Stysta frétt Íslandssögunnar?

ruvRakst á eftirfarandi frétt á ruv.is:

"Týndur maður fundinn

Maður sem lögregla lýsti eftir í kvöld er fundinn, heill á húfi."
Þetta er langstysta frétt sem ég hef á ævinni séð.   Gaman væri ef einhver gæti rifjað upp styttri frétt og póstað henni hér í kommentakerfið.....

P.S. Annars stórgott mál að maðurinn fannst

Neikvæðar kosningaauglýsingar

efin93lÉg bjó í Bandaríkjunum í um eitt og hálft ár nú fyrir skömmu.  Á þessum tíma upplifði ég þingkosningar og reyndi að fylgjast vel með þeim.  Það eftirminnilegasta við þessar kosningar var að upplifa það hvernig kosningabaráttan er orðin þar í landi en þar dynja á manni neikvæðar auglýsingar um mótframbjóðendur, þessi er latur og mætti aldrei á þing og hinn hefur þegið framlög frá byggingaverktökum o.s.frv.   Sá sem um er fjallað hefur engin tök á því að leiðrétta það sem kemur fram í svona auglýsingum, nema þá helst með því að svara í sömu mynnt.  Þannig myndast vítahringur sem erfitt er að stöðva.

Skömmu eftir að ég kom heim kallaði ég saman hóp vina og horfðum við á heimildamynd sem fjallar að stórum hluta um þetta málefni.  Þar var fylgst með mótframbjóðanda Patricks Kennedys og sýnt hvernig Patrick hóf neikvæða auglýsingaherferð á hendur honum.  Þar var því haldið fram að viðkomandi frambjóðandi, sem var læknir að mennt, hefði ýkt áverka eftir slys og fengið þannig of miklar bætur sem hann notaði svo til þess að mennta sig til læknis.  Algjör skítabomba sem átti sér að sjálfsögðu ekki stoð í raunveruleikanum.  En málið var að þessi mótframbjóðandi Kennedys vildi ekki svara í sömu mynnt og stóð við það þar til þrýstingurinn á hann var orðinn svo mikill að hann lét undan og hóf álíka auglýsingaherferð.  Þar var talað við gamla konu sem hafði leigt Patrick Kennedy herbergi á námsárunum og hélt hún því fram að hann hefði aldrei borgað leiguna.  Ekki veit ég hvað var mikið til í því en alla veganna skilaði þetta þeim árangri að læknirinn var næstum því búinn að fella Kennedy.

Eftir myndina ræddum við þessa þróun og veltum upp þeirri spurningu hvort að þetta sé eitthvað sem við eigum eftir að sjá hér á landi í auknum mæli.   Flestir héldu ekki.   En nú finnst mér sem ég hafi upplifað fyrsta skrefið í þessa átt.   Ein auglýsing sker sig úr fyrir þessar kosningar og það er auglýsing Framsóknarflokksins þar sem spjótum er beint sérstaklega að VG.  Öll auglýsingin snýst um að skíta út VG og í lokin birtist Steingrímur J. í gervi netlöggu.   Reyndar virðist öll kosningabarátta Framsóknar beinast gegn VG þetta árið því slagorðið "Ekkert stopp!" er jú sérstaklega beint gegn VG og er útúrsnúningur af verstu sort.

Ég vona að þetta sé ekki fyrsta skrefið af mörgum í átt að svona neikvæðum auglýsingaherferðum.  Ég vona innilega að þessi taktík Framsóknar heppnist ekki hér á landi og þetta verði aðeins í fyrsta og eina skiptið sem flokkarnir reyni slíka herferð....


Risastökk Framsóknar

framsoknarkonnun

Jæja, það hlaut að koma að því!  Framsóknarflokkurinn er ótrúlega lífseigur flokkur og hefur sýnt það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að endaspretturinn er mjög oft hans.  Enginn trúði því t.d. í síðustu borgarstjórnarkosningum að Björn Ingi kæmist inn en með ótrúlegri seiglu og baráttu náði framsókn manni inn og hefur nú helming valda í borginni.   Sama virðist vera að gerast í landsmálunum, það stefnir í að Framsókn nái þeim 15-17% sem Guðni Ágústsson taldi nauðsynleg til þess að sitja áfram í tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum.  Ef fram fer sem horfir erum við því að fara upplifa fjögur ár í viðbót af Sjálfstæðis- og Framsóknarstjórn og verða þá árin orðin 16 í lok kjörtímabilsins sem sömu flokkarnir ráða yfir landsmálunum.  Þessir tveir flokkar eru einnig í meirihluta í tveimur stærstu sveitarfélögum landsins, Kópavogi og Reykjavík. 

Annað sem er markvert í þessari nýjustu könnun er að Samfylkingin dalar aftur eftir mjög mikið flug að undanförnu en er þó með nokkuð gott fylgi eða um 25%.  Sjálfstæðisflokkur og VG virðast stöðugt vera að tapa fylgi að undanförnu og fróðlegt verður að sjá hvort sú þróun haldist áfram fra á laugardag.  Enn eru engin merki um það að Íslandshreyfingin nái inn manni en Frjálslyndir eru á ágætis róli og ættu að ná nokkrum inn.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort að Framsókn haldi áfram að sækja í sig veðrið og hvort Sjálfstæðisflokkur og VG haldi áfram að tapa fylgi fram að helgi.......

 


mbl.is Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pálmi Gunnarsson byrjaður að blogga

palmigBlog.is er alltaf að verða öflugri og skemmtilegri vettvangur skoðanakipta og framsetningu ýmiskonar efnis.  Á hverjum degi bætast nýir pennar við og sumir þeirra hafa verið þekktari fyrir aðra iðju en skriftir hingað til.  Datt inn á blogg Pálma Gunnarssonar fyrrum Icy-tríós meðlims í dag.  Vel við hæfi að hann hefji skriftir nú í aðdraganda "Júróvisíón".  Hér er bloggið hans:

http://palmig.blog.is/blog/palmig/

Ekki er Pálmi síðri penni en söngvari.  Ég las nokkra af fyrstu pistlum hans og líst stórvel á.  Slær jafnvel Gleðibankanum við.  Mæli eindregið með bloggi Pálma.  Kíkið endilega þarna inn.....


Listaháskólinn í Vatnsmýrina

listahaskoliNú þekki ég ekki hvort að lóðarúthlutun borgarstjóra sé á skjön við eitthvað samkomulag sem fyrir er um nýtingu umræddrar lóðar en ég fagna þessari niðurstöðu.  Komið hefur fram að þessi úthlutun sé með samþykki H.Í. og hlýtur það að skipta megin máli.  Ég held líka að þessi staðsetning skólans sé mjög góð fyrir alla.  Ég hef áður skrifað um það að Listaháskólinn ætti að fara á Háskólasvæðið og sameina ætti hann Háskóla Íslands.   Samkvæmt nýrri stefnu er gert ráð fyrir að deildir H.Í. verði gerðar að skólum sem allir heyra undir H.Í.  Slíkt tíðkast erlendis og gefur deildunum/skólunum ákveðið frelsi og sjálfstæði sem er víða talið æskilegt.  Listaháskólinn ætti að vera einn af þeim skólum sem þannig heyrðu undir HÍ.  Með því næðist t.d. hagræðing í rekstrarkostnaði og einnig í starfsmannafjölda.   Slík nálægð ætti einnig að auka möguleika á þverfaglegri samvinnu, t.d. mætti hugsa sér að nemendur í viðskiptafræði og í listnámi störfuðu saman að því að markaðssetja listsköpun þeirra sem eru í Listaháskólanum.

Það á að vanda vel til byggingar Listaháskólans.  Mjög mikilvægt er að við hönnun skólans verði þeir með í ráðum sem munu starfa og nema í honum.  T.d. ættu nemendafélag LHÍ og starfsmenn skólans að vera virkir þátttakendur í allri ákvarðanatöku við hönnun skólans.  Við ættum einnig að nýta tækifærið núna og sameina allt listnám þarna á einum stað.  Ég sé leiklistarskólann þarna inni, söngnám, ýmist tónlistarnám, og allt það nám sem nú þegar er í núverandi húsi.   Einnig er mikilvægt að í skólanum sé tónleikasalur og sýningarsalur fyrir myndlist og aðra listsköpun.

Með tilkomu Listaháskólans á háskólasvæðið verður háskólasamfélagið mun ríkara og skemmtilegra.  Nemendur Listaháskólans munu setja skemmtilegan svip á háskólasamfélagið með öllum sínum krafti og sköpunarmætti..........


mbl.is Listaháskólinn fær lóð í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæný kosningaspá úr Glerhúsinu

glerhusidMæli eindregið með lestri nýjustu kosningaspár "Glerhússins":

http://hreinsi.blog.is/blog/glerhusid/entry/203323/

Hreinsi rökstyður spá sína um fylgi einstakra flokka með skemmtilegum hætti og ætti ekkert áhugafólk um stjórnmál að láta þennan pistil framhjá sér fara.  Tær snilld.....

 


Hvaða flokk á ég að kjósa?

bifrost_logoÉg vil mæla með pólitíska prófinu sem nemendur í Háskólanum á Bifröst hafa sett upp.  Það má nálgast hér:

http://xhvad.bifrost.is/

Auðvitað ber ekki að taka slík próf of alvarlega en mér sýnist sem vandað hafi verið til þessa prófs og það er alls ekki svo galið.   Að minnsta kosti passaði niðurstaða prófsins ansi vel við undirritaðan.  Hef einnig séð niðurstöður nokkurra vina minna og gat ekki betur séð en þær pössuðu allar nokkuð vel við þann sem við átti hverju sinni.

Skemmtileg viðbót í kosningaumræðuna.....


Svíar taka Monu Sahlin vel

jafnadarformennMona Sahlin, sem var hér á fundi Samfylkingarinnar um daginn, virðist vera að ná ætlunarverki sínu þ.e. að ná jafnaðarmönnum í Svíþjóð upp úr þeirri lægð sem þeir hafa verið í að undanförnu. Í nýrri könnun mælist fylgi Jafnaðarmanna í Svíþjóð um 46,3% og hefur það ekki verið meira í 12 ár.  Þau ykkar sem hlustuðu á hana og stöllu hennar í Jafnaðarmannaflokkinum í Danmörku í Silfri Egils hér um daginn sáuð vel hversu frambærilegir stjórnmálamenn eru þar á ferð.  Það er skemmtileg tilviljun að á sama tíma eru þrjár konur formenn Jafnaðarmanna á Norðurlöndum,  Ingibjörg Sólrún á Íslandi, Mona Sahlin í Svíþjóð og Helle Thorning-Schmidt í Danmörku.  Nú er að sjá hvort einhver þeirra nær að feta í fótspor Gro Harlem Brundtland og verða fyrst kvenna forsætisráðherra í heimalandi sínu.

Íslenska þjóðin steig mikilvægt skref í jafnréttisbarátunni þegar hún kaus Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta.  Þannig fengu konur og ungar stúlkur frábæra fyrirmynd sem sýndi þeim að þjóðarleiðtogar þurfi ekki endilega að vera karlar.  Nú gefst íslensku þjóðinni tækifæri til að stíga enn stærra skref og tryggja konu í stól valdamesta embættis landsins.  Með miklu fylgi Samfylkingarinnar í komandi kosningum gæti það gerst að Ingibjörg Sólrún verði fyrst kvenna til að gegna þessu veigamikla embætti.  Ekki þarf að fjölyrða um það hversu mikilvægt skref það yrði í jafnréttisbaráttunni hér á landi......

 

 


mbl.is Mikil fylgisaukning sænskra jafnaðarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórleikur í kvöld

soccerÉg hef gaman að því að horfa á fótbolta en telst ekki til forfallina hvað það varðar.  Ég horfi á helstu stórleikina og reyni að sjá Eið Smára spila með Barcelona sem oftast.   Í kvöld er leikur sem ég ætla ekki að missa af en þá mætast Liverpool og Chelsea í undanúrslitum meistaradeildarinnar.  Þetta er einn af þessum allra stærstu leikjum ársins sem fólk sem hefur einhvern snefil af knattspyrnuáhuga ætti ekki að láta framhjá sér fara.  

Ég þekki marga sem horfa lítið sem ekkert á fótbolta en liggja svo t.d. yfir heimsmeistarakeppninni.  Undanúrslit og úrslit í meistaradeildinni eru álíka stórir viðburðir og HM og því hvet ég alla sem hafa þó ekki sé nema örlítinn áhuga á knattspyrnu til að hlamma sér fyrir framan settið í kvöld og horfa á þetta mikla sjónarspil.

Það er þó viðbúið að ekki verði mikið skorað í kvöld og liðin munu sennilega spila mjög varfærnislega.  Mín spá er því 0-0 eða 1-0 fyrir öðru hvoru liðinu.  Vonandi reynist ég þó ekki sannspár og við fáum að njóta markaveislu eins og Man utd og AC Milan buðu uppá í gærkveldi.....


mbl.is Mourinho hefur áhyggjur af gulum spjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland, land umhverfisvænnar orku?

vetniÞorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor við Háskóla íslands, hlaut á dögunum verðlaun í tengslum við Alheimsverðlaunin Global Energy International Prize fyrir rannsóknir sínar í orkumálum.  Verðlaunin ku vera ein mesta viðurkenning rússneska lýðveldisins fyrir vísindarannsóknir.

Þorsteinn hlaut verðlaun þessi fyrir vetnisrannsóknir sínar og aðkomu að ýmum verkefnum tengdum þeim.  Hann kom t.d. að verkefninu með strætó þar sem nokkrir vagnar knúnir áfram af vetni keyrðu um Reykjavík með farþega.  Verkefni það var í samstarfi við stóra alþjóðlega bílaframleiðendur og orkufyrirtæki. 

Það hefur verið tekið eftir því víða um heim hversu framsæknir við Íslendingar höfum verið í þessum málum á undanförnum árum.  Þetta er eitt af því sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið sig vel í að undanförnu og það er eins og mig minnir að framsóknarmaðurinn Hjálmar Árnason hafi komið mikið að þessu starfi.  Það er mín trú að það eigi að stórefla þessar rannsóknir hér á landi og fara út í ýmis tilraunaverkefni sem gætu leitt af sér þróun véla sem standast bensínvélunum vel á sporði.

Í desember á síðasta ári var ég staddur á skemmtiferðaskipi í karabíska hafinu.  Þetta var sjö daga sigling og öll kvöld sátum við til borðs með sömu tveimur bandarísku fjölskyldunum.  Við vorum mjög heppin með borðfélaga því fjölskyldurnar tvær voru stórskemmtilegar og var rætt um allt milli himins og jarðar.  Að sjálfsögðu barst talið til Íslands og kom í ljós að annar fjölskyldufaðirinn vissi nokkuð mikið um land og þjóð.  Hann sagði það við alla sem heyra vildu að á Íslandi væru allir strætisvagnar knúnir áfram af vetni, rafmagn fengi þjóðin úr umhverfisvænum vatnsvirkjunum og húsin væru hituð upp með heitu vatni.  Sagði hann hinum við borðið að Íslendingar væru svo framarlega í þessum málum að þeir væru löngu búnir að framkvæma hluti sem þeir Bandaríkjamenn væru rétt að byrja að hugsa um.   Því miður varð ég aðeins að leiðrétta borðfélaga minn og skemma aðeins fyrir honum söguna.  Ég sagði honum eins og rétt var að einungis 3 strætóar væru knúnir áfram með vetni og það væri tilraunaverkefni sem bráðum lyki.  Það dró aðeins úr ákafa hans þá en hann var samt áfram á því að framsýni okkar væri mikil í þessum málum og lýsti yfir áhuga sínum að koma til landsins þó ekki væri nema bara til að sjá öll þessu orkuverkefni.

Mikið lifandi ósköp hefði ég viljað geta sagt bandaríska borðfélaga mínum að allt væri þetta satt um strætóana.  En rétt skal vera rétt.   Ég held hins vegar að ef við Íslendingar tækjum forystu í heiminum í notkun umhverifsvænna eldneytis myndi það vekja heimsathygli og ímynd landsins yrði mjög góð í kjölfarið.  Það mætti hugsa sér aukinn ferðamannastraum í kjölfarið því umhverifmeðvituðum ferðamönnum fer sífellt fjölgandi.

Gjaldfríar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og almenningsvagnar knúnir af vetni, rafmagni, metani eða öðrum minna mengandi eldsneytisgjöfum myndi án efa vekja heimsathygli.  Tökum forystuna í þessum málum, fáum til liðs við okkur stór alþjóðleg fyrirtæki og stígum skrefið til fulls.  Verum öðrum þjóðum fyrirmynd í umhverfisvænum almenningssamgöngum.  Næg er þekkingin hér á landi og með menn eins og Þorstein Inga ætti okkur að vera kleift að ná langt í notkun umhverfisvænna eldsneytisgjafa......


mbl.is Þorsteinn: Mun hugsanlega kaupa mér vetnisbíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigfús Þ. Sigmundsson
Sigfús Þ. Sigmundsson
Stjórnmálafræðingur frá H.Í. og er á lokasprettinum í MPA námi í sama skóla.

Spurt er

Á Ísland að hefja aðildarviðræður við ESB?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 33178

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband