Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Hannes Smárason: "Krónan er vandamál"
Eins og sönnum "fjölmiðlafíkli" sæmir skundaði ég í næstu bókabúð í dag og fjárfesti í nýjasta blaðinu á markaðnum, Króníkunni. Líst afar vel á þetta blað og er alvarlega að hugsa um að gerast áskrifandi til að styrkja stoðum undir þetta frábæra framtak þeirra sem að blaðinu standa.
Í fyrsta tölublaðinu er m.a. viðtal við Hannes Smárason, forstjóra FL Group, og vöktu ummæli hans um krónuna og stöðu hennar athygli mína. Um krónuna er haft eftir Hannesi í Króníkunni:
"Íslenska krónan er orðin verulegt vandamál, segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group í samtali við krónikuna. "Það er ástæðan fyrir því að mörg íslensk fyrirtæki eru að skoða að nota evru, færa bókhald og skrá hlutafé í evrum. Það er reyndar ekki spurning um hvort þau geri þetta heldur hvenær að mínu viti. Ef við viljum reyna að laða að erlenda fjárfesta til landsins, hvort sem er til að fjárfesta í hlutabréfum eða til að byggja upp einhverja starfsemi á Íslandi, þá held ég að menn horfi alltaf til sveiflunnar á gengi krónunnar. Það gerir menn óöruggari og það er ástæðan fyrir því að mörg fyrirtæki eru að skoða að taka upp evruna, þ.e. skoða að skrá hlutabréf sín í evrum; stíga einhver skref til að ná að laða að erlent fjármagn."
Hannes heldur áfram: " Ef við förum ellefu eða tólf ár aftur í tímann, til ársins 1995, og skoðum verðmæti allra skráðra félaga í Kauphöllinni,og berum saman við verðmætin í dag, þá sjáum við að það hefur orðið gríðarlega mikil verðmætaaukning."........."Eitt af markmiðum okkar hlýtur að vera að halda áfram að auka verðmætin í fyrirtækjum í landinu," ítrekar hann. " Til að það takist þurfum við erlent fjármang. VIð gátum þetta sjálf fram til þessa," segir hann og bendir á ártalið 2007, "en til þess að við komumst í næstu deild þurfum við að fá erlenda fjárfesta inn í hlutabréfin. Annað hvort tekst okkur þetta eða fyrirtækin fara bara utan; þess vegna þurfum við að leysa gjaldeyrismálin. Ég held að það sé mjög stórt mál."
Já, svo mörg voru þau orð Hannesar Smárasonar. Æ fleiri leggjast á sveif með því sjónarmiði að krónan sé að verða meiri og meiri hindrun fyrir íslenskt efnahagslíf. Nú er bara spurning hvenær ríkisstjórnin átti sig á þessu. Venjan er að viðskiptalífið bregðist fyrr við en stjórnmálamennirnir og sú mun raunin verða í þessum málum sem og öðrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Vextir á Íslandi vs. vextir í OECD
OECD tekur saman ýmsar áhugaverða tölfræði um aðildarlöndin og setur svo fram í samanburðarformi. Eitt af því sem samtökin bera saman á milli ríkjanna eru langtímavextir. Mikil umræða hefur verið um vexti hér á landi að undanförnu og því áhugavert að bera sig saman við önnur ríki OECD hvað þetta varðar:
Heimild: OECD factbook 2006 (smellið hér ef þið sjáið ekki tölurnar á grafinu - skrollið niður skjalið)
Því miður eru þetta tölur frá árinu 2004 en áhugavert hefði verið að hafa tölur frá því á síðasta ári enda hafa vextir hér hækkað gríðarlega frá því á árinu 2004. En engu að síður kemur Ísland afar illa útúr þessum samanburði, hér voru þriðju hæstu vextirnir innan OECD árið 2004. Það var aðeins í Mexico, Rússlandi og Suður-Afríku sem vextirnir voru hærri á árinu 2004. Allir vita hver þróunin hefur orðið á síðustu 2-3 árum og kæmi ekki á óvart að sjá okkur í efsta sætinu núna.
Þessi tafla er úr flokki innan "OECD factbook" sem nefnist prices. Það er sem sagt verið að bera saman verðlag í aðildarríkjunum. Vextir eru náttúrulega ekkert annað en verð á því að fá lánaða peninga. Það er því ljóst að hér á landi er hvað dýrast að fá peninga lánaða en auðvitað eru þeir sem lána peninga í góðum málum því þeir hirða jú mismuninn.
Að lokum skulum við svo líta á töflu sem sýnir vaxtaþróunina í löndum OECD fram að árinu 2004:
Heimild: Sjá hér (smellið hér ef þið sjáið ekki tölurnar á grafinu - skrollið niður skjalið).
Eins og sést á þessari mynd þá hefur þróunin í flestum ríkjum OECD verið sú að vextir hafa lækkað mjög mikið frá árinu 1991 til ársins 2004. Þeir voru í kringum 10% í flestum aðildarríkjunum árið 1991 en eru orðnir c.a. 4% árið 2004. Ísland, Rússland, Mexíco og S-Afríka skera sig þó hressilega úr hvað þetta varðar, með um 7-10% vexti.
Forvitnilegt væri að fá uppfærðan samanburð á þessari stöðu í ljósi gífurlegra vaxtahækkana hér á landi undanfarin misseri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 14. febrúar 2007
Verðbólga og verðbólgumarkmið Seðlabankans
Helsta markmið stefnu Seðlabanka Íslands í peningamálum er stöðugt verðlag. Hinn 27. mars 2001 tók bankinn upp upp formlegt verðbólgumarkmið. Samkvæmt þessum markmiðum stefnir Seðlabankinn að því að verðbólga, reiknuð sem árleg hækkun vísitölu neysluverðs á tólf mánuðum, verði að jafnaði sem næst 2½%. Við skulum nú kíkja á hvernig bankanum og ríkisstjórninni hefur tekist til við að ná þessu markmiði undanfarin misseri:
Eins og sést á þessari mynd, sem fengin er af heimasíðu Seðlabankans, tókst ágætlega að halda verðbólgunni innan verðbólgumarkmiðs bankans þar til í apríl 2004 að los koma á verðbólguna. Nokkuð jafnvægi náðist á ný í kringum maí júní 2005 en eftir það er eins og fjandinn hafi orðið laus.
Ef við rifjum það aðeins upp þá tók Davíð Oddsson við sem seðlabankastjóri þann 25. október 2005. Ef við lítum til þess að aðalmarkmið Seðlabankans er að halda verðbólgunni undir 2,5% þá er óhætt að segja að frammistaða hins nýja formanns bankaráðs Seðlabankans er ekkert sérstaklega góð. Þegar hann tók við var verðbólgan um 4% en síðan hefur leiðin legið upp á við, náði vel yfir 8% um mitt síðasta ár og er nú í um 7,4%.
Það er kannski ósanngjarnt að rekja þessa miklu bylgju verðhækkana til komu Davíðs í stólinn í Seðlabankanum en tímasetningin er þó ansi áhugaverð verður að segjast. Hins vegar getur ríkisstjórnin engan veginn vikist undan ábyrgð á þessu ástandi. 7-8% verðbólga er algjörlega óviðunandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. febrúar 2007
Samgönguáætlun 2007-2018

Því ber sérstaklega að fagna að nú er loks komið á áætlun að byggja upp 2+2 vegi frá Reykjavík til Selfoss annars vegar og frá Reykjavík til Borgarness hins vegar. Slík framkvæmd gagnast ölllum landsmönnum og er í raun heilmikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina því slíkir vegir ættu að stytta aksturstíma til höfuðborgarinnar auk þess að auka til muna öryggi landsbyggðarfólks á ferðum þess til borgarinnar. Eftir að strandsiglingar voru aflagðar og vörufluttningar fluttust yfir á þjóðveginn hefur þessi helsta samgönguæð okkar landsmanna hreinlega hrunið og löngu tímabært að gera eitthvað í því. Bæði hefur umferð á veginum tafist gríðarlega vegna þessa aukna álags og eins hefur öryggi ökumanna hrakað til muna.
Aðrar framkvæmdir sem samgönguáætlunin gerir ráð fyrir eru einnig ágætis innlegg í styrkingu byggðar í landinu. Sem gamall Akureyringur (bjó þar frá tólf ára til tvítugs) fagna ég sérstaklega því að til stendur að liðka fyrir Vaðlaheiðargöngum og tengja þannig betur saman Eyjafjarðarsvæðið og Norðausturland. Allir sem hafa ferðast um Vaðlaheiði að vetrarlagi vita hversu mikill farartálmi sú heiði er. Það er trú mín að með tilkomu Vaðlaheiðarganga muni Akureyri styrkjast enn frekar í sessi sem höfuðstaður Norðurlands. Göngin munu auðvelda Þingeyingum og Norðausturlandi öllu að sækja verslun og þjónustu til Akureyar og þannig mun svæðið allt eflast.
Þetta eru vissulega miklir peningar sem þarna er áætlað að fara í samgöngumál en ég treysti því og trúi að búið sé að úthugsa fjármögnun þessara verkefna og tryggja að þau hafi ekki of mikil þennsluáhrif á efnahagslíf landsins.
![]() |
Rúmir 380 milljarðar til vegagerðar á næstu 11 árum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 13. febrúar 2007
Taking on the Kennedys
Ég bauð nokkrum vinum í heimsókn í síðustu viku til að horfa á heimildamyndina "Taking on the Kennedys". Myndina horfði ég fyrst á í kúrsi í námi mínu í Bandaríkjunum og vakti hún athygli mína enda ákaflega áhugaverð. Hugmyndin er að koma saman einu sinni á mánuði og horfa á heimildamynd sem við skiptumst á að velja. Á þessum fyrsta fundi var það s.s. heimildamyndin "Taking on the Kennedys" sem við horfðum á og ræddum um á eftir. Myndin fjallar um kosningabaráttu á milli Kevin Vigilante (repúblikana) og Patrick Kennedy (demókrata) en báðir sóttust þeir eftir þingsæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir hönd Rhode Island árið 1994.
Myndin veitir mjög góða innsýn í hvernig bandarísk stjórnmál hafa þróast undanfarin ár. Myndatökumenn fá að fylgja frambjóðandanum Vigilante út um allt, eru með honum eftir sjónvarpsviðtöl, í stúdíói í útvarpsviðtölum, í bílnum á milli staða, og þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar varðandi kosningabaráttuna. Hafa verður í huga að einhver tenging hlýtur að vera á milli kvikmyndagerðamannanna og Vigilante þar sem hann hleypir þeim jú ansi nálægt sér og sjónarhornið á þessa baráttu er því ansi mikið frá herbúðum hans.
Vigilante kemur fyrir sem heiðarlegur læknir sem í upphafi kosningabaráttunnar þvertekur fyrir að fara í neikvæða kosningabaráttu. Hann stendur fast á þeirri skoðun lengi vel þrátt fyrir mjög harðar árásir úr herbúðum Patricks Kennedys (sonur öldungardeildarþingmannsins Edward Kennedy) og þrátt fyrir að starfsfólk kosningamiðstöðvarinnar pressi mikið á hann að svara í sömu mynt. Þegar styttist í kosningar og hver "skítaherferðin" af annari gegn honum kemur úr herbúðum Kennedys, gefur hann loks eftir og samþykkir að svara í sömu mynnt. Fara þau þá í það að taka upp auglýsingu þar sem talað er við gamla konu sem hafði leigt Patick herbergi fyrir einhverjum árum síðan. Konan fullyrðir að Patrick hafi aldrei borgað leiguna þrátt fyrir að eiga næga peninga. Þessi auglýsing er svo stöðugt keyrð fram að kosningum með þeim árangri að munurinn á frambjóðendunum var orðinn mjög lítill í lokin. Patrick Kennedy vann þó kosningarnar en litlu mátti muna.
Annað sem fjallað er um í myndinni er stöðug notkun Patrick Kennedy á fjölskyldunafninu sér til framdráttar. Hann segir meira að segja í einni senunni að hann viðurkenni fúslega að það að hann sé Kennedy hafi fleytt honum langt í pólitíkinni sem og öðru sem hann hafi tekið sér fyrir hendi í lífinu. Hann notar fjölskylduna óspart í baráttunni og John Kennedy yngri mætir t.d. á kosningafund og skrifar eiginhandaráritanir. Fólk hundsar Vigilante í myndinni þegar hann segist vera að bjóða sig fram gegn honum og spyr hvar Kennedy sé. Það vilji bara Kennedy.
Það sem stendur eftir þessa mynd er spurningin hvort að bandarísk stjórnmál séu að þróast út í eintómt skítkast og hvort ekki sé hægt að bjóða lengur fram án þess að taka þátt í því. Einnig vakna upp spurningar um fjölskyldunöfn, frægð og mikið fjármagn sem nauðsynlegan þátt til að komast áfram í pólitík. Spurningin sem ég spurði félaga mína að mynd lokinni var hvort þeir teldu líklegt að svipuð þróun eigi sér stað hér á landi á komandi árum. Spunnust ákaflega fjörugar umræður í kjölfarið sem allir höfðu gaman að. Engin spurning að við munum hittast aftur að mánuði liðnum og horfa á nýja mynd um nýtt málefni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. febrúar 2007
Löglegt verðsamráð!
Mikið hefur verið fjallað um meint ólöglegt verðsamráð olíufyrirtækjanna undanfarin ár. Í landinu eru í gildi samkeppnislög þar sem aðilum á markaði er bannað að hafa slíkt verðsamráð. Ekki eru þó allir settir undir sama hatt hvað þetta varðar. Þannig er t.d. í gildi búvörusamningur þar sem kveðið um á hvernig verð á búvörum sé ákveðið. Þannig er það t.d. í verkahring verðlagsnefndar búvara að ákveða hvað neytendur borga fyrir mjólkurlítran út í búð. Í 7. gr. búvörulaga segir: "Verðlagsnefnd búvara, skipuð sex mönnum, ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. "
Þegar kemur að búvörum er því ekki bannað að hafa verðsamráð heldur skulu framleiðendur hreinlega hafa slíkt samráð, annað stríðir gegn lögum. Já, svona er þetta og það er komið árið 2007. Einhver hefði haldið að vinsældir slíks áætlunarbúskaps hefði farið þverrandi eftir fall sovétríkjanna en sú ríkisstjórn sem hefur ríkt hér síðastliðin 12 ár vill sem sagt hafa þetta svona.
Þann 14. október á síðasta ári flutti RÚV eftirfarandi frétt:
"Kúabændur vilja óbreytt búvörulög
Mjólkuriðnaður er undanþeginn samkeppnislögum. Fyrirtæki í greininni geta haft samráð um verkaskiptingu sem ekki samrýmist lögunum. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að breyta verði lögunum. Aðeins með því náist fram eðlilegt viðskiptaumhverfi.
Þórólfur Sveinsson, formaður Landsambands kúabænda, segir þetta ekki koma til greina. Hann segir tóma vitleysu hjá Samkeppniseftirlitinu að halda því fram að búvörulög fari í bága að við samkeppnislög. Þórólfur segir ákvæðin sem Samkeppniseftirlitið segi að fari í bága við samkeppnislög hafi verið sett í búvörulögin 2004 til að auka hagkvæmni fyrir bændur og neytendur og að tryggja minni aðilum á smásölumarkaði hliðstæð kjör og þeim stærri, það er að þeir minni fái vörur sínar á hliðstæðu verði óháð umfangi og þeir stærri." Sjá hér
Já, mjólkurvörur eru undanþegnar samkeppislögum, þar er heimilt að hafa verðsamráð og samkeppni hreinlega bönnuð. Og þannig vilja bændur og ríkisstjórnin hafa það. Og á hvaða öld erum við aftur stödd?
Í landinu eru í gildi svokölluð búvörulög, lög nr. 99 frá 8. september 1993. Hér á eftir eru nokkrar áhugaverðar greinar sem ég hvet lesendur þessa bloggs til að lesa yfir og klípa sig svo í handlegginn til að vera viss um að vera ekki að dreyma einhvern súrrealískan draum:
"1. gr. Tilgangur þessara laga er:
a. að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur,
b. að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu,
c. að nýttir verði sölumöguleikar fyrir búvörur erlendis eftir því sem hagkvæmt er talið,
d. að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta,
e. að innlend aðföng nýtist sem mest við framleiðslu búvara, bæði með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnu,
f. að stuðla að jöfnuði á milli framleiðenda í hverri búgrein hvað varðar afurðaverð og markað."
"IV. kafli. Um verðskráningu á búvörum. 7. gr. [Verðlagsnefnd búvara, skipuð sex mönnum, ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. "
"8. gr. [Verðlagsnefnd ákveður við upphaf hvers verðlagsárs, í fyrsta sinn 1. september 1998, lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda sem miðast við 1. flokks mjólk með skilgreindu efnainnihaldi [nema annað sé tekið fram í samningi milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands].1) Hverri afurðastöð er heimilt að greiða framleiðendum hærra verð en lágmarksverð. Verðlagsnefnd ákveður leyfileg afföll af verði mjólkur sem ekki stenst kröfur sem 1. flokks mjólk. Ákvörðun um lágmarksverð mjólkur skal byggjast á gerð verðlagsgrundvallar fyrir bú af hagkvæmri stærð, með framleiðsluaðstöðu þar sem tekið er mið af opinberum heilbrigðis- og aðbúnaðarkröfum og hagkvæmum framleiðsluháttum. Áætlað vinnuframlag skili endurgjaldi hliðstæðu og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni. Ákvörðun verðlagsnefndar um lágmarksverð skal tekin til endurskoðunar innan verðlagsársins komi fram um það ósk í nefndinni. Framleiðslukostnaður á nautgripakjöti til framleiðenda skal metinn og skráður af verðlagsnefnd samhliða ákvörðun á lágmarksverði mjólkur. Heimilt er verðlagsnefnd að ákveða að skráning á verði nautgripakjöts falli niður. Landssambandi kúabænda er þá heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka nautgripakjöts. Verðlagsnefnd metur við upphaf hvers verðlagsárs framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú, í fyrsta sinn 1. september 1998. Miða skal við kostnaðarútreikninga er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstrargjöld, launakostnað og afurðir meðalbús sem er rekið við eðlilegar framleiðsluaðstæður. Tilgreina skal ársvinnu á sauðfjárbúi af stærð sem miðað er við og virða endurgjald fyrir vinnuframlag til samræmis við kjör þeirra sem vinna sambærileg störf og hafa svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð í starfi á almennum vinnumarkaði. Mat verðlagsnefndar skal taka til endurskoðunar innan verðlagsársins komi fram um það ósk í nefndinni. Landssamtökum sauðfjárbænda er heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka sauðfjárafurða.
Til ákvörðunar á framleiðendaverði annarra búvara en afurða sauðfjár og nautgripa skal verðlagsnefnd semja um verðlagsgrundvöll er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstrargjöld, launakostnað og afurðir bús sem næst meðalbúi að stærð, sem er rekið við eðlilegar framleiðsluaðstæður, komi fram um það óskir frá Bændasamtökum Íslands og viðurkenndum samtökum búvöruframleiðenda í viðkomandi grein skv. 2. mgr. 4. gr. Tilgreina skal ársvinnu á búinu og virða endurgjald fyrir vinnuframlag til samræmis við kjör þeirra sem vinna sambærileg störf og hafa svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð í starfi á almennum vinnumarkaði. Verðlagsgrundvöllurinn gildir fyrir tvö ár í senn frá byrjun verðlagsárs og skal hann vera tilbúinn fyrir þann tíma ár hvert nema annað sé ákveðið með samkomulagi í verðlagsnefnd. Nefndinni er hvenær sem er heimilt að taka mið af verðlagsbreytingum vegna fjármagns- og rekstrarkostnaðar, svo og launabreytingum á tímabilinu, komi fram um það óskir í nefndinni. Verðlagsgrundvöllur hvers tímabils framlengist sjálfkrafa um tvö ár í senn ef honum er ekki sagt upp af fulltrúum samningsaðila með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Nefndin getur þó komið sér saman um annan frest.
Við kostnaðarútreikninga skulu beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda teljast til tekna og koma til lækkunar á verði þeirra afurða sem beinar greiðslur taka til.]2)"
"13. gr. [Verðlagsnefnd ákveður heildsöluverð búvara sem verðlagðar eru skv. 8. gr., að teknu tilliti til afurðaverðs til framleiðenda og rökstuddra upplýsinga um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara, nema annað sé tekið fram í samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 30. gr. laganna. [Verði samið um að falla frá ákvörðun um lágmarksverð á mjólk til framleiðenda samkvæmt heimild í 1. mgr. 8. gr. hefur slík ákvörðun ekki áhrif á heimild verðlagsnefndar til heildsöluverðlagningar á mjólkurafurðum.]1) Nefndin getur ákveðið að efna til sérstakra rannsókna í því skyni að fá betri upplýsingar um þau atriði er máli skipta fyrir ákvörðun heildsöluverðs á búvörum með hliðstæðum hætti og segir í 11. gr."
"30. gr. Til þess að hafa stjórn á framleiðslu búvara þannig að hún verði í samræmi við tilgang laga þessara er landbúnaðarráðherra:
a. rétt að leita eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við [Bændasamtök Íslands]1) um magn mjólkur- og sauðfjárafurða sem framleiðendum verður ábyrgst fullt verð fyrir á samningstímanum skv. 8. gr. Samningarnir skulu gerðir fyrir 1. ágúst ár hvert og gilda næsta verðlagsár. Heimilt er að semja til lengri tíma í einu og að binda samninga við einstakar búvörur. Á sama hátt er landbúnaðarráðherra heimilt í stað ofannefndra samninga að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda mjólkur- og sauðfjárafurða á lögbýlum.
b. heimilt að ákveða skiptingu framleiðslu einstakra búvara, þar með taldra þeirra sem um er samið skv. a-lið, eftir héruðum. Skal sú skipting miðuð við félagssvæði búnaðarsambandanna en ráðherra er þó heimilt að ákveða aðra svæðaskiptingu að fengnu samþykki [Bændasamtaka Íslands]2) og viðkomandi búnaðarsambanda.
Heimilt er að skipta framleiðslu innan hvers svæðis eða fela stjórn viðkomandi búnaðarsambands eða samtaka framleiðenda, sem viðurkennd eru skv. 2. mgr. 4. gr., að skipta framleiðslunni milli einstakra framleiðenda samkvæmt reglugerð er ráðherra setur."
Sjá hér
Lögin eru mun víðtækari en þessar greinar segja til um. Það er fátt sem ríkið vill ekki binda í lög er kemur að búvörum. Mér er spurn: Erum við stödd í vestrænu ríki á árinu 2007 eða erum við stödd í sovétríkjunum á áttunda áratugnum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 12. febrúar 2007
Talning á blog.is
Einn af þeim "fídusum" sem eru hvað skemmtilegastir hér á blog.is er talning gesta á síðum þeirra sem hér blogga. Hægt er að bera sig saman við aðra hvað þetta varðar o.sfrv. Þetta er ekkert aðalatriði en gott er að hafa einhverja hugmynd um hversu margir koma í heimsókn.
Í síðustu viku var ég kominn með yfir 600 heimsóknir þá vikuna þegar ég leit inn einn daginn en þann næsta hafði þeim fækkað um c.a. 50. Ég varð dálítið hugsi yfir þessu en mér fannst allt í lagi þó þetta hefði gerst í eitt skipti, ekki mikið mál. Í gær var ég svo kominn með um 650 heimsóknir fyrir vikuna en þegar ég lít á teljarann í dag er þessi tala komin niður í 512. Hvernig stendur á þessu? Hvernig stendur á því að heimsóknir á síðuna mína hafa dregist saman um tæpar 150 heimsóknir á einum sólarhring? Þ.e. uppsafnaðar heimsóknir fyrir vikuna. Samkvæmt minni stærðfræðikunnáttu ætti það ekki að vera hægt.
Hafa einhverjir aðrir lent í þessu? Ég sé ekki alveg tilganginn með að fylgjast með þessu ef þetta er öll nákvæmnin.....
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 10. febrúar 2007
Skiptu Guðjón, Magnús og miðstjórnin um skoðun?
Undanfarið hafa tveir þingmenn tveggja ólíkra flokka haft vistaskipti og skipt yfir í Frjálslynda flokkinn. Þetta eru þeir Valdimar L. Friðriksson sem skipti úr Samfylkingunni yfir í Frjálslynda flokkinn og Kristinn H. Gunnarsson sem sagði sig úr þingflokki Framsóknarflokksins og fór sömuleiðis yfir til Frjálslynda flokksins. Ekki ber á öðru en formaður Frjálslyndra, Guðjón Arnar Kristinsson, og varaformaður flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, hafi tekið þeim báðum fagnandi og ekki gert athugasemdir við þennan gjörning.
Forvitnilegt er að skoða hvað þessir sömu menn höfðu að segja þegar Gunnar Örlygsson sagði sig úr þingflokki Frjálslyndra og gekk í raðir Sjálfstæðismanna. Föstudaginn 13. maí 2005 er eftirfarandi haft eftir Guðjóni Arnari í Morgunblaðinu:
"Inntur eftir því hvort þessar breytingar séu áfall fyrir flokkinn, segir Guðjón að þær séu fyrst og fremst áfall fyrir kjósendur Gunnars. "Það liggur náttúrlega skýrt fyrir að ekki einn einasti kjósandi Frjálslynda flokksins taldi sig vera að kjósa þingmann fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kjósendurnir voru að kjósa um stefnu Frjálslynda flokksins og áherslur hans.""
Og áfram er haft eftir Guðjóni:
"Annað ætla ég ekki að rifja upp. Hann verður sjálfur að gefa skýringar á þessum sinnaskiptum og þá aðallega gagnvart fólkinu, sem kaus hann í góðri trú, sem fulltrúa þeirrar stefnu sem Frjálslyndi flokkurinn stendur fyrir."
Eftirfarandi er haft eftir Magnúsi Hafsteinssyni, varaformanni Frjálslynda flokksins, í sömu grein:
"Nú eru aðeins liðnar átta vikur og hann er farinn úr flokknum og yfir í raðir okkar höfuðandstæðinga. Hann er gjörsamlega búinn að snúa við blaðinu. Virðist því ekkert vera að marka það sem hann hefur áður sagt, hvorki í ræðu né riti. Þetta er ein stórkostlegasta kúvending í íslenskum stjórnmálum sem ég hef nokkurn tíma séð. Ég held það hljóti að vera leitun að öðru eins."
Og Margrét Sverrisdóttir þáverandi framkvæmdastjóri flokksins hafði þetta að segja um vistaskiptin:
"Margrét Sverrisdóttir, ritari og framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, segir að Gunnar sé fyrst og fremst að bregðast kjósendum sínum. Þeir hafi hringt nær linnulaust til hennar síðasta sólarhringinn vegna tíðindanna. "Símalínur hafa verið glóandi hjá mér frá því ákvörðun hans varð opinber," segir hún. "Flestir tala um að þeim finnist ósanngjarnt að hann skuli hafa haft þingsæti af flokknum með þessum hætti. Einnig að hann skuli hafa horfið frá þeirri meginstefnu sinni í síðustu kosningum að berjast gegn kvótakerfinu."
Persónulega segist hún ekki sjá eftir "liðhlaupum sem hverfa frá hugsjónum sínum á einni nóttu", eins og hún orðar það. "Áherslur hans í sjávarútvegsmálum eru núna á vísindastarf, markað og samkeppni. Það er mikil kúvending að mínu mati.""
Og miðstjórn Frjálslyndra hafði þetta að segja um málið:
"MIÐSTJÓRN Frjálslynda flokksins segir í ályktun, sem hún samþykkti í gær, að úrsögn Gunnars Örlygssonar úr flokknum hafi komið miðstjórninni í opna skjöldu. "Það er augljóst mál, að þingmaður sem nú vill styðja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Halldórs Ásgrímssonar, á ekki heima í Frjálslynda flokknum," segir í ályktuninni. "Miðstjórn Frjálslynda flokksins telur það lýsa litlum drengskap af hálfu Gunnars Örlygssonar að nota fylgi kjósenda Frjálslynda flokksins til þess að styrkja ríkisstjórnina til verka þvert á hans eigin málflutning." "
Heimild allra þessara tilvitnanna: Morgunblaðið, föstudagurinn 13. maí 2005.
Nú virðist forysta Frjálslyndra kúvenst í skoðunum sínum á svona vistaskiptum. Nú er sjálfsagt mál að tveir þingmenn annara flokka skipti yfir til þeirra. Ekkert athugavert við það. Hins vegar er það náttúrulega höfuðsynd ef einhver úr þeirra flokki skiptir yfir í aðra flokka.
Hvað hefur breyst á þessum stutta tíma?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. febrúar 2007
Myndir frá Kárahnjúkasvæðinu
Áhugaljósmyndarar hafa nú fengið öflugan vettvang til að deila myndum, fá álit annara á sínum myndum og kommenta á myndir annara. Þetta er vefsíðan www.flickr.com sem er ein vinsælasta ljósmyndasíðan á netinu í dag. Það sem vakti fyrst athygli mína á þessari vefsíðu var frábær árangur íslensks ljósmyndara, Rebekku, sem vakti heimsathygli fyrir myndir sínar sem hún setti þarna inn. Var hún valin einn áhrifamesti ljósmyndarinn á netinu í dag og fór m.a. í viðtöl hjá þekktum tímaritum og blöðum eins og Der Spiegel í Þýskalandi. Myndir hennar eru ákaflega fallegar og flestar eru þær af hinni ægifögru íslensku náttúru. Haft er á orði á þessari vefsíðu að Rebekka ætti að fá laun frá íslenska ríkinu fyrir þá gífurlegu landkynningu sem felst í myndum hennar. Fólk frá öllum heimshornum kommentar á myndirnar og lýsir yfir miklum áhuga á að heimsækja landið eftir að hafa séð þær.
Við Íslendingar höfum náttúrulega tekið þennan vettvang með trompi (eins og svo margt annað) og á vefsvæðinu eru starfræktar margar íslenskar "grúppur" þar sem íslenskir áhugaljósmyndarar láta ljós sitt skína. Má þá nefna grúppur eins og Íslenskrir ljósmyndarar, Best of Iceland, Icelandic landscape, Reykjavik, Visit Iceland, Geotagged: Iceland, Hiking in Iceland, Akureyri, Icelandic landscape images, Beautiful Iceland, Icelandic waterfalls, Iceland incredible colours, Icelandic horses, Fishing in Iceland, Iceland svo einhverjar séu nefndar. Ég hvet landsmenn til að kíkja þarna inn og skoða verk fjölmargra frábærra íslenskra áhugaljósmyndara sem þar er að finna.
Ég vil vekja sérstaklega athygli á grúppu sem ég stofnaði sem kallast "Kárahnjúkar and surroundings". Hugmyndin með þessari grúppu er að safna saman á einn stað myndum frá Kárahnjúkasvæðinu hvort sem þær voru teknar fyrir byggingu virkjunarinnar, á meðan virkjunarframkæmdum stóð eða eftir að lónið er orðið fullt. Nú þegar eru komnir 146 meðlimir í þessa grúppu og um 220 myndir. Það er trú mín að slíkt safn mynda frá Kárahnjúkasvæðinu geti verið áhugavert og gagnlegt fyrir komandi kynslóðir til að meta áhrif þessarar risaframkvæmdar á náttúru landsins. Endilega skráið ykkur inn á flickr og setjið myndir frá Kárahnjúkasvæðinu inn í þessa grúppu, því fleiri því betra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. febrúar 2007
Þriðji flokkur Kristins
Kristinn H. Gunnarsson er svo sannarlega kameljón íslenskra stjórnmála. Hann hóf feril sinn sem þingmaður Alþýðubandalagsins árið 1991, var síðan utan flokka um tíma þar til hann svo gekk til liðs við Framsóknarflokkinn. Nú stefnir hann á að ganga í Frjálslynda flokkinn og ef þeir taka honum fagnandi (sem ég efast ekki um að þeir geri) hefur hann verið þingmaður þriggja ólíkra flokka.
Er þetta Íslandsmet? Gaman væri ef einhver minnugur gæti staðfest það eða hrakið að þetta sé einsdæmi í sögu Alþingis. Ég myndi giska á að þetta sé met en endilega kommentið við þessa færslu ef þið vitið betur.
![]() |
Kristinn segir sig úr Framsóknarflokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
malacai
-
godsamskipti
-
agbjarn
-
agustolafur
-
arnih
-
arnith
-
heilbrigd-skynsemi
-
baldvinj
-
kaffi
-
bjarnihardar
-
gattin
-
bryndisisfold
-
davidlogi
-
dofri
-
dst
-
egillrunar
-
esv
-
eirikurbergmann
-
ea
-
feministi
-
freedomfries
-
gummisteingrims
-
gun
-
gunnlaugur
-
haukurn
-
hlynurh
-
maple123
-
tulugaq
-
hrannarb
-
hreinsi
-
ivarb
-
jonthorolafsson
-
jonornm
-
julli
-
kristjanb
-
kristjanmoller
-
maggib
-
graskerid
-
maron
-
nykratar
-
oddgeirottesen
-
palmig
-
runarhi
-
salvor
-
sigmarg
-
safi
-
einherji
-
soley
-
stebbifr
-
kosningar
-
sunnadora
-
svatli
-
saethorhelgi
-
thelmaasdisar
-
tommi
-
vefritid
-
tharfagreinir