Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kárahnjúkavirkjunin séð með augum bresks fréttamanns

karahnjukarÉg hvet alla til þess að lesa grein Richard Hollingham á vefsíðu BBC um framkvæmdirnar við Kárahnjúka.  Það er alltaf forvitnilegt að lesa slíka umfjöllun frá utanaðkomandi aðila og í þessari grein fjallar Hollingham um málið frá a.m.k. tveimur sjónarhornum en ekki einu eins og oft vill verða. 

Greinina má nálgast hér:

http://news.bbc.co.uk/2/hi/programmes/crossing_continents/6453703.stm#map

Hollingham lýkur greininni með eftirfarandi orðum:

"So which is worth more - green energy or unproductive wilderness?
With three new projects in the pipeline, Icelandic voters will need to decide whether embracing heavy industry is worth the sacrifice. "

Það má jafnvel segja að Hollingham sé í greininni að taka afstöðu með virkjuarframkvæmdunum þó svo hann skýri sjónarmið beggja hópa vel. Það er þó erfitt að ráða í það hver afstaða hans er.  En eins og hann segir þá verður framhaldið í höndum íslenskra kjósenda í vor.....


mbl.is Fjallað um umhverfis- og stóriðjumál Íslands í BBC og Independent
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn herjar á VG

VVBIHÞað er greinilegt að Framsóknarflokkurinn er farinn að líta á VG sem höfuðandstæðing sinn í komandi kosningum.  Forystumenn Framsóknar beina spjótum nú í auknu mæli að VG og tveir ofurframsóknarmenn dæla út pistlum hér á blog.is, VG til höfuðs.  Tveir bloggarar fara þarna fremstir í flokki og það eru þeir Pétur Gunnarsson og Björn Ingi Hrafnsson oddviti flokksins í borginni.   Hér er t.d. gott dæmi um eitt af fjölmörgum skotum Péturs á VG: http://hux.blog.is/blog/hux/entry/150782/

Björn Ingi Hrafnsson lætur einnig dæluna ganga og besta dæmið um þessa taktík Framsóknar er nýjasti pistill oddvitans í Reykjavík sem má nálgast hér:

http://bingi.blog.is/blog/bingi/entry/152928/ 

Hér er í raun um að ræða samantekt á gagnrýni á VG undanfarna daga og Björn vitnar m.a. í Moggann máli sínu til stuðnings.  Það er greinilegt að Framsókn telur sig helst geta sótt fylgi til VG í komandi kosningum.  Báðir höfða flokkarnir til landsbyggðarfólks og þar sjá Framsóknarmenn sína helsta von í komandi kosningum....


Er vændi orðið löglegt á Íslandi?

prostituteSumir vilja meina að með nýjum lögum sem samþykkt voru á Alþingi fyrir nokkrum dögum sé vændi orðið löglegt á Íslandi.  Á forsíðu Blaðsins er eftirfarandi haft eftir Atla Gíslasyni, lögmanni og þingismanni VG:

"Vændi hefur verið lögleitt á Íslandi og ekkert er því til fyrirstöðu að hér rísi vændishverfi að erlendri fyrirmynd...... Ég tel að það sé nánast búið að lögleiða vændi  á Íslandi.  Það er reyndar bannað að vera melludólgur en það er ekki refsivert að stunda vændi og þetta opnar leiðina fyrir mansal sem þrífst á vændi.... Það stendur í lögunum að auglýsingar á vændi séu bannaðar.  Maður getur hins vegar séð rauð ljós í glugga og tengla inn á upplýsingar á netinu.  Opinberar auglýsingar eru túlkaðar þröngt.  Rauð ljós og kona sem afklæðir sig í glugga er ekki opinber auglýsing..."

Já, samkvæmt túlkun Atla er með þessum nýju lögum verið að leyfa vændi.  Það er þá orðið löglegt að manneskja taki gjald fyrir kynmök svo lengi sem enginn hefur milligöngu um þau viðskipti og svo lengi sem starfsemin er ekki auglýst.  Má einstaklingur þá, samkvæmt þessu, ganga um miðbæinn um helgar og bjóða kynlíf fyrir greiðslu svo lengi sem hann gengur ekki um með auglýsingaskilti?

Nú er spurning hvort að vændi aukist hér á landi í kjölfar þessa laga eða hvort það komi alla vegana meira upp á yfirborðið.....


Eru Margrét og Ómar að brenna inni á tíma?

helgi10Alþingiskosningar fara fram þann 12. maí næstkomandi.  Fyrirhugað framboð Margrétar Sverrisdóttur og Ómars Ragnarssonar er ekki enn komið fram og eru þó ekki nema rúmar sjö vikur til kosninga.  Það er erfitt að finna rétta tímasetningu á formlega tilkynningu um framboð nýs stjórnmálaafls og oft getur verið ágætt að láta bíða eftir sér og skapa þannig eftirvæntingu og stemningu fyrir framboðinu.  Ólafur Ragnar Grímsson gerði þetta með eftirminnilegum hætti þegar hann var kosinn forseti en þá tilkynnti hann framboð sitt síðastur allra.  Fram að hinni formlegu tilkynningu hafði myndast mikið umtal og mikil stemning fyrir framboðinu og blaðamannafundurinn sem haldinn var vegna framboðsins var skipulagður fullkomnlega hvað varðar tímasetningu og umgjörð.  Fer sú kosningabaráttu sennilega í bækur fræðinga um hvernig gott er að heyja kosningabaráttu.

Það er spurning hvenær hinn fullkomni tími fyrir Ómar og Margréti er til að koma fram með sitt framboð.  Það tekur tíma að kynna frambjóðendur og framboðið og spurning hvort að sjö vikur dugi til þess.  Einhvern vegin er ég farinn að fá það að tilfinninguna að þau séu að verða of sein með framboðið.  Tíminn sem líður frá þessari viku verður bara vandræðalegur að mínu mati.  Ef þetta dregst mikið lengur er þetta farið að lykta af vandræðagangi og fólk fer að gruna að Ómar og Margrét séu í vandræðum með að fá fólk á lista og eins að koma saman stefnu fyrirhugaðs flokks.

Ég segi því að ef framboðið verður ekki kynnt formlega í þessari viku verði á brattan að sækja fyrir framboðið.   Ómar og Margrét eru því að brenna inni á tíma að mínu mati en gaman væri að heyra ykkar skoðun á því.  Af því tilefni hef ég sett upp skoðanakönnun hér til vinstri á síðunni um þetta mál.  Spurningin er:  Er orðið of seint fyrir Ómar og Margréti að koma fram með framboðið sitt?

Hvað haldið þið?

 

Ljósm. SGÞ. Sjá: http://www.glettingur.is/dimmugljufur.htm


Bréf til þjóðarinnar vegna Geirs Þórissonar fanga í Virginíu

territorial-prison-cell-blockViðtal Sigmars Guðmundssonar við Geir Þórisson fanga í Virginíu hreyfði við mörgum.  Ein af þeim sem varð fyrir áhrifum af viðtalinu er Kristín Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur á Svalbarðsströnd.  Hún sendi mér bréf í dag og hvatti mig til að birta það hér á síðunni.  Ég er á sama máli og Kristín um það að aðstæður Geirs séu ákaflega ómannúðlegar og að eitt af því sem hægt væri að gera til að hjálpa honum væri að skrifa honum bréf.   Hér er bréfið hennar Kristínar til íslensku þjóðarinnar sem ég hvet alla til að lesa:

 

"Kæri viðtakandi.

 

Viðtal við Geir Þórisson fanga í Bandaríkjunum í Kastljósi þann 5. mars síðastliðinn og umfjöllun um mál hans í Kastljósi þann 6. og 7. mars hreyfði við mér enda alveg ljóst að þær aðstæður og sú félagslega einangrun sem hann hefur búið við í mörg ár og sér ekki fyrir endann á á næstunni eru vægast sagt ómannúðlegar og niðurbrjótandi. Hér er um mannréttindabrot að ræða. Það kom skýrt fram í viðtalinu hversu illa félagslega einangrunin fer í hann og það varð til þess að ég hafði samband við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi og fékk heimilisfang Geirs í fangelsinu. Til hvers? Jú, ég ætla að senda honum línu með einhverjum uppörvandi orðum svo hann finni að til hans er hugsað. Og nú hvet ég þig til að gera slíkt hið sama... Bréf eða póstkort getur haft margföld áhrif á mann sem býr við þessa einangrun.

 

Geir var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir alvarlega líkamsárás. Hann hefur nú þegar setið inni í 9 ár og er stöðugt hræddur um líf sitt. Vegna fjárskorts getur hann ekki stundað nám og möguleikar hans til samskipta við fjölskyldu og vini eru verulega takmarkaðir. Hér er svo sannarlega ekki um neina “betrunarvist” að ræða.

Á bloggsíðu Sigmars Guðmundssonar http://sigmarg.blog.is má sjá ýmis viðbrögð fólks við viðtali Sigmars við Geir og þykir mér miður að sjá þá djúpstæðu dómhörku sem mér finnst koma þar fram hjá sumum en það hvetur mig líka jafnframt til að láta hendur standa fram úr ermum!

Ég hvet þig til að staldra við og taka frá smá stund til að kynna þér mál Geirs.

Ég hvet þig jafnframt til að senda þennan tölvupóst áfram til þeirra sem þú telur að láti sig mannréttindi varða.

 

Ég vek athygli á því að aðeins er hægt að senda Geir þunn umslög (ekki margra síðna bréf) og ekki er hægt að senda honum pakka.

 

Heimilsfang Geirs:

 

Geir Thorisson 263907
Grcc HU 5-425
901 Corrections.way
Jarrett  VA 23870  

U.S.A.  

 

Aðstandendur Geirs hafa stofnað bankareikning í hans nafni og ég læt númer hans fylgja hér með fyrir þá sem vilja sýna stuðning með framlagi:

 

Landsbankinn í Grafarvogi, 0114-05-061708, kennitala 080469-3819, Geir Þórisson.

 

Með ósk um gæfuríka framtíð þér og þínum til handa,

kær kveðja,

 

Kristín Sólveig Bjarnadóttir

hjúkrunarfræðingur

Svalbarðsströnd

kristinsol@est.is"

 


VG kom í veg fyrir að áfengisfrumvarp færi í atkvæðagreiðslu

ommiMörg undanfarin þing hefur frumvarp um það að afnema ríkiseinokun á sölu áfengis verið lagt fram á Alþingi.  Í öll skiptin hefur einhver óútskýranleg ákvörðunarfælni gripið þingið og málið verið svæft í nefnd eða þá að með einhverjum öðrum hætti hefur verið komið í veg fyrir að Alþingi geti greitt atkvæði um málið.  Í frétt á visir.is í gær sagði:
 
"Fréttablaðið, 19. mar. 2007 03:30

Hársbreidd frá því að ná í gegn Litlu munaði að frumvarp, sem hefði heimilað sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum, næði í gegn á Alþingi í fyrradag. Allsherjarnefnd Alþingis hafði samþykkt málið en það var tekið af dagskrá fyrir lokaafgreiðslu af ótta við málþóf.

Samkvæmt frumvarpinu skyldi einokun ÁTVR verða afnumin af sölu áfengis með vínandastyrk 22 prósent eða minna. Að því er kemur fram í fréttum Stöðvar 2 lagðist Vinstrihreyfingin – grænt framboð gegn málinu og gaf Ögmundur Jónasson til kynna á fundi þingflokksformanna að það myndi kosta geysimikla umræðu ef reynt yrði að ná því í gegn. Málið var því tekið af dagskrá."

 VG hefur væntanlega fundist mjög óþægilegt að greiða atkvæði í þessu máli enda myndi það afhjúpa endanlega hversu mikill forsjárhyggjuflokkur þar er á ferð.  VG hefur þannig komið í veg fyrir að löglega kosið Alþingi fái að taka afstöðu til þess hvort afnema beri ríkiseinokun á áfengi eða ekki.  

Enn og aftur kemur því í ljós að Alþingi Íslendinga vill ekki taka sjálft á þessu máli.  Það er því kominn tími á það að setja þetta mál í hendur þjóðarinnar og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu.  Fordæmin eru fyrir hendi enda hafa tvær af fimm þjóðaratkvæðagreiðslum sem haldnar hafa verið hér á landi snúist um brennivín.....

 


Hvað varð um áfengisfrumvarpið?

Wine20glassesNú hef ég ekki fylgst vel með fréttum um helgina en getur einhver sagt mér hvað varð um áfengisfruvarpið sem afgreitt var úr Allsherjarnefnd í vikunni?  Fór fram atkvæðagreiðsla? Var því kannski sópað undir teppið enn eina ferðina?   Af hverju má Alþingi ekki greiða atkvæði um þetta mál?

Ef núverandi meirihluti er haldin slíkri gífurlegu ákvörðunarfælni, að hann getur ekki tekið afstöðu til þessa eina máls, þá vinsamlegast setjið þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu hið snarasta.  Þá getum við hin tekið þessa ákvörðun fyrir ykkur framkvæmdastjórnmálafólkið....


Framsókn í kreppu

flokkafylgi

Framskóknarfólk getur ekki verið mjög ánægt með nýjustu könnun Capacent.  Flokkurinn er nú að missa fylgi frá fyrri könnunum og er nú kominn niður í 6,9%.  Það er því augljóst að stóra þjóðareignarmálið hefur ekki hjálpað flokknum við að rétta úr kútnum eins og flokksmenn höfðu vonast til heldur náðu Sjálfstæðismenn að snúa snilldarlega á þá og bæta þeir nú við sig fylgi frá fyrri könnunum.

Önnur tíðindi í þessari könnun nú eru þau að fylgi við VG virðist vera að minnka og spurning hvort að þau í VG hafi nú séð toppinn og séu nú á niðurleið.  Persónulega hef ég trú á því að fylgi VG eigi eftir að minnka jafnt og þétt fram að kosningum og flokkurinn fái á endanum um 18% sem verður mjög gott þar sem þau væru þá að tvöfalda fylgi sitt frá síðustu kosningum. Samfylkingin stendur í stað í þessari könnun, munurinn frá síðustu könnun er ekki tölfræðilega marktækur.

Ég ætla að leyfa mér að koma með spá um úrslit kosningana í vor og er hún eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkur 34,5%
Samfylking  28%
VG 18%
Framsókn 12,5%
Frjálslyndir 7%

Þessi spá miðast við að engin ný framboð komi fram. Ómögulegt er að spá fyrir um áhrif þeirra ef þau þá koma fram.  Mun endurskoða spánna þegar Ómar, Margrét, adlraðir og öryrkjar eru búin að ákveða hvort um framboð verði eða ekki.....


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst mikið frá síðustu könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

57,9% landsmanna mjög eða frekar hlynnt aðildarviðræðum við ESB

European_Union.svg

Samkvæmt könnun Capacent Gallup eru 57,9% landsmanna mjög eða frekar hlynnt aðildarviðræðum Íslands við ESB.  Það virðist því vera sem  Sjálfstæðisflokkur, VG og Frjálslyndir séu  á öndvörðu meiði við meirihluta landsmanna en þessir flokkar hafa tekið  harða afstöðu gegn aðildarviðræðum.  Það væri mjög lærdómsríkt ferli fyrir þjóðina að fara í gegnum slíkar aðildarviðræður og þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn í kjölfarið.   Það hefur ekki farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla hér á landi síðan Íslendingar ákváðu að gerast lýðveldi árið 1944.  Það virðist hreinlega sem stjórnmálafólk á Íslandi treysti þjóðinni ekki til þess að taka afstöðu til einstakra mála.   

Ef Ísland næði hagstæðum samningi við ESB um inngöngu kæmi aldrei neitt annað til greina en að þjóðin myndi hafa síðasta orðið um inngöngu.   Ef þjóðin fellir slíkan samning verður ekki farið inn í sambandið.  Ég treysti þjóðinni til að taka ákvörðun um þetta mál og hvet því til þess að fari verði í aðildarviðræður strax að loknum kosningum og haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla ef nægjanlega hagstæður samningur næst. 


mbl.is 57,9% hlynnt aðildarviðræðum við Evrópusambandið samkvæmt könnun SI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geldur Framsókn afhroð í næstu Gallupkönnun?

Geir_Jonmini-meAndrés Magnússon hefur sambönd inn á Mogga enda starfaði hann þar sem blaðamaður lengi.  Hann virðist hafa nýtt sér þessi sambönd og fengið að vita hver útkoma næstu Gallupkönnunar sé.  Á bloggi sínu segir Andrés í dag:

"Það er að koma ný könnun frá Gallup, sem gerð er fyrir Morgunblaðið og RÚV. Farið er að kvisast út hvernig hún er í laginu, en stóru tíðindin munu vera þau að Sjálfstæðisflokkurinn mun hafa bætt talsvert við sig, en Framsóknarflokkurinn tapað verulega. Hafði framsóknarmaddaman þó ekki úr háum söðli að detta. Mér skilist að aðrir flokkar væru á svipuðu róli og verið hefur."

Andrés heldur áfram og fjallar um hugsanlegar orsakir þessa:

"Samkvæmt því er óhætt að fullyrða að þetta vanhugsaða upphlaup framsóknarmanna, þar sem þeir ætluðu að nota stjórnarskrána sem hverja aðra dulu, hefur ekki orðið þeim til álitsauka hjá nokkrum manni. Sá skaði kann að reynast langvinnur, því þessi dæmalausa framganga snýst um grunneðli flokksins og forystu hans. Hingað til hafa framsóknarmenn jafnan lagt áherslu á öfgaleysi, hófsemi og ábyrgð. Hvert verður kosningaslagorðið núna? Rugludallurinn í hafinu? "

Sjá hér 

Já, það er fast skotið á Framsókn úr röðum Sjálfstæðismanna þessa dagana.  Margir vilja halda því fram að það hafi aldrei staðið til af hálfu Sjálfstæðisflokksins að koma þessu þjóðareignarákvæði í gegn fyrir þinglok og því hafi verið sett upp plott af þeirra hálfu um að leiða Framsókn í ógöngur með málið.  Það virðist hafa tekist fullkomnlega og það hlakkar í mörgum Sjálfstæðismönnunum í dag yfir óförum Framsóknar enda virðist flokkurinn vera að hverfa eftir 12 ára ríkisstjórnarsetu með Sjálfstæðisflokki á meðan Sjálfstæðisflokkurinn fitnar eins og púkinn á fjósbitanum.

Það kom fram skemmtileg kenning í kommentakerfinu hér á síðunni í dag en hún hljóðar eitthvað á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn væri að hefna sín á Framsókn vegna þjóðareignarupphlaupsins með því að afgreiða léttvínsfrumvarpið úr allsherjarnefnd í dag.  Það hafi sem sagt alltaf verið Framsókn sem hafi farið fram á að svæfa það mál í nefnd í 12 ár en nú neyddust Frammarar til að taka afstöðu til þess máls sem þeir hafa samkvæmt þessri kenningu engan áhuga á..... 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband