Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Og þetta eru helstu bandamenn Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum!

bush_and_boyfriend_4Upphaflegu rök Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra (þ.á.m. íslensku ríkistjórnarinnar) fyrir innrásinni í Írak voru þau að Írakar væru að þróa stórhættuleg efnavopn sem ógna myndu heimsfriðnum.   Síðar kom í ljós að engin slík vopn voru til í Írak nema þá helst vopn frá þeim tíma sem Bandríkjamenn studdu Saddam Hussein með ráðum og dáðum í stríðinu við Íran. Þá sendu þeir honum m.a. efnavopn sem íslenska friðargæslan fann svo síðar eins og frægt varð.

Þegar kom í ljós að þessi rök um efnavopnaeign Íraka voru byggð á fölskum forsendum var hlaupið til og fundin ný ástæða fyrir innrásinni.  Sú ástæða fólst í því að Saddam væri einræðisherra og það væri skortur á lýðræði í landinu.   Þegar þessi rök eru skoðuð eru Bandaríkjamenn í hrópandi mótsögn við sjálfa sig.  Þeirra helsta bandalagsríki í Mið-Austurlöndum er Saudi-Arabía.  Þar er ekki lýðræði og þar eru mannréttindabrot nær daglegt brauð.   Ef hin raunverulega ástæða innrásarinnar í Írak hafi verið sú að þar þyrfti að koma á lýðræði þá hlýtur Saudi-Arabía að vera næst í röðinni.  Þar er ekki lýðræði og þar eru mannréttindi fótum troðin daglega. 

Þessi frétt um 19 ára gamla stúlku í Saudi-Arabíu sem á að hljóta 90 svipuhögg eftir að hafa verið misþyrmt af bróður sínum og nauðgað segir allt sem segja þarf.   Af hverju er þetta ríki eitt helsta bandalagsríki Bandaríkjanna þegar ástandið er svona?  Af hverju segja Bandaríkjamenn ekkert við þeim gífurlegu mannréttindabrotum, sérstaklega gegn konum, sem þarna líðast?   Ef þeim er svo um munað um að koma á lýðræði í þessum heimshluta, að þeir eru tilbúnir í að ráðast inn í ríki til að koma því á og fórna mörgum tugum þúsunda mannslífa fyrir það, af hverju minnast þeir þá ekki einu orði á ástand mannréttindamála í helsta bandalagríkinu á svæðinu?

Það er þessi hræsni sem fólkið á svæðinu skynjar.  Fólk sér í gegnum þennan blekkingarleik bandarískra stjórnvalda og friður mun ekki komast á í Mið-Austurlöndum fyrr en Bandaríkjamenn og bandalagsþjóðir þeirra breyta stefnunni í málefnum svæðisins.


mbl.is Dæmd til hýðingar fyrir að hitta sér óskyldan mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur þetta á óvart?

funny_cow_1Ég get skrifað undir nær allt í þessari könnun.  Mér finnst mjög mikilvægt að landbúnaður sé stundaður hér til framtíðar, mér finnst íslenskar landbúnaðarvörur í mjög mörgum tilfellum betri en erlendar og ég mun kaupa íslenskar landbúnaðarvörur í flestum tilfellum þó þær muni kosta meira en þær erlendu.   En koma þessar niðurstöður á óvart?   Ekki  komu þær mér á óvart.   Hver vill ekki að landbúnaður sé stundaður á Íslandi?  Mér þætti vænt um að heyra rök þessara 6% sem vilja ekki íslenskan landbúnað.  Örugglega magnaður þjóðfélagshópur þar á ferð.

Hvaða ályktanir eru hægt að draga af þessari könnun?   Jú, þetta segir okkur að staða íslensks landbúnaðar er afar sterk og ætti hann því að vera vel undirbúinn undir samkeppni við innfluttar landbúnaðarafurðir.   Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að markaðsvæða landbúnaðinn, lækka eða afnema tolla á innfluttan landbúnað og draga úr innflutningshömlum.  Skilaboðin eru skýr!


mbl.is Íslendingar telja íslenskar landbúnaðarvörur betri en erlendar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflokkurinn fékk jafnréttisverðlaun Framsóknarflokksins!

Jon_Sigurdsson1Ætli þetta sé einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu?  Þar eð að flokkur verðlauni sjálfan sig fyrir einhvern ákveðinn málaflokk.  Framsóknarflokkurinn veitti nefnilega í dag sjálfum sér jafnréttisverðlaun Framsóknarflokksins.  Hverjir ætli hafi verið í dómnefndinni?  Ég sé Jón Sigurðs, Björn Inga og Guðna alveg fyrir mér rökræða og velta vöngum um það hvern eigi að verlauna.  Svo hefur hugmyndin komið eins og elding úr heiðskíru lofti....jú auðvitað verðlaunum við sjálfa okkur.......

Af ruv.is:

Framsókn: Framsókn og Samtökin '78 verðlaunuð

Samtökin 78 fengu í dag bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins á landsþingi sem stendur yfir á Hótel Sögu í Reykjavík. Jafnréttisverðlaunin gengu til framsóknarmanna sjálfra, það er að segja til þingflokksins og tók Dagný Jónsdóttir, varaformaður þingflokksins, við þeim af formanni Framsóknar.

Jón Sigurðsson sagði samtökin hafa fylgt markmiðum sínum eftir á svo jákvæðan og uppbyggilegan hátt að eftir hafi verið tekið. Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Samtakanna ´78, lauk sérstaklega lofsorði á frammistöðu framsóknarmanna við að bæta stöðu samkynhneigðra og hún vísaði til nýlegra laga um réttindi samkynhneigðra og sagðist ekki í vafa um uppruna þeirra lagasetningar.

Jafnréttisverðlaun Framsóknarflokksins gengu til þingflokks þeirra fyrir jafnrétti kynjanna í stjórnmálum enda varla aðrir stjórnmálaflokkar betur að því komnir því skipting á framboðslistum Framsóknar er jöfn; jafnmargar konur og karlar leiða lista, ráðherrar flokksins eru þrír karlar og þrjár konur og í þingflokknum er staðan sex fimm.

Sjá frétt hér.


Kristnihátíðarsjóður - 500 milljónir á fimm árum

katolskur_dyrlingurÁ árunum 2001-2005 rann hálfur milljarður úr sjóðum landsmanna í svokallaðan Kristnihátíðarsjóð sem átti m.a. að efla fræðslu og rannsóknir á minningar- og trúararfi þjóðarinnar  og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn.   Orðrétt segir á heimasíðu sjóðsins:

"Sjóðurinn starfaði samkvæmt lögum nr. 12/2001um sjóðinn sem samþykkt voru á Alþingi 28. febrúar 2001. Sjóðurinn var stofnaður til að minnast þess að 1000 ár voru liðin frá því kristinn siður var lögtekinn á Íslandi. Hlutverk sjóðsins var tvíþætt: að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn; að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum. Starfstími sjóðsins var fimm ár.

Skipunartíma stjórnar Kristnihátíðarsjóðs og verkefnisstjóra sjóðsins lauk 31. desember 2005. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 12/2001, um Kristnihátíðarsjóð, skulu þeir sem fá fé úr Kristnihátíðarsjóði gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum sjóðstjórnar. Verði misbrestur á, eða önnur skilyrði stjórnar fyrir styrkveitingu eru ekki uppfyllt, er henni heimilt að stöðva greiðslur eða eftir atvikum fara fram á endurgreiðslu styrksins. Til að tryggja umsjón styrkveitinga eftir að skipunartíma stjórnar sjóðsins lauk ákvað forsætisráðherra að skipa nefnd til að fylgja eftir framvindu verkefna sem hlutu styrk úr Kristnihátíðarsjóði 1. desember 2005 og ráðstöfun fjár í samræmi við ákvæði 11. og 12. gr. reglugerðar um Kristnihátíðarsjóð og reglur stjórnar Kristnihátíðarsjóðs þar að lútandi."

Einn helsti ókostur þessa sjóðs (sem vel að merkja var stofnaður með lagasetningu sem var einhljóða samþykkt á Alþingi) var að mínu mati sá að það var niðurnjörvað að veita skyldu 100 milljónir á ári í þessi fimm ár án tillits til framboðs á góðum umsóknum um styrki úr sjóðnum.  Æskilegra hefði verið að mínu mati (ef þá á annað borð átti að stofna til þessa sjóðs) að láta það ráðast af gæðum umsókna hvert ár hversu mikið færi í styrkveitingar.  Sum ár hefði þannig verið hægt að veita 70 milljónir ef umsóknirnar hefðu verið það frábærar að það hefði verið þess virði en önnur ár kannski 30 milljónir þar sem ekki hefðu komi fram nógu góðar umsóknir.  Það fólst í þessum sjóð ákveðin nauðhyggja, út skyldu þessar árlegu 100 milljónir fara sama hvað það kostaði....

En nóg um það.   Það sem mig langar að vekja athygli á með þessum pistli er nauðsyn þess að ríkið fylgi þessum styrkveitingum eftir.  Hálfur milljarður eru miklir peningar og það skiptir mjög miklu máli að skattborgararnir fái að vita hvað þeir fengu fyrir peninginn.  Hér eru nokkur dæmi um verkefni sem fengu styrk:

2005:
Altarisdúkar í íslenskum kirkjum, Oddný E. Magnúsdóttir (Jenný Karlsdóttir), 1 millj. kr.
Íslensk miðaldaklaustur – margmiðlunardiskur, Steinunn Kristjánsdóttir (Stofnun Gunnars Gunnarssonar), 1 millj. kr.
Menningarsetrið að Útskálum, María Hauksdóttir (Menningarsetrið að Útskálum ehf.), 800 þús. kr.

2002:
Að rækta lífsgildi í lýðræðislegu þjóðfélagi. Uppeldissýn kennara, Sigrún Aðalbjarnardóttir, 1, 2 millj. kr.
Hvernig eru Evrópubúar? Fjölþjóða samanburðarrannsókn, Friðrik H. Jónsson (Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands), 1 millj. kr.

2003:
Útgáfa á ljóðum Jóns Arasonar biskups, Ásgeir Jónsson, 800 þús. kr
Réttlæti og ást. Til móts við nýja kynlífssiðfræði, Sólveig Anna Bóasdóttir (Rannsóknarstofa í Kvennafræðum), 1.6 millj. kr.
Að rækta lífsgildi í lýðræðislegu þjóðfélagi. Uppeldissýn kennara, Sigrún Aðalbjarnardóttir, 1 millj. kr.

2002:
Bannfæringar á Íslandi á síðmiðöldum, Lára Magnúsardóttir, 1.2 millj. kr.
Siðfræðivefur, Salvör Nordal (Siðfræðistofnun), 1.2 millj. kr.

2001:
Trúarmenning og siðfræði íslenskra bændakvenna á 19. öld, Inga Huld Hákonardóttir (Guðfræðistofnun Háskóla Íslands), 1.6 millj. kr.
Uppteiknað, sungið, sagt og téð, Þorsteinn Helgason (Seylan ehf), 1.6 millj. kr

Allart úthlutanir úr kristnihátíðarsjóð má nálgast með því að smella hér.

Ég vil taka það fram að þessi verkefni sem hér eru upp talin eru valin af handahófi úr þeim verkefnum sem fengu styrk úr Kristnihátíðarsjóði.  Þau eru á engan hátt betri eða síðri en önnur sem fengu styrk.  Ég vil hins vegar kalla eftir umræðu um er það hvernig ríkið fylgir svona styrkveitingum eftir.   Hvernig er því háttað?  Vitum við eitthvað um það hvernig þessum verkefnum var sinnt og hvað kom út úr þeim?  Vitum við t.d. miklu meira um trúarmenningu og siðferði íslenskra bændakvenna á 19. öld í dag en við gerðum árið 2001?

Ef svo er, getur þá einhver bent mér á hvar ég get séð afurðir þessara verkefna og útlistun á því hvernig þeim miðaði?

Ef einhver hefur svör við þessu þá vinsamlegast hafið samband.....


Viðskiptahalli, verðbólga og okurvextir

money_tree5Hvað væri sagt í dag ef vinstristjórn væri við völd?  Væri þá kannski talað um óstjórn í efnahagsmálum?  Gæti það verið?  Efnahagsástandið undanfarin misseri hafa einkennst af miklum viðskiptahalla, verðbólgu á bilinu 8-9%, okurvöxtum þar sem yfirdráttarlán bera 20-23% vexti (sem þýðir að slík lán tvöfaldast á 2-3 árum) og síðast en ekki síst gríðarlega skuldsettum heimilum (heimilin eru samkvæmt nýjustu tölum með um 72 milljarða í yfirdráttarlán sem þýðir um 14 milljarða í vaxtagreiðslur miðað við hina "frábæru" vexti sem nú eru við lýði).

Þrátt fyrir þetta ástand gagnrýna fjölmiðlar ríkisstjórnina ákaflega lítið fyrir óstjórn í efnahagsmálum.  Mjög takmörkuð umræða hefur farið fram um stjórn efnahagsmála undanfarin ár.  Ég vil minna á að ýmsir sérfræðingar höfðu marg ítrekað varað við þennsluáhrifum af t.d. Kárahnjúkaframkvæmdinni sem er stærsta ríkisframkvæmd Íslandssögunnar.  Kárahnjúkar, breytingar á íbúðarlánasjóði ásamt miklum ríkisútgjöldum í hin og þessi verkefni hafa skapað þá þennslu sem hér ríkir.  En hér er við stjórn svokölluð "hægristjórn" og þá útiloka menn sjálfkrafa það að rekja ástandið til efnahagsstjórnar hennar.  Er ekki kominn tími til þess að ræða efnahagsstjórnina undanfarin ár og þátt hennar í núverandi ástandi?
mbl.is Vöruskiptin óhagstæð um 6,9 milljarða í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er hinn skrúflulausi?

shadow-manÉg ætla að kafa aðeins dýpra í þetta mál varðandi nafnlausa bréfið sem skrifað var til málsaðila í Baugsmálinu og til fjölmiðla.   Fyrir þau ykkar sem ekki hafið séð þetta bréf þá er það birt í heild sinni á heimasíðu Steingríms Sævarrs: smellið hér til að sjá hið fræga bréf.  Ég vil byrja á því að segja að mér finnst í raun stórundarlegt hversu hörð viðbrögðin urðu við þessu bréfi og hvað fjölmiðlarnir fjölluðu mikið um það.  Það eru til fullt af svona nafnlausum og ruglingslegum kenningum á netinu, t.d. á málefnunum.com, sem aldrei er fjallað um.
 
Mig grunar líka að bæði dómstólar í landinu sem og fjölmiðlar fái fullt af svona nafnlausum bréfum inn á sitt borð sem þeir hreinlega henda í ruslafötuna .  En, nei (eða réttara sagt óekkí ;)).  Þetta bréf kom greinilega eitthvað við kauninn á aðilum málsins.  Af hverju ætli það hafi verið?  Er efnisinnihaldið svona viðkæmt eða grunar fólki kannski hver þarna er á ferð og verður því svona hvumsa?

Nokkrir aðilar hafa haft samband við mig síðan ég bloggaði um þetta mál í gær.  Fullt af skemmtilegum ábendingum og kenningum.  Ég ætla hér að púsla þessum kenningum saman og reyna að setja þetta upp í eina heildarmynd.   Fyrst ætla ég að byrja á því að velta fyrir mér þremur kenningum um bréfritarann eða bréfritarana:

1. Þarna gætu verið á ferðinni einhverjir sem eru hreinlega að grínast.  Gætu t.d. verið laganemar sem sett hafi upp þetta bréf í gríni og sent þessum aðilum.  Þeir hafi þá lagt sig fram við að skrifa bréfið í stíl eldri manna og notað lögfræðileg heiti og fágætt orðalag til að villa um fyrir fólki.  Ef þetta er raunin finnst mér þetta nokkuð gott grín í ljósi hinna öfgakenndu viðbragða sem bréfið hefur kallað fram.  Ég er þó ekki viss um að viðkomandi aðilum líði vel núna þar sem ekki er víst að þeir hafi ekki búist við að þetta myndi valda jafn miklu fjaðrafoki eins og raun ber vitni.

2. Bréfritari er ekkert að grínast.   Honum er háalvara og hann hefur með þessu viljað hafa áhrif á gang mála í Baugsmálinu.  Hann hefur sett sig í stellingar og lagt sig fram um að beita öðrum stíl en hann er vanur og notað orð sem eru sjaldgæf en hann hefur aldrei notað sjálfur.  Þetta hafi hann þá gert til að villa um fyrir þeim sem vilja komast að því hver hann er.  Ef þetta er tilfellið er nær vonlaust að finna út hver bréfritarinn er.  Allar vangaveltur um stíl o.sfrv eru þá tilgangslausar.

3. Bréfritari er ekkert að grínast.   Honum er háalvara og hann hefur með þessu viljað hafa áhrif á gang mála í Baugsmálinu. Hann hefur ekki haft vit á því að villa um fyrir fólki með að breyta stíl sínum og stíllinn sem fram kemur í bréfinu er hans eiginn og orð eins og "óekkí" og "skrúflulaust" eru honum töm bæði í rituðu máli og í orði.  Ef þetta er raunin ætti að vera nokkuð auðvelt að hafa uppi á þeim sem þetta skrifaði.

Ef kenning 1-2 er rétt er nær útilokað að finna þann sem bréfið ritaði (ekki nema viðkomandi kjafti frá sjálfur eða einhver hafi beinlínist vitað af því að hann væri að gera þetta).  Ef kenning 3 er hins vegar rétt ætti að vera nokkuð auðvelt að hafa uppi á þeim sem skrifaði bréfið.  Ef öll púslin eru sett saman og þau passa við stíl og tungutak einhvers þá ætti að vera ansi líklegt að um bréfritarann sé að ræða.

Ég ætla að ganga út frá því að kenning 3 sé rétt og viðkomandi hafi ekki haft vit á því að dylja slóð sína.  Ef við göngum út frá því þá eru púslin í púsluspilinu þessi:

1. Viðkomandi er sennilega Sjálfstæðismaður og hefur oft skrifað um eða rætt í góðra vina hópi um hversu fáránlegir dómarnir í Baugsmálinu hafa verið.

2. Viðkomandi er lögfróður maður, þarf ekki að vera lögfræðingur en notkun orða eins og "fyrirsvarsmenn" benda til þess að hann þekkir tungutak stéttarinnar.  Líklegast er hann því löglærður en gæti líka bara verið vel að sér í þeim fræðum eða umgengist fólk sem er löglært.

3. Viðkomandi er yfir fimmtugt í aldri.  Orðanotkunin í bréfinu bendir ekki til þess að um ungan mann eða konu sé að ræða (nema kenning 1 sé rétt).

4. Viðkomandi notar knappan stíl.  Setningar eru yfirleitt stuttar og hnitmiðaðar.

5.
Viðkomandi notar ekki íslenskar gæsalappir þegar hann notar þær til áhersluatriða.  Íslensku gæsalappirnar eru þannig að sú fyrri er höfð niðri en sú síðari fyrir ofan. Sumir leggja sig fram um að nota þær og liggur við fasisma hjá þeim hvað þetta varðar .  Þessi aðili vílar það hins vegar ekki fyrir sér að hafa báðar gæsalappirnar uppi eins og gert er á enskri "tungu". 

6. Viðkomandi notar mikið af upphrópurnarmerkjum til að leggja áherslu á mál sitt.  Þetta er sérstaklega áberandi í seinni hluta bréfsins og athygli vekur hversu oft hann kýs að ljúka málsgrein á upphrópunarmerki.  Hann t.d. lýkur bréfinu á einu slíku.

7.  Viðkomandi brýtur oft upp textann með því að koma með spurningar í miðri málsgrein.

8. Viðkomandi notar nokkur orð sem venjulegur almúgi er ekki tamt.  Helst hafa orðin "óekkí" með í-i og orðið "skrúflulaust" vakið athygli manna.   Önnur orð sem ættu að geta nýst í leitinni eru orð eins og "fyrirsvarsmenn" (mjög mikið notað af lögfræðimenntuðu fólki) og svo hafa einhverjir bent á að bréfaskrifari skrifar á einum stað "inní"  en réttar væri að skrifa inn í.

9. Á einum stað talar viðkomandi um að "...lögfræðingar ræði það í sinn hóp." Algengara er að segja að þeir ræði það í sínum hópi.

10.  Ein stafsetningarvilla er í bréfinu en þar er um svokallað stafabrengl að ræða.  Í niðurlagi skrifar bréfaritari "....flutti ræðu á lögfræðingafundi ekki alls fyrir lögnu og fjallaði um dóminn......"

Ef orðið óekkí er googlað koma upp margir ólíkir aðilar sem það nota.   Sé hins vegar orðið "skrúflulaust" googlað kemur bara ein færsla upp og það er frétt um nafnlausa bréfið.  Sé hins vegar notað bé í stað f í orðinu, skrúblulaust, fæst ein síða (sjá fjórðu málsgrein fjórðu línu) og hana getið þið nálgast með því að smella hér. Ekki ætla ég að saka klerk þennan um að hafa skrifað þetta umdeilda bréf en hann er s.s. eini aðilinn sem skrifar á netinu sem notar þetta orð. 

Líklegast er að bréfritari skrifi ekki mikið á netinu.  Ef hann gerði mikið af því væri ansi líklegt að orðið skrúflulaust með f-i hafi komið fyrir í einhverju af því sem hann hefur skrifað.

En leitin heldur sem sagt áfram.  Sendið mér endilega ábendingar um aðila sem allt ofangreint getur passað við, annaðhvort með því að senda mér tölvupóst á sigfus.sigmundsson@gmail.com eða með því að nota kommentakerfið hér á síðunni.


Nafnlausa bréfið

zorroÞað er alveg magnað hvað nafnlaust bréf getur valdið fólki miklum hugarangri. Nú er hafin leit að bréfaskrifaranum og fékk RÚV t.d. íslenskufræðing til að greina bréfið  í fréttatímanum í gær.  Niðurstaða þessa ágæta manns var sú að þetta væri maður eða menn undir fimmtugt sem væri eða væru vel ritfærir (hann útilokar nefnilega ekki að um tvo einstaklinga sé að ræða).  Tvö orð vöktu sérataka athygli hans.  Það voru orðin "óekkí" og "skrúflulaust" sem koma fyrir í bréfinu en eru víst ekki algeng að hans sögn.

Í kjölfarið fóru margir af stað og "googluðu" þessum orðum og fengu ýmsar niðurstöður.  Á heimasíðu Friðriks Þórs blaðamanns kallar hann eftir ábendingum og þegar þetta er skrifað eru komnar nokkrar slíkar.

Þegar orðinu "óekkí" er googlað kemur upp langur listi af heimasíðum. Það orð virðist því vera algengara en íslenskufræðingurinn hélt.  Sé hins vegar orðinu "skrúflulaust" googlað kemur ekki upp ein einasta síða, þ.e. fyrir utan frétt af visi.is um þetta mál.   Það virðist því vera sem orðið skrúflulaust sé lykillinn að ráðgáttunni.  Þ.e. ef einhver getur fundið texta þar sem þetta orð kemur fyrir, eða þekkir lögfróðan mann eða konu sem notar það orð í mæltu máli, ætti að vera nokkrar líkur á að sá einstaklingur hafi skrifað bréfið góða. 

Nú bíð ég bara eftir ábendingu í kommentakerfinu um einstaklinga sem nota orðið skrúflulaust og málið er leyst.... 


Fyrsti sendiherrann í Færeyjum!

faniNú er búið að gera Eið Guðnason að fyrsta erlenda sendiherranum í Færeyjum.  Engin þjóð hefur séð ástæðu til þess að hafa sendiherra í Þórshöfn en nú þykir okkur Íslendingum það mikil nauðsyn og erum tilbúnir að eyða í það talsverðu fé.  Ég væri til í að lesa rökstuðninginn við þessari ákvörðun.  Af hverju er það nú orðið nauðsynlegt að hafa sendiherra í Færeyjum?  Hvað hefur breyst?   Af hverju var ekki löngu búið að stofna til sendiherrastöðu í Færeyjum ef þetta er svona nauðsynlegt?

Hvað mun þetta kosta íslenska skattborgara?

 


mbl.is Færeyingar segja fyrsta aðalræðismanninn ekki útlending heldur Íslending
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur endurkjörinn!

steingrimur-_I4Y8690Fór að velta því fyrir mér þegar ég las þessa frétt hvort hægt væri að hugsa sér VG án Steingríms.  Er VG kannski = Steingrímur Sigfússon?  Væri hægt að hugsa sér mótframboð gegn Steingrími eða er slíkt algjörlega óhugsandi?  Hefur einhverntíman verið kosið í embætti í VG?

En annars óska ég VG til hamingju með landsfundinn og þessi tvö í forystunni eru mjög sterk saman. Engin spurning.  Steingrímur gríðarlega öflugur reynslubolti og Katrín einn efnilegasti ungpólitíkusinn í dag....


mbl.is Steingrímur endurkjörinn formaður og Katrín varaformaður VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttamynd ársins?

Ég held að félag blaðaljósmyndara þurfi ekki að leita langt yfir skammt til að finna fréttaljósmynd ársins fyrir þetta ár.  Hún er hér:

gudniskyr

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Myndin er á forsíðu Fréttablaðsins í dag og var tekin við upphaf Food and Fun hátíðarinnar.  Hún greip mig strax þegar ég sá blaðið í morgun.  Fýlulegur svipur Guðna þegar hann er að mata kokkinn er óborganlegur í samhengi við svip kokksins og hressilegan svip Sigga Hall.

Hreinlega óborganleg mynd sem hlýtur að vera tilnefnd fréttamynd ársins að ári (þó árið sé rétt að byrja get ég ekki ímyndað mér að betri mynd komi fram á árinu).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband