst raunverulegu fylgi þeirra í kosningunum. Þær skoðanakannanir sem fjölmiðlarnir birtu dagana fyrir kosningar voru almennt nokkuð nálægt úrslitum kosninganna.

Mestu munar á skoðanakönnunum og fylgi hjá Sjálfstæðisflokknum sem Félagsvísindastofnun, Gallup og IBM ofmátu um 2 til 3,3%. Hefur það oft áður gerst að flokkurinn fær færri atkvæði upp úr kjörkössunum en skoðanakannanir hafa gefið til kynna. Fyrir síðustu alþingiskosningar, vorið 1999, sýndu skoðanakannanir að bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking fengju meira fylgi en raun varð á. Að þessu sinni voru frávik nokkur hjá Samfylkingunni en það var í báðar áttir.

Niðurstaða Sjálfstæðisflokksins kom mest á óvart

Gallup gerði sína síðustu raðkönnun fyrir Ríkisútvarpið á miðvikudag og fimmtudag fyrir kosningar. Þegar upp er staðið reyndist hún fara næst um endanleg úrslit kosninganna. Á meðfylgjandi töflu sést að samanlagt frávik könnunarinnar frá fylgi þeirra flokka sem náðu meira en 1% fylgi var 5,2%. Mestu munaði hjá Sjálfstæðisflokknum sem Gallup ofmat um 2,1% eins og flestir aðrir sem gerðu kannanir fyrir kosningarnar. Önnur frávik voru um og innan við 1% hjá Gallup.

Þorlákur Karlsson, framkvæmdastjóri hjá Gallup, kveðst ánægður með hvað könnun fyrirtækisins fór nálægt úrslitunum en tekur fram að skoðanakannanir hafi almennt farið nálægt úrslitum kosninganna. Hann segir að niðurstaða Sjálfstæðisflokksins hafi komið mest á óvart, fylgi hans hafi orðið minna en hann hefði getað ímyndað sér fyrirfram. Kveðst hann ekki hafa skýringar á því en stjórnmálafræðingar væru sjálfsagt að velta því fyrir sér þessa dagana.

Ef frávik skoðanakönnunar sem Fréttablaðið gerði einnig á miðvikudag og fimmtudag er metið með sama hætti sést að samanlagt frávik hennar frá úrslitum er 5,9%. Tiltölulega jafnt frávik var á öllum tölum, sé það borið saman við aðrar kannanir í aðdraganda kosninganna.

Hreyfing í lokin

Könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Morgunblaðið á mánudag, þriðjudag og miðvikudag sýnir 6,7% heildarfrávik frá niðurstöðum kosninga. Þar munar mest um að Sjálfstæðisflokkurinn mældist 2,4% of hár en Samfylkingin 2,5% lægri en raun varð á í kosningunum.

Friðrik H. Jónsson, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, segir að Félagsvísindastofnun sé í miðjum hópi þegar litið er til frávika frá kosningum. Það sé í sjálfu sér viðunandi. Hann kveðst þó óánægður með hversu mikið frávik hafi verið á stóru flokkunum frá könnun stofnunarinnar. "Það virðist hafa verið hreyfing í lokin sem við höfum ekki náð. Raunar grunaði okkur þetta, vísbendingar komu í þessa átt þegar fólk var spurt hvað það hefði kosið síðast. En við verðum að treysta því sem fólk segir," segir Friðrik.

Vísar hann þar til þess að fylgi Sjálfstæðisflokksins var ofmetið en Samfylkingarinnar vanmetið. Friðrik segir að könnun Félagsvísindastofnunar hafi aftur á móti reynst vera nálægt fylgi annarra flokka og framboða og væri hann ánægður með það.

Miklar sveiflur tvo síðustu dagana

Könnun sem DV gerði á fimmudag sýnir 7,9% heildarfrávik. Þetta er sú skoðanakönnun sem síðust var gerð fyrir kosningarnar. Frávik var á bilinu 1,5 til 2% á öllum flokkum, nema Vinstri grænum.

Sú könnun sem vék mest frá úrslitum kosninganna var skoðanakönnun sem IBM viðskiptaráðgjöf gerði fyrir Stöð 2 frá mánudegi til fimmtudags. Heildarfrávik í því tilviki er 8,7%. Mest munar um að Sjálfstæðisflokkurinn var ofmetinn um 3,3%.

Hafliði Ingason hjá IBM segir að hafa verði í huga að kannanirnar hafi verið gerðar á mismunandi tímum. Segir hann að könnunin sem IBM gerði fyrir Stöð 2 fyrri hluta vikunnar hafi sýnt svipaða niðurstöðu og aðrar kannanir sem gerðar voru á þeim tíma, svo sem Félagsvísindastofnun, og Gallup hafi ekki verið langt frá. Frávik Sjálfstæðisflokksins telur hann hugsanlega skýrast af því að könnunin hafi ekki náð fylgishreyfingum sem orðið hafi í lok vikunnar, á föstudag og kjördag. "Það er engin leið að mæla síðustu tvo dagana en það er einmitt sá tími sem fylgist virðast sveiflast mikið. Ef kosið hefði verið 8. maí má búast við að fylgið hefði skipst nokkurn veginn eins og okkar könnun sýndi," segir Hafliði.

 


Skoðanakannanir og kosningar

pollUndanfarna daga hafa farið fram líflegar umræður um skoðanakannanir. Af því tilefni er gaman að rifja upp hvernig staðan var á sama tíma fyrir kosningarnar árið 2003.   Fréttablaðið gerði könnun 21. janúar 2003 og mældist þá fylgi flokkanna eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkur  38,2%
Samfylking  39,3%
Framsóknarflokkur  12,1%
Vinstri grænir  7,5%
Frjálslyndi flokkur  2,2%

40% voru óákveðnir

Heimild 

Úrslit kosninga þetta vor urðu svo eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkur  33,7%
Samfylking  31,0%
Framsóknarflokkur  17,7%
Vinstri grænir  8,8%
Frjálslyndi flokkur  7,4%
Nýtt afl  1,0%

Heimild: Hagstofa Íslands

Eins og sést á þessu er töluverður munur á mælingu Fréttablaðsins á stöðunni 21. janúar og úrslitum kosninganna í maí 2003.  Stafar það m.a. af háu hlutfalli óákveðna, þeir voru 40% svarenda í janúarkönnuninni, og svo það að nokkuð langt var í kosningar.  Munurinn á könnuninni og úrslitum kosninga var -4,5% í tilfelli Sjálfstæðisflokksins, -8,3% í tilfelli Samfylkingarinnar, +5,6% í tilfelli Framsóknar, +1,3% í tilfelli VG og + 5,2% í tilfelli Frjálslyndra.

Þetta segir okkur að kannanir þetta snemma í aðdraganda kosninga geta verið ansi skeikular þó þær vissulega gefi ákveðin fyrirheit fyrir það sem koma skal.  Þetta segir okkur einnig það að Samfylkingarfólk hefur vissulega góða ástæðu til að hafa áhyggjur af núverandi stöðu því ef þróunin verður eins og síðast þá mun hún frekar tapa fylgi fram að kosningum fremur en að bæta við sig.  Síðast voru það helst Framsókn og Frjálslyndir sem bættu við sig fylgi frá janúar til kosninga en Samfylking og Sjálfstæðisflokkur töpuðu hins vegar fylgi á sama tímabili.  Það er þó ekki sjálfgefið að sama þróun verði nú, þ.e. að sömu flokkar tapi fylgi fram að kosningum og þeir sömu bæti við sig. 

En lítum á niðurstöðu nýjustu könnunar Fréttablaðsins á fylgi flokkanna (21. janúar 2007):

Sjálfstæðisflokkur  40,2%
Samfylking  21,2%
Framsóknarflokkur  7,4%
Vinstri grænir  19,4%
Frjálslyndi flokkur  10,0%

59,1% tóku afstöðu

Heimild

Það verður ekki horft framhjá því að VG er í stórsókn um þessar mundir og sú sókn er helst á kostnað Samfylkingarinnar.  Sjálfstæðisflokkurinn er á ágætis róli og Frjálslyndir standa vel.   Framsóknarflokkur er í miklum erfiðleikum en sá flokkur hefur marg sannað að hann er lífseigur þegar kemur að kosningum og á örugglega eftir að bæta töluvert við sig í kosningunum í vor.   Fær alveg örugglega ekki 7,4% eins og þessi könnun gefur til kynna.

Erfitt er að spá um framhaldið fram að kosningum.  Enn eru rúmlega 40% kjósenda óákveðnir og eins og samaburðurinn frá 2003 gefur til kynna getur margt gerst á fjórum mánuðum.   Eina sem undirritaður telur nokkuð fast í hendi er það að Framsókn fær engin 7,4% í kosningunum.  Flokkurinn hefur margsannað styrk sinn þegar kemur að kosningum og mun aldrei fara undir 10% og líklega fer hann langt yfir það.  Ýmis ný framboð eru í pípunum og geta þau breytt pólitíska landslaginu mikið. 

Niðurstaðan er sú að framundan eru gífurlega spennandi kosningar sem erfitt er að spá fyrir um hvernig fara.  Megin línurnar eru þó þær að VG er í stórsókn á kostnað Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokkurinn er á góðu róli, Framsókn er í tímabundinni tilvistarkreppu en mun sækja í sig veðrið þegar nær dregur að kosningum.   Frjálslyndir eru óviss stærð og framtíð þess flokks ræðst ekki fyrr en í ljós kemur hvað Margrét Sverris ætlar að gera.

Eitt er víst: Framundan eru æsispennandi tímar fyrir áhugafólk um stjórnmál!


McDonalds dýrast á Íslandi

mcDonaldsSamkvæmt frétt í Morgunblaðinu í gær er McDonalds BigMac hamborgari dýrastur á Íslandi í öllum heiminum.  Það er tímaritið The Economist sem tekur saman svokallaða Mac-vísitölu og komust blaðamenn þess að þessari niðurstöðu.

Fram kemur að Big Mac hamborgari er 131% dýrari hér á landi en í Bandaríkjunum.  Borgarinn á Íslandi kostar jafngildi 7,44 dala en 3,22 dali í Bandaríkjunum samkvæmt tölum Economist. Sigur Íslands í Big Macverðlagi er mjög afgerandi.  Norðmenn komast næst því að slá okkur við en eiga þó umtalsvert langt í land, þar er Big Mac 106% dýrari en í Bandaríkjunum. Á evrusvæðinu er hann 19% dýrari en í Bandaríkjunum, í Svíþjóð 57% og í Danmörku 50% dýrari. Bestu kaupin á Big Mac eru í Kína en þar má fá fimm hamborgara og einn þriðja af þeim sjötta fyrir verð eins á Íslandi.

Ein af megin ástæðum þess að McDonalds sló í gegn í Bandaríkjunum var hversu ódýr hann var.  Samkeppnin á hamborgaramarkaðnum í Bandaríkjunum er mikil og keðjur eins og Wendys og Burger king veita McDonalds mikið aðhald.   Þetta konsept - þ.e. ódýr skyndibiti, stuttur afgreiðslutími og stöðluð vara - virðist hins vegar hafa gjörbreyst við íslenskar aðstæður.  Hér á landi er alls ekkert ódýrt að fá sé McDonalds.  Hér kostar þessi frægi skyndibiti álíka mikið og steik og rauðvínsglas í löndum þar sem verðlag er í betra jafnvægi.

Þessi McDonalds vísitala þeirra hjá The Economist er enn ein staðfestingin á því að Íslendingar búa við eitt hæsta matarverð í heiminum.   Spurningin er bara hvað sé til ráða til að sporna við þessari þróun.  Eitt af svörunum við þeirri spurningu felst í því að stokka upp landbúnaðarkerfið og lækka tolla á matvælum.  Til þess að það geti orðið að veruleika þarf hins vegar að losna við Framókn úr ríkisstjórn. 


mbl.is Ofmetnasti gjaldmiðillinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pylsupakki = 548 kr.

pylsa_160506Á miðvikudaginn flutti ég heim frá Miami eftir eins og hálfs árs dvöl í borg hvítra jakkafata og bleikra skyrtna.  Fór í mína fyrstu Bónusferð á fimmtudaginn og óhætt er að segja að sú upplifun hafi verið æði sérstök.  Henti einum pylsupakka í körfuna og leit ekki einu sinni á verðið þar sem ég taldi jú að kaup á pylsupakka þarfnaðist ekki mikillar yfirlegu (reyni yfirleitt að vera meðvitaður um verð á þeim vörum sem ég kaupi).  En þetta reyndust vera mistök.  Hefði sennilega ekki hent pylsunum í körfuna ef ég hefði litið á verðmiðann í búðinni.   Á verðmiðanum stóð nefnilega að pakkinn kostaði hvorki meira né minna en 548 kr.

Held að ef ég hefði búið hér heima hefði ég ekki tekið eins vel eftir þessum miklu verðhækkunum sem hér hafa orðið (eða er þetta kannski rugl í mér?).  Ef verðhækkanir gerast í smáskrefum yfir langt tímabil verður maður síður var við þær en þegar dvalið er í öðru landi í eitt og hálft ár verður sjokkið óneitanlega mikið þegar heim er komið.

Það getur líka verið að ég sé hreinlega búinn að gleyma því hvað ég borgaði fyrir pylsupakkann fyrir einu og hálfu ári síðan.  Að ég sé bara orðinn góðu vanur, þ.e. orðinn vanur því að fá nautalundir í stað pylsupakka fyrir þetta verð.  Sé eftir því núna að hafa ekki geymt nokkra Bónusstrimla frá dögunum fyrir brottför svo ég gæti séð þetta svart á hvítu.  Spurning hvort einhver lesandi muni hvað svona pylsupakki (stærri gerðin af SS pylsum) kostaði fyrir c.a. einu og hálfu ári síðan.  Þá gæti ég staðfest hvort sjokkið sem ég varð fyrir stafi af verðbólgunni hér heima eða hvort það stafi af því að ég sé hreinlega bara búinn að gleyma því hvað hlutirnir kostuðu áður en ég fór út.


Íraksstríðið - The Ground Truth

groundtruthÉg horfði á heimildamyndina "The Ground Truth" fyrir nokkrum dögum.  Myndin fjallar á raunsannan hátt um Íraksstríðið og afleiðingar þess fyrir bandarískja hermenn og almenning í Írak.  Þetta er mynd sem að núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna myndi vilja borga mikið fyrir að almenningur sæi ekki.

Myndin byggist að mestu leyti upp á viðtölum við hermenn sem þjónuðu í Írak en eru nú komnir heim.  Sumir þeirra heilir en flestir mikið skaðaðir, hvort sem það er á sál eða líkama.  Þessi mynd er ekki fyrir viðkvæmar sálir þar sem í henni eru skelfilegar lýsingar á atburðum á átakasvæðinu sem og myndir af afskræmdum líkum og átakanlegum áverkum fyrrverandi hermanna.

Í myndinni er m.a. viðtal við foreldra ungs hermanns sem framdi sjálfsmorð stuttu eftir að hann kom heim frá Írak.  Þau bentu á að yfirvöld hefðu engan áhuga að beina athyglinni að andlegri líðan hermanna eftir að frá Írak er komið.  Hermennirnir sem koma fram í myndinni eru margir líkamlega bæklaðir eftir stríðið og átakanlegast er að sjá viðtal við mann sem er algjörlega afskræmdur í framan og á höfði.  Almennt deila þessir hermenn hart á stríðið í Írak og þá sérstaklega vegna mikils mannfalls í röðum óbreyttra borgara.   Þeir tala einnig flestir um að þeim finnist málstaðurinn ekki vera góður og að þeir hafi fórnað miklu fyrir ekki neitt.

Þetta er mynd sem Bandaríkjastjórn vill ekki að almenningur sjái en allir ættu að sjá til að átta sig betur á hversu hrikalegt þetta stríð er.   Mæli eindregið með að fólk leigi hana eða kaupi á netinu og horfi á.   Hvernig væri svo að einhver stöðin hér heima tæki sig til og sýndi svona heimildarmyndir sem skilja eitthvað eftir sig?  


Getraun: Hver mælti eftirfarandi árið 1988?

bottle_chopper

Hver mælti eftirfarandi á Alþingi árið 1988 og greiddi svo atkvæði gegn því að leyfa bjór á Íslandi?  Ef þið vitið svarið þá endilega komið með það í athugasemdakerfinu við þessa færslu.

“……Við erum ekkert óskaplega löghlýðin þjóð, Íslendingar, og er alveg staðreynd að það þarf að hafa lagaframkvæmd hér í býsna styrkum höndum ef vel á að fara. Þannig er það að sú tenging sem að nafninu til er á milli vínveitingaleyfa og matsölu er ekki í reynd nema algerlega til málamynda. Staðir sem að nafninu til heita matsölustaðir eru fyrst og fremst barir eða krár, jafnvel út á það eitt að geta hitað eldgamlar, þurrar og skorpnar samlokur í örbylgjuofni ofan í fólk ef einhver er svo vitlaus að láta sér detta í hug að biðja um það og fær þá gjarnan með eftirgangsmunum. Þetta er staðreynd. Þarna held ég að menn hafi fallið á prófinu. Við hefðum átt eins og Svíar t.d. að vera mjög ströng í þeim efnum að þessum skilyrðum væri fullnægt, þetta væru alvörumatsölustaðir og þar væri ekki um opinn bar að ræða sem hver og einn gæti gengið inn í af götunni og keypt sér vín. Ég þekki það af eigin raun t.d. þegar ég var einu sinni liðsstjóri fyrir landsliði á erlendri grund einmitt í því téða Svíaríki og menn vildu eftir ákveðið mót fara að hressa sig aðeins. Þá vorum við staddir í þannig hverfum að þarna voru eingöngu matsölustaðir. Þar var ekkert um það að ræða. Menn gátu fengið áfengi ef menn keyptu mat, ella ekki. Við það var staðið. Því var framfylgt. Þannig var haldið á hlutunum þar…..”

Og:

“…..Ég hefði talið skynsamlegt að reyna að velja einhvern tiltekinn þröngan styrkleikaflokk og hafa ölið á honum. Það hefði haft áhrif að mínu mati ef við hefðum t.d. ákveðið að áfengt öl skyldi vera af styrkleikanum 3,25--3,75, hvorki meira né minna, búið. Frekar létt öl, en samt klárlega áfengi og eingöngu meðhöndlað sem slíkt og selt sem slíkt. (PP: Hvað með þá léttara öl?) Já, hv. formaður fjvn. Ég hefði talið það skynsamlegt vegna þess að ég t.d. tel að það eigi þá að lyfta, ef menn leyfa áfengt öl á annað borð, styrkleikanum svo að menn geti ekki þrætt fyrir að um brennivín sé að ræða og hefði ég talið að t.d. neðri mörkin mættu vera eins og 3,25 og efri mörkin 3,5 eða 3,75….”

Og einnig þetta:

“…..Ég nefni í sjötta lagi það fyrirkomulag sem Færeyingar hafa og menn hafa nú gjarnan hlegið að, en ættu að hætta því eins og reyndar flestu öðru sem frændur okkar Færeyingar gera. Þeir láta menn ekki hafa heimildir til að kaupa brennivín nema þeir hafi borgað skattana sína. Þetta er alveg snilldargóð hugmynd, afar góð og holl þjóðfélagsleg hugmynd. Fyrst leggur þú þitt af mörkum til samfélagsins og síðan máttu fara og kaupa eitthvað af brennivíni fyrir afganginn ef einhver er. En þetta kemur ekki í öfugri röð eins og það gerir því miður mjög oft, sérstaklega þegar þessi mál eru komin úr böndunum…..” mjög margt betur en við Íslendingar.

 Og að lokum þetta:

“…..en líka til þess að sýna fram á fátækt þessarar umræðu að mörgu leyti, sérstaklega af hálfu þeirra, herra forseti, sem vilja endilega troða þessu öli inn í landið….”

 

Heimild: smellið hér



60% fjölgun farþega í strætó á Akureyri

straeto3Nú um áramótin voru fargjöld felld niður hjá Strætisvögnum Akureyrar.  Samkvæmt frétt á heimasíðu Akureyrarbæjar hefur farþegum fjölgað um 60% sé þriðja vika þessa árs borin saman við þriðju viku síðasta árs. Hér er fréttin í heild sinni:

"Farþegum með Strætisvögnum Akureyrar hefur fjölgað um 60% frá því fargjöld voru felld niður um síðustu áramót og nær fjölgunin til allra aldurshópa. Þetta kemur fram þegar fjöldi farþega í þriðju viku þessa árs er borinn saman við sama tíma í fyrra.

Að meðaltali voru farþegar á dag 640 í þriðju viku ársins 2006 en eru nú að meðaltali 1.020. Því er ljóst að Akureyringar taka niðurfellingu fargjalda fegins hendi.

Nú þegar er hafin vinna við endurskoðun á leiðarkerfi Strætisvagna Akureyrar með það að meginmarkmiði að hefja akstur um hið nýja Naustahverfi syðst í bænum. Ekki er gert ráð fyrir að núverandi akstursleiðum verði breytt nema að litlu leyti en staðsetning stoppistöðva verður skoðuð og tímatöflur uppfærðar.
Þar að auki er stefnt að því að leið 4 aki að Háskólanum á Akureyri."  Sjá hér.

Ég skrifaði pistil hér á blogginu fyrir nokkru síðan um svipaða sögu í bænum Hasselt í Belgíu þar sem farþegafjöldi í almenningssamgöngum þeirrar borgar áttfaldaðist eftir að fargjöld voru felld niður. Reynsla Akureyrar og Hasselt stangast á við eftirfarandi ummæli Gísla Marteins formanns samgöngunefndar Reykjavíkurborgar þann 18. janúar síðastliðinn :

"Gísli Marteinn segir rannsóknir sýna að upphæð fargjalda dragi ekki úr fjölda farþega, frekar þjónustan. "  Sjá hér.

Gaman væri að fá að sjá þær rannsóknir sem Gísli Marteinn var að vitna í.  Eða eru þær til?

Rannsóknir sem ég hef undir höndum, og reynsla Akureyrar og Hasselt, sýna þvert á móti að með því að fella niður fargjöld í almenningssamgöngur er hægt að auka fjölda farþega gífurlega.   Nýting strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu er afar slæm og mikilvægt er að auka notkun þeirra til að létta á umferð á háannatímum.   Það gilda ekki önnur lögmál í Reykjavík en í Hasselt og á Akureyri.  Með því að fella fargjöld niður er hægt að auka fjölda þeirra sem kjósa almenningssamgöngur umfram einkabíla og þannig spara sér milljarðaframkvæmdir í umferðarslaufur hér og þar um borgina.  Spurningin er hvort við viljum þróast í átt til borga eins og Houston í Texas eða hvort við höfum t.d. meiri áhuga á að feta í fótspor borga eins og Hasselt.

Houston Texas:

RITA_TXHOU115

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

050923_ex_trafficJam_tn

 

 

 

 

 

 

DOWNTOWN-HOUSTON

 

 

 

 

 

 

 

 


46spur5


Eru konur að flytja sig frá Samfylkingunni til VG?

"Frjáls verslun birti nýja könnun í kvöld sem gefur nokkuð aðra mynd en umtöluð Fréttablaðskönnun. En hún virðist staðfesta slæma stöðu Samfylkingarinnar og að fylgi flokksins meðal kvenna hefur hrunið. Niðurstöður eru birtar á heimur.is en þar kemur m.a. fram".

Einar er þarna að vitna í eftirfarandi skrif á vefsíðunni Heimur.is:

"Greinilegt er að Frjálslyndi flokkurinn og Sjálfstæðisflokkur hafa meira fylgi meðal karla en kvenna en þessu er öfugt varið með Framsóknarflokkinn og Vinstri græna. Hjá Samfylkingunni er fylgið eins meðal karla og kvenna. Rótin að verra gegni Samfylkingar virðist vera að flokkurinn hafi tapað fylgi meðal kvenna."

Þetta er ansi athygliverð þróun ef rétt reynist.  Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi þar sem kona er formaður og þar sem kona er væntanlegt forsætisráðherraefni.  Flokkurinn er einnig með nokkuð gott orðspor þegar kemur að jafnréttismálum.  Það virðist þó ekki duga samkvæmt þessu.

Það virðist vera sem VG sé að ná að stimpla sig inn sem femíniskur flokkur nr. 1 í íslenskum stjórnmálum og þar með að laða að sér fylgi kvenna.  Þetta ásamt vel heppnuðum og trúverðugum málflutningi í umhverfismálum virðist nú vera þess valdandi að VG er að bíta fylgið af Samfylkingunni svo um munar.

Spennandi verður að sjá hver þróunin verður fram að kosningum.  Hvort Samfylkingin nái sér á flug á ný eða hvort VG haldi áfram að styrkjast og endi sem næst stærsti flokkur landsins eftir kosningar.  Það er alla vegana ljóst að Samfylkingin þarf að taka á honum stóra sínum ef flokkurinn ætlar sér að halda styrki sínum frá síðustu kosningum.
 
Gaman væri að fá kenningar um ástæður þessa meinta flótta kvenna frá SF yfir til VG hér í athugasemdarkerfinu. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband