Færsluflokkur: Dægurmál

"Nautasæði sem hárnæring"

Go4473835jdhdshullÉg skrepp stundum í sund í Vesturbæjarlaugina.  Af einhverjum ástæðum liggur nýjasta eintak Bændablaðsins oft þar í bunkum og tek ég yfirleitt eintak með mér, mér til fróðleiks og skemmtunnar.  Þar er hægt að lesa margt gagnlegt t.d. um nýjungar í landbúnaði .   Í blaðinu er einnig oftast að finna margar skondnar fréttir sem ekki sjást í öðrum miðlum.   Til að byrja með langar mig til þess að deila eftirfarandi forsíðufrétt úr síðasta tölublaði með ykkur:

"Nautasæði sem hárnæring
Ef hár þitt er glanslaust og strítt ættir þú að athuga þann möguleika að smyrja nautasæði í lokkana.  Það ráðleggur breskur hárgreislumeistri a.mk.
Verulegt magn af dönsku nautasæði gæti verið á leiðinni í breskar hárgreiðslustofur.  Í london hefur hárgreiðslumeistari nefnilega boðið  upp á sérstaka nautasæðismeðferð á hári.
Fyrir sem svarar 620 dkr. getur viðskiptavinurinn fengið hár sitt meðhöndlað með nautasæði og muldum jurtarótum, að sögn fréttastofunnar ananova.com.  Efnunum er nuddað í hársvörðinn , viðskiptavinurinn fær því næst gufuhjálm á höfuðið og að lokum er hárið þurrkað.
Meðferðin tekur 45 mínútur og árangurinn ku vera mjúkt og þykkt hár" 
Heimild: Bændablaðið 27. febrúar."

Það er greinilegt að þarna sér ritstjórn Bændablaðsins sóknartækifæri fyrir íslenska bændur og um að gera að kýla á þetta hér á landi.

Aðrar fréttir sem vöktu athygli mína í þessu eintaki Bændablaðsins báru fyrirsagnir eins og:

"Nýtt riðutilfelli í Hrunamannahreppi"

"Bólusetning ásetningslamba gegn garnaveiki"

"Ekki sjálfgefið að raforkuframleiðsla sé gullnáma" (var búið að segja Geira og Nonna frá þessu?)

"Leita mynda af svarfdælskum kirkjum"

"Enn er deilt hvort minnkur sleppi úr búrum eða ekki"

"Í fjarnámi með slímlínutengingu"

"Brjóstmynd af Lenín á Suðurskautslandinu

"Kínverskir bændur í uppreisnarhug"

"Hamingjan mikilvægari en peningarnir"

"Indónesía heldur upp á ár gríssins án gríss"

"Fræðslufundur um geldstöðufóðrun"

"Framleiðnisjóður styrkir rannsóknir á veiruskitu"

Af ofantöldu er ljóst að Bændablaðið markar sér mikla sérstöðu á íslenskum blaðamarkaði.  Blaðið hefur bæði fræðslugildi varðandi það sem er að gerast í landbúnaðarmálum á Íslandi og svo hefur það ótvírætt skemmtanagildi eins og ofangreind dæmi sanna.  Hvet alla til að kíkja öðru hvoru á Bændablaðið.......


Innlegg í jafnréttisurmæðuna...

fiftiesMikil umræða hefur verið um jafnréttismál að undanförnu. Hefur sú umræða farið út í full mikla hörku á köflum að mínu mati.  Ég fékk sent myndband í dag þar sem slegið er á létta strengi í þessum málum en með alvarlegum undirtón þó.  Það býr nefnilega ansi mikill boðskapur í þessu myndbandi sem ég hvet alla til að horfa á. Tær snilld:

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fréttamynd ársins?

Ég held að félag blaðaljósmyndara þurfi ekki að leita langt yfir skammt til að finna fréttaljósmynd ársins fyrir þetta ár.  Hún er hér:

gudniskyr

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Myndin er á forsíðu Fréttablaðsins í dag og var tekin við upphaf Food and Fun hátíðarinnar.  Hún greip mig strax þegar ég sá blaðið í morgun.  Fýlulegur svipur Guðna þegar hann er að mata kokkinn er óborganlegur í samhengi við svip kokksins og hressilegan svip Sigga Hall.

Hreinlega óborganleg mynd sem hlýtur að vera tilnefnd fréttamynd ársins að ári (þó árið sé rétt að byrja get ég ekki ímyndað mér að betri mynd komi fram á árinu).


Leyndu gullmolarnir

HuntingforHiddenGoldBookCoverÞað eru ótrúlega margir sem eru byrjaðir að blogga hér á blog.is.  Nokkrir bloggarar eru mjög áberandi og fá mikla lesningu.  Oft eru þeir vinsælustu vel að athyglinni komnir en oft er gæði blogga þeirra vinsælustu hins vegar ekkert meira en margra þeirra sem ekki eru mikið lesnir og stundum eru gæðin hreinlega ákaflega lítil (nefni engin nöfn).  Mig langar hér til að kalla eftir ábendingum bloggara um gæðabloggara sem týnst hafa í fjöldanum.   Helst myndi ég vilja fá ábendingar um bloggara sem leggja mikla vinnu í pistla sína og búa oft yfir mikilli sérþekkingu sem þeir miðla á blogginu sínu og áhuvavert er að lesa.

Ég ætla að brjóta ísinn og benda á áhugaverðan bloggara sem ég rakst á hér um daginn.  Hann er verkfræðingur og fjallaði í nýlegri færslu um kenningu dansks vísindamanns sem gæti kollvarpað kenningum um hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda.  Maðurinn heitir Ágúst Bjarnason og hvet ég ykkur til að kíkja á bloggið hans sem má nálgast hér.

Svo hlakka ég til að sjá ykkar ábendingar hér í athugasemdakerfinu um leynda gullmola.... 


Auglýsingar á salernispappír!

windows_toilet_paperAf hverju datt mér þetta ekki í hug?  Norðmenn eru sagðir hafa fundið upp ostaskerann vegna nísku sinnar og nú finna þeir upp á því að nýta salernispappírinn undir auglýsingar.  Hvernig ætli hann Egill hafi fundið upp á þessu?  Oft verða til góðar hugmyndir á ólíklegustu stöðum og spurning er hvar þessi kom upp í kollinn.  

Get ekki beðið eftir að fá auglýsingarnar á salernið líka.  Það var eiginlega orðinn eini staðurinn sem var eftir.....

Sjá frétt hér fyrir neðan:


mbl.is Norðmaður fær einkaleyfi á að auglýsa á salernisrúllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föstudagsléttmetið - Ísland best í heimi

ostrichEkki hefur verið mikið af léttmeti í pistlum mínum hér á moggablogginu frá því ég byrjaði.   Pistlarnir eru flestir hlaðnir fróðleik um stjórnmál og svo sem ekki líklegir til vinsælda enda er tilgangurinn ekki að slá í gegn heldur frekar sá að veita áhugasömum aðgang að fræðandi og upplýsandi efni um stjórnmál og samfélag.

En ég ætla að gera það að venju hjá mér að koma með einn léttan pistil á hverjum föstudegi.  Að þessu sinni ætla ég að bjóða upp á video sem vinkona mín sendi mér og hvatti mig til að horfa á.  Ég veit ekki hverjir unnu þetta myndband en hér eru á ferðinni íslensk hjón sem virðast vera að gera kynningarmyndband um land og þjóð.  Þau gera það af barnslegri einlægni þannig að auðvelt er að hrífast með.  Tónlistin er snilld og hámarki nær myndbandið sennilega þegar plötukenningin er útskýrð.  Þetta gæti verið gott atriði í Fóstbræðrum. Njótið:

Smellið hér til að sjá myndbandið


Talning á blog.is

countingEinn af þeim "fídusum" sem eru hvað skemmtilegastir hér á blog.is er talning gesta á síðum þeirra sem hér blogga.  Hægt er að bera sig saman við aðra hvað þetta varðar o.sfrv.   Þetta er ekkert aðalatriði en gott er að hafa einhverja hugmynd um hversu margir koma í heimsókn.

Í síðustu viku var ég kominn með yfir 600 heimsóknir þá vikuna þegar ég leit inn einn daginn en þann næsta hafði þeim fækkað um c.a. 50.  Ég varð dálítið hugsi yfir þessu en mér fannst allt í lagi þó þetta hefði gerst í eitt skipti, ekki mikið mál.  Í gær var ég svo kominn með um 650 heimsóknir fyrir vikuna en þegar ég lít á teljarann í dag er þessi tala komin niður í 512.  Hvernig stendur á þessu?  Hvernig stendur á því að heimsóknir á síðuna mína hafa dregist saman um tæpar 150 heimsóknir á einum sólarhring?  Þ.e. uppsafnaðar heimsóknir fyrir vikuna.  Samkvæmt minni stærðfræðikunnáttu ætti það ekki að vera hægt.

Hafa einhverjir aðrir lent í þessu? Ég sé ekki alveg tilganginn með að fylgjast með þessu ef þetta er öll nákvæmnin.....

 


Ókeypis í strætó!

alliristraetoÍ færslum hér á blogginu hef ég fjallað nokkrum sinnum um gjaldfríar almenningssamgöngur og þann árangur sem þær hafa skilað á Akureyri og í Hasselt í Belgíu.  Ég hef einnig vitnað í Gísla Martein Baldursson, formann samgöngunefndar Reykjavíkurborgar, sem sagði í viðtali við fréttastofu útvarps þann 18. janúar síðastliðinn að "..rannsóknir sýna að upphæð fargjalda dragi ekki úr fjölda farþega, frekar þjónustan....".  Sjá hér.  Enn á ný kalla ég eftir þessum rannsóknarniðurstöðum sem Gísli Marteinn vitnar til.  Ég hef aldrei heyrt um slíkar niðurstöður og gaman væri ef Gísli myndi vitna í þær svo hægt verði að sannreyna að þær séu raunverulega til. 

Akureyri og Hasselt eru ekki einu sveitarfélögin sem farið hafa þessa leið (gjaldfríar almenningssamgöngur) með góðum árangri.  Fyrir nokkrum árum ákvað Reykjanesbær að taka ekki lengur gjald í strætisvagna bæjarins.   Árangurinn lét ekki á sér standa og hefur orðið tvöföldun á farþegafjölda strætó þar í bæ síðan þetta var ákveðið.  Lesa má um framkvæmdina á heimasíðu Reykjanesbæjar hér og hér.  Í frétt á vef bæjarins stendur m.a. efirfarandi:

"....Áfram verður frítt í sund fyrir börn á grunnskólaaldri og er það sérstaklega ánægjulegt að fleiri sveitarfélög fylgja fordæmi Reykjanesbæjar að bjóða upp á fríar strætósamgöngur. Í báðum tilvikum hefur nýting tvöfaldast eftir þessar breytingar."
 
Og:

"Fullorðið fólk er einnig að vakna til vitundar um kosti strætókerfisins og það er að aukast að fólk noti vagnana til og frá vinnu og dæmi vitum við um að fólk hafi losað sig við bíl nr. 2 sem nánast eingöngu var notaður til að komast til og frá vinnu..."

Einnig:

"....Það gefur auga leið að umferð einkabíla hefur dregið saman, því hér eins og annars staðar er algengt að börnum sé ekið til skóla, íþróttir eða í afþreyingu.  Aukinn notkun strætisvagna skapar minni streitu fyrir foreldra og streituminni umferð í bænum, með líkum á færri umferðaróhöppum.  Fyrir margar fjölskyldur var kostnaður vegna strætóferða umtalsverður þegar á heilt ár var litið og því mikið hagræði af því að njóta ókeypis þjónustu...."

Spennandi verður að fylgjast áfram með þróun mála á Akureyri og í Reykjanesbæ.  Þar eru menn framsýnir í þessum málum.   Stjórnendur Reykjavíkurborgar hafa hins vegar enga trú á því að markaðslögmálin gildi í þessum málaflokki eins og tilvitnunin í Gísla Martein hér að ofan er til merkis um.  Hér keyra vagnarnir vannýttir (hálf tómir) um borgina á meðan stórhugur ríkir í gerð umferðarslaufa og mislægra gatnamóta.  Þvert á móti er stefnan í Reykjavík sú að hækka gjaldið í strætó (sbr hækkun nýverið sem var langt umfram verðlag) og fækka leiðum.

Ég er alls ekki einn af þeim sem boða það að allir eigi að fara í strætó og gera eigi einkabílnum eins erfitt fyrir og hægt er.  Ég tel að hagsmunir ökumanna einkabíla fari saman við hagsmuni þeirra sem kjósa aðra samgöngumöguleika.  Ef 50% aukning yrði í noktun strætó myndu ökumenn einkabíla geta komist betur leiðar sinnar.   Það á að reyna þennan möguleika, þ.e. að nýta strætisvagnana betur, áður en borgin verður öll sundurgrafin í sex akreina hraðbrautum og risavöxnum umferðarslaufum.  Það þarf þó að gera meira en að hafa strætó gjaldfrían.  Það þarf að markaðssetja almenningssamgöngur með öflugum hætti sem vistvænan valmöguleika, byggja betri og hlýrri strætóskýli, auka tíðni ferða á álagstímum, byggja upp net góðra stíga fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk og margt fleira til að hægt sé að koma í veg fyrir að Reykjavík þróist í átt að borgum eins og Houston í Texas (í smærri mynd þó).

Hér að neðan má nálgast mjög góða skýrslu borgaryfrvalda í Hasselt, en sú borg fór í heilmikið átak í þessum málum árið 1997.  Skýrsla þessi ætti að vera biblía sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu í samgöngumálum:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eru Hrútarnir á uppleið?

derbycountyÉg bjó á Akureyri frá 12 ára aldri til tvítugs.  Þar var sérstaklega gott að búa og kem ég þangað reglulega til að rifja upp gamla og góða tíma.  Á Akureyri eins og öðrum stöðum á landinu höfðu drengir áhuga á enska boltanum en ég hafði takmarkaðan áhuga á knattreki þeirra ensku þarna um 12 ára aldurinn.  Fylkingarnar skiptust að mestu leyti í tvennt: Þeir sem héldu með Liverpool og þeir sem héldu með Manchester United.  Oft var gengið á mig og ég spurður að því með hvoru liðinu ég héldi og þar sem ég hef alltaf verið mjög "dipló" nefndi ég yfirleitt það lið sem ég taldi að viðkomandi héldi með og voru þá allir sáttir (nema kannski ef ég giskaði vitlaust).

Mér hlotnaðist svo Sinclair Spectrum tölva (48 bita að mig minnir) og varð leikurinn Football manager fljótlega í uppáhaldi mér og félaga mínum.  Við gátum eitt mörgum klukkustundum í að velja í lið og sigra stóra sigra á vellinum.   Eitt sinn völdum við Derby county sem hefur viðurnefnið Hrútarnir eða "The Rams".  Það var ekki að spyrja að því, sigrarnir urðu stórir með þessu liði og enduðum við sem enskir meistarar eftir nokkur tímabil (og nokkuð marga klukkutíma skal ég segja ykkur).

Upp frá þessum glæstu sigrum okkar með Derby County í sýndarveruleika Sinclair Spectrum fór ég svo að fylgjast með enska boltanum af meiri áhuga.  Smám saman var ég farinn að fylgjast með liðinu, hvernig því gekk, hvaða leikmenn voru í liðinu o.sfrv..   Enduðu þessi ósköp þannig að frá 13 ára aldri hef ég haldið með Hrútunum í enska boltanum.

Það hafa svo sannarlega skipst á skyn og skúrir hjá Derby frá því að ég  byrjaði að halda með þeim. Liðið var lengi í efstu deild en gekk þó ekkert sérstaklega.  Ekki laust við að maður hafi horft öfundaraugum til þeirra sem héldu með stærri liðum en aldrei gafst ég þó upp.  Kom svo að því að Hrútarnir féllu niður um deild fyrir all mörgum árum og verður að viðurkennast að ég hef ekki fylgst mjög náið með þeim þann tíma sem liðinn er frá því mikla áfalli en hef þó alltaf vitað hvar liðið er statt í deildinni hverju sinni (kosturinn er sá að áskrift að Sýn hefur sparast í mörg ár vegna þessa).

En nú eru betri tímar framundan.  Hrútarnir eru nú í efsta sæti 1. deildarinnar með 62 stig, sjö stigum á undan liðinu í þriðja sæti.  Möguleikarnir eru því að verða nokkuð góðir um að liðið komist upp um deild í vor.  Áhuginn hefur því heldur betur vaknað á ný og er ég meira að segja farinn að læra nöfn leikmanna og þjálfarans aftur.   Nú er bara að vona að liðið haldist áfram á flugi og tryggi sér sæti í efstu deild í vor.   Slíkt myndi kosta aukin heimilisútgjöld því þá þyrfti undirritaður að sjálfsögðu að festa sér áskrift að Sýn.

Sem sagt, bjartir tímar framundan hjá Hrútum eins og mér (þeir eru reyndar ekkert svo ýkja margir á landinu en nokkrir sérvitringar eru þó á sama máli og ég um ágæti liðsins).........


Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 33161

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband