Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jarðgöng til Eyja

vestmannaeyjarNá á að fá óháða aðila til að meta kostnað við lagningu jarðgangna til Eyja.  Ég hélt að það hafi verið farið yfir þetta mál og búið að komast að þeirri niðurstöðu að þetta væri allt of dýr framkvæmd.  Nú vil ég taka það fram að ég hef fulla samúð og skilning á því að samgöngumál Vestmannaeyja hafa ekki verið nægjanlega öflugar í gegnum tíðina.  Það þarf að gera bragarbót á þeim, t.d. mætti hugsa sér að ríkið niðurgreiddi ferðir með Herjólfi mun meira og eins að flugleiðin milli Eyja og lands væri ríkisstyrkt meira.

En það að setja einhverjar gríðarlega háar fjárhæðir í gerð ganga út í Eyjar sé ég ekki fyrir mér sem raunhæfan kost, þ.e. ekki í nánustu framtíð.  Framfarir í jarðgangagerð og gerð flotganga hafa reyndar verið miklar á undanförnum árum og það er aldrei að vita hvort að þetta gæti orðið skárri kostur einhverntíman í framtíðinni.   En í dag held ég að peningunum sé miklu betur varið í aðrar samgöngubætur á landinu.  Við þurfum að forgangsraða skynsamlega í þessum málaflokki.


mbl.is Meta á kostnað við lagningu jarðganga milli lands og Eyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Libby gæti átt yfir höfði sér 30 ára dóm!

Miller20CoverÞað verður forvitnilegt að fylgjast með framhaldi réttarhaldanna yfir Lewis Libby vegna meints leka á upplýsingum um njósnara sem vann fyrir Bandaríkjastjórn.  Stóra spurningin er hvort að í framhaldi réttarhaldanna muni koma fram nýjar upplýsinar sem tengja æðstu ráðamenn, svo sem varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheney, við þetta mál.  Eins verður forvintilegt að sjá hvort Bush sjálfur hafi vitað af þessum leka.

Það er með ólíkindum hvað refsingar eru háar í Bandaríkjunum.  Fram kemur í fréttaskeyti Reuters að Libby gæti átt yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsinsdóm fyrir meinsæri.  Við sem búum á Norðurlöndum skiljum ekki alveg svona dóma.   Hér fá menn í mesta lagi 16 ár fyrir morð en í Bandaríkjunum eiga menn á hættu að fá 30 ára dóm fyrir að ljúga fyrir rétti.

Það eru mjög skiptar skoðanir um refsiþyngd og gildi þess að kveða upp þunga dóma.   Persónulega er ég á þeirri skoðun að Bandaríkjamenn séu komnir alltof langt með þyngd dóma í öllum málaflokkum.   30 ár fyrir meinsæri er út í hött að mínu mati..........
mbl.is Bush ber enn fullt traust til Cheneys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábærir vextir!!!

Góður vinur minn sendi mér tölvupóst í dag og með þeim tölvupósti fylgdi eftirfarandi auglýsing:

 frabaerirvextir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Með tölvupóstinum frá vininum fylgdi eftirfarandi athugasemd:

"Hvar annars staðar en á Íslandi er hægt að auglýsa svona og halda að það verði ekki hlegið að því?"

Já, þetta er staðan í dag.  Banki auglýsir 18,9% vexti sem "frábæra vexti".  Gaman væri t.d. að sjá svipinn á Japana þegar hann sæi slíka auglýsingu........


Decode tapaði 85,5 milljónum dala á síðasta ári

islenskerfdagreiningEnn tapar Decode.  Tapið á síðasta ári nam um 85,5 milljónum dala en árið 2005 tapaði félagið 62,8 milljónum dala.  Það þarf virkilega þolinmóða fjárfesta til að horfa upp á þessar tölur þegjandi og hljóðalaust.  Þetta minnir mig á það þegar ég var í pottunum í Vesturbæjarlauginni hér fyrir nokkrum árum.   Þá barst talið að Decode og hvað margir hefðu farið flatt á því að hafa keypt í félaginu á gráa markaðnum þegar verðið var sem hæst.  Flugu nokkrar sögur um fólk sem hafði tekið sér lán og tapað nær öllu.  Einn tók til gamans dæmi um það að sá sem hefði keypt kókflöskur fyrir sama pening og einhver sem hefði keypt í Decode fyrir X árum síðan fengi meira fyrir að skila flöskunum þá stundina en sá sem hefði fjárfest í bréfum Decode.

Eftir allar þessar gamansögur heyrðist loksins í einum manninum í pottinum sem hafði þagað fram til þessa.  Honum fannst þessar sögur ekki eins sniðugar og hinum "pottormunum" þar sem hann hafði jú eytt drjúgum hluta sparifés síns í slík kaup.   Hann var skömmustulegur þegar hann sagði þetta en vandaði eigendum fyrirtækisins og bönkunum ekki kveðjurnar.

Margir fóru flatt á Decode-ævintýrinu í byrjun.  Það má segja að Kári Stefánsson sé Einar Ben okkar tíma.  Hann gæti jafnvel selt fólki Norðurljósin......


mbl.is Tap deCODE eykst milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskipathalli upp á 91 milljarð síðasta ársfjórðun 2006!

debt4Gengur þetta til lengdar?  Er þetta ekki svona eins og heimili sem eyðir bara og eyðir langt umfram tekjur?   Hvernig fer fyrir svoleiðis heimilum?  Lítur ríkisstjórnin á þetta sem vandamál sem kemur þeim eitthvað við eða er þetta bara gott mál?   Hver er hlutur stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar í þessum halla?   Hvaða áhrif hafa breytingarnar á Íbúðarlánasjóði haft á þessa þróun?

Er efnahagsstjórnin hér á landi í góðum höndum?


mbl.is Viðskiptahallinn nærri tvöfaldaðist á síðasta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tek hattinn ofan fyrir ríkisstjórninni!

vetniÉg vil hrósa ríkisstjórninni fyrir þetta skref sem hún er að stíga með því að samþykkja frumvarp sem ætlað er að hvetja til aukinnar notkunar á vistvænum ökutækjum.  Það er margt áhugavert að gerast hér á landi í þessum málum og það er mitt mat að við ættum að ganga enn lengra og ná forystu í heiminum í notkun vistvænna orkugjafa og þróun ökutækja til að nýta þá.  Ef við Íslendingar myndum t.d. koma okkur upp samgöngukerfi sem nýtir eingöngu vistvæna orkugjafa myndi það vekja heimsathygli.   Slíkt verður aldrei gert öðruvísi en í samstarfi við stórfyrirtæki í bílaiðnaðnum eins og gert hefur verið varðandi vetnisvagnana.  Það á að leggja þunga áherslu á að það verkefni haldi áfram og hér verði komið upp vistvænum almenningssamgöngum.

Ísland er þegar farið að vekja mikla athygli fyrir notkun vistvænna orkugjafa og sérstaða okkar er mikil í þeim efnum.  Hér nýtum við heitt vatn úr jörðinni til að hita upp húsin okkar og rafmagn fáum við úr vatnsaflsvirkjunum sem menga ekki en eru þó umdeildar í dag vegna áhrifa á náttúruperlur landsins.    Ég hitti nokkra Bandaríkjamenn á skemmtisiglingu um karabíska hafið í desember síðastliðnum.  Við sátum til borðs með tveimur fjölskyldum alla ferðina og fæstir á borðinu vissu eitthvað um Ísland.  Þau vissu þó flest hvað höfuðborgin héti en heimilisfaðirinn í annari fjölskyldunni vissi mikið um það hversu framarlega við værum í notkun vistvænna orkugjafa.  Spurði hann mig um vetnisverkefnið og sagði öllum á borðinu að Íslendingar væru svo framsýnir að þar væru allir strætóarnir knúðir áfram af vetni.  Mér þótti miður að þurfa að leiðrétta hann í þessu og segja honum og öðrum á borðinu að þetta væri ekki alveg rétt, aðeins hafi verið um 2-3 vagna sem keyrðir voru tímabundið í tilraunaskyni.  En þetta vissi karlinn og hafði mikinn áhuga á að koma hingað til lands til þess eins að skoða hvernig við færum að þessu t.d. með jarðvarmann.

Það er engin spurning að þarna liggja mikil sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga sem við eigum óhikað að nýta okkur.....


mbl.is Ríkisstjórnin vill stuðla að aukinni notkun vistvænna bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skammast sín fyrir að vera Íslendingur!

guard_hostage_in_brazil_full_ap_photo_1Það er ekki oft sem ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur.  Það gerist reyndar mjög sjaldan.  Slíkt gerðist þó fyrr í vetur þegar ég sá niðurstöður úr netkönnun visis.is.  Könnunin var gerð í framhaldi af viðtali við ungan dreng sem tekinn hafði fyrir dópsmygl í Brasilíu og sat í fangelsi þar í landi.  Drengurinn lýsti aðstæðum sínum í viðtali við fjölmiðil hér á landi og er óhætt að segja að þær voru ekki glæsilegar.  Hann gat ekki sofið af hræðslu við að vera drepinn, var í klefa með fjölda annara fanga sem voru stöðugt að ógna honum og sagðist ekkert vita hvenær mál hans yrði tekið fyrir dómi.  Mannréttindi og aðstæður fanga í Brasilíu eru ekki í góðu lagi og hef ég fyrir því fleiri heimildir en orð þessa drengs eins og ég kem síðar að í þessum pistli.

En spurningin á visi.is var sem sagt eitthvað á þá leið hvort að fólk vildi að íslensk stjórnvöld myndu gera eitthvað til að fá hann framseldan úr þessu "kerfi" þeirra Brasilíumanna.  Um 80% svöruðu því neitandi.  Með þessu svari lít ég svo á að fólk styðji það að fangar í fangelsum hafi engin mannréttindi, hið besta mál sé að þeir eigi á hættu að vera drepnir innan múra fangelsins og að hið besta mál sé að það taki mörg ár að fá að fara fyrir dómara með mál sitt.  Þetta styðja þessi 80%.

Drengur þessi er líklega dæmigert burðardýr.  Hann er sendur í fjarlægt land til að ná í efni og átti líklega koma þeim hingað til lands.   Líklega hefur hann sjálfur verið í neyslu og ekki er ólíklegt að hann hafi gert þetta vegna fíkniefnaskuldar og hótana út af þeim.  Við vitum ekki mikið um aðdraganda þess að hann var fangelsaður og fróðlegt væri að fá viðtal við hann um það allt saman.

Ég er sannfærður um að 80% þeirra sem tóku þátt í þessari netkönnun hefðu ekki svarað spurningunni svona ef þetta hefði verið frændi þeirra, sonur eða vinur.   Þá hefði málið sennilega horft eitthvað öðruvísi við og fólk þrýst á stjórnvöld að gera eitthvað í málinu.  Drengur þessi er enn í fangelsi í Brasilíu og líklegast öllum gleymdur.  Þessi 80% hugsa þá sennilega:  Gott á hann! Hann getur sjálfum sér um kennt.....

Á þeim tíma sem ég sá niðurstöður þessarar könnunar var ég búsettur í Miami í Bandaríkjunum.  Ég umgekkst þá mikið af fólki frá Suður-Ameríku (Brasilíu, Kólumbíu, Venezúela, Euqador, Argentínu og fleiri ríkjum) og flestir þeirra voru lögfræðingar.  Í samtölum við þau spurði ég mikið um stjórnarfar í ríkjunum og eins um réttarfarið.  Svörin voru flest á þá leið að dómskerfið þar væri algjör brandari og að aðstæður í fangelsum væru hrikalegar.  Nefndu þau sem dæmi að ekki tæki því að fara með forræðismál fyrir dómstóla þar sem viðkomandi barn sem deilt væri um væri sennilega komið vel á þrítugsaldurinn þegar loks kæmi niðurstaða.  Þau fullyrtu einnig að hægt væri að múta lögrelgunni og fangelsisyfirvöldum og sloppið þannig við refsingar en drengurinn í Brasilíu hélt einmitt því fram að hann gæti sloppið ef hann hefði efni á því.  Engum þessara lögfræðinga fannst spennandi að starfa í svona umhverfi.  Og flestir þeirra voru að reyna að fá dvalar- eða atvinnuleyfi í fyrirheitna landinu til að komast í burtu frá þessu ástandi.

Óska Íslendingar virkilega þessum dreng allt hið versta?  Á hann allt vont skilið út af því að hann fór út af beinu brautinni?   Hvar er samkenndin?

Ég óska eftir því að íslensk stjórnvöld og íslenskur almenningur beiti sér fyrir því að drengur þessi fái að afplána hér heima.  Hann á að fá njóta mannréttinda og réttláts réttarkerfis.


Bílaeign landsmanna

a-funny-animal-carVið Íslendingar erum nú að ná góðri forystu í bílaeign per íbúa og í því að nota almenningssamgöngur lítið sem ekkert.  Þessari þróun þarf að snúa, nema við viljum að borgin verði öll sundurskorin í hraðbrautum og umferðarslaufum.  Ég hef bent á eina augljósa leið í þessum málum sem skilað hefur miklum árangri í Hasselt í Belgíu, í Reykjanesbæ og á Akureyri.   Þessi leið felst í því að leggja niður gjaldtöku í almenningssamgöngur.  Í Hasselt hefur farþegafjöldi í almenningssamgöngum áttfaldast eftir að gjaldið var felt niður og um 60% aukning var á Akureyri til að byrja með (hef ekki nýjustu tölur) og aukningin var einnig mikil í Reykjanesbæ.

Í dag ganga strætisvagnarnir hálf tómir um götur borgarinnar og felst mikil sóun í því að þeir séu ekki nýttir sem skyldi.  Ég skora því á sveitarfélögin sem standa að Strætó Bs. að fella niður gjaldtöku í strætó.  Leyfi mér að spá því að farþegafjöldinn muni a.m.k. tvöfaldast á innan við 5 árum í kjölfarið.... 


mbl.is „Sláandi“ framtíðarsýn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvífarar mánaðarins

Tvífarar mánaðarins eru Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans og Jón Sigurðsson fornmaður Framsóknarflokksins:

Jon_Sigurdsson1manouchehrMottaki

 

 

 

 

 

 

 

 

Báðir þessir menn standa frammi fyrir miklum vandamálum. Jón glímir við fylgishrun flokks síns á kosningaári og Mottaki glímir við yfirvofandi árás stærsta hernaðarveldis heims.  Asskoti líkir alveg hreint þó Nonni sé vissulega með voldugara skegg og töluvert brúnaþyngri.....


mbl.is Auknar líkur á að Íranar taki þátt í Íraksráðstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útspil stjórnarandstöðunnar

ThorskurÞetta útspil stjórnarandstöðunanr er ótrúlega eitrað verður að segjast.  Þarna er hún að nýta sér þá bresti sem komnir eru í ríkisstjórnarsamstarfið og í raun verið að slá fleig á milli stjórnarflokkanna.   Einnig er þarna sett mikil pressa á Framsóknarmenn að standa við stóru orðin í þessu máli.  Ef Framsóknarmönnum finnst þetta virkilega mikilvægt mál þá fara þeir auðvitað í samstarf við stjórnarandstöðuna um að koma þessu ákvæði í stjórnarskránna fyrir þinglok. Ef ekki, þá er orðið augljóst að þetta var bara dæmigert kosningatrikk hjá Frömmurum....


mbl.is Stjórnarandstaðan býðst til að styðja stjórnarskrárbreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband